| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Það mætti stundum halda að Liverpool væri í Manchester eða öfugt. Everton er í Liverpool en samt finnst mörgum helsta grannarimman vera þegar Liverpool og Manchester United ganga á hólm. Ein slík fer fram í Manchester á morgun.

Af leikjum Liverpool við Everton og Manchester United á þessu keppnistímabili þá hefur Liverpool unnið alla þrjá leikina. Þrátt fyrir sigur í þessum erfiðu leikjum er Liverpool alltof langt á eftir efstu liðunum. Staðreyndin er sú að það eru nefnilega jafn mörg stig í boði fyrir sigur í hverjum leik sama hver mótherjinn er. Liverpool hefur brugðist í mörgum leikjum gegn liðum sem eru á pappírnum talin veikari. Leikmenn Manchester United verða ekki vanmetnir á morgun og leikmenn Liverpool munu án efa mæta ákveðnir til leiks. Það munu heimamenn líka gera. En það eru bara þrjú stig í boði fyrir sigur!

Fróðleiksmolar...

- Liverpool hefur unnið tvo síðustu leiki sína og skorað sjö mörk.

- Liverpool hefur unnið þrjá síðustu leiki þessara liða. 

- Liverpool hefur ekki skorað mark í síðustu fjórum útileikjum, í deildinni, á þessari leiktíð og ekki unnið neinn á þessu ári.

- Manchester United hefur skorað 26 mörk í síðustu sjö deildarleikjum á Old Trafford.

- Manchester United hefur ekki fengið á sig mark á heimavelli í deildarleik frá því í desember.

- Jose Reina hefur nú einn manna spilað alla deildarleiki Liverpool á þessari leiktíð.

- Þeir Lucas Leiva og Dirk Kuyt léku ekki gegn Portsmouth í síðasta leik en höfðu fram að þeim leik spilað alla deildarleiki Liverpool á þessari leiktíð.
 
- Fernando Torres hefur skorað flest mörk Liverpool á keppnistímabilinu eða seytján talsins.

Spá Mark Lawrenson

Manchester United v Liverpool

Heimamenn verða sterkari og sterkari eftir því sem líður að lokum leiktíðar. Ég spáði Chelsea sigri í deildinni fyrir leiktíðina en ef ég mætti núna breyta yfir í Man Utd myndi ég vera mjög ánægður. Ég á von á því að Rafael Benítez muni spila með átta menn í vörn! Það kemur Liverpool til góða að Fernando Torres virðist vera að komast í gang og hann er hættulegur. United stafar ógn og hræðsla af honum.

Úrskurður: Manchester United v Liverpool 1:1.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan