| Grétar Magnússon

Mörk frá Gerrard og Torres dugðu til sigurs

Það var ánægjulegt að sjá Fernando Torres og Steven Gerrard saman á lista yfir markaskorara dagsins en þeir fóstbræður hafa ekki skorað oft í sama leiknum á þessu tímabili.  Það gerðist í dag gegn Blackburn og þrjú stig voru í höfn.

Fernando Torres var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu síðan þann 13. janúar, Benítez gerði þrjár aðrar breytingar frá leiknum í Rúmeníu á fimmtudagskvöldið en þeir Fabio Aurelio, Dirk Kuyt og Maxi Rodriguez komu inn í byrjunarliðið í stað þeirra Emiliano Insua, David Ngog og Ryan Babel.

Ljóst var fyrir leikinn að sigur væri mjög mikilvægur í baráttunni um fjórða sætið því Manchester City og Tottenham höfðu unnið sína leiki í deildinni um helgina.

Gestirnir byrjuðu þó betur í leiknum og Christopher Samba fékk ágætis skallafæri á 5. mínútu en hann skallaði beint í hendurnar á Pepe Reina í markinu.  Þeir Martin Olsson og Morten Gamst Pedersen reyndu svo fyrir sér með langskotum en sá fyrrnefndi skaut yfir á meðan Reina þurfti að verja skot Norðmannsins.

Eftir 16 mínútna leik náði svo Pederson boltanum af Lucasi á miðjum vallarhelmingi Liverpool manna, hann sendi fram á við á Nikola Kalinic.  Króatinn lék inná vítateiginn, sneri svo við og ætlaði að senda boltann í fjærhornið framhjá Reina.  Sem betur fer fyrir heimamenn fór boltinn framhjá.  Varla hefur Rafa Benítez verið ánægður með byrjun sinna manna í leiknum þegar þarna var komið við sögu.

En á 20. mínútu náðist góð sókn sem byrjaði með því að Lucas sendi boltann framávið á Steven Gerrard sem lék skemmtilegan einnar snertingar bolta við Kuyt á miðjunni.  Gerrard sendi boltann til vinstri á Benayoun sem lék inná teiginn.  Hann sendi boltann svo inná miðjan teiginn þar sem Gerrard kom aðvífandi, hann tók boltann nokkuð óvænt með sér með hnénu og var þar með kominn einn gegn Paul Robinson markverði Blackburn.  Fyrirliðinn gerði engin mistök og sendi boltann í markið með vinstri fæti.  Vel gert og liðið komið með forystu.

Leikmenn Liverpool hresstust við markið og átti Fabio Aurelio meðal annars fast skot sem stefndi á markið en varnarmaður Rovers náði að komast fyrir.  Dirk Kuyt hefði svo átt að gera betur er hann vann skallabolta á markteig eftir hornspyrnu en hann skallaði framhjá markinu.

Fabio Aurelio þurfti svo að fara meiddur af leikvelli á 40. mínútu og kom Emiliano Insua inn á. Meiðslaólán Brasilíumannsins er með öllum ólíkindum.  Nokkrum andartökum síðar sóttu leikmenn Blackburn fram völlinn en Benayoun stöðvaði sóknina og hreinsaði frá, boltinn barst beint í fæturna á andstæðingi sem sendi boltann inná teiginn aftur þar sem nokkrir leikmenn reyndu að ná til boltans. Jamie Carragher lá í grasinu og var óheppinn að fá boltann í vinstri höndina á sér.  Dómarinn gat lítið annað gert en að dæma vítaspyrnu.  Úr henni skoraði Keith Andrews en Reina var ekki langt frá því að verja skotið. Boltinn fór undir hann og í markið.

Allt leit út fyrir að liðin færu með jafna stöðu til hálfleiks en á 44. mínútu sendi Lucas góða sendingu inn fyrir vörn Blackburn sem Torres elti.  Christopher Samba var fyrri til að ná í boltann er hann renndi sér og sendi boltann út til hægri.  Þar kom Maxi Rodriguez aðvífandi og hann sendi boltann rakleitt fyrir markið aftur þar sem Torres var réttur maður á réttum stað til að setja boltann í markið.  Markið má að miklu leyti skrifa á Paul Robinson sem fór of langt út úr markinu en heimamenn fögnuðu vel og héldu með forystu til leikhlés.

Síðari hálfleikinn hófu heimamenn betur og átti Maxi Rodriguez meðal annars góða fyrirgjöf sem Robinson þurfti að slá frá markinu.  Rétt áður hefði Agger átt að gera betur er hann skallaði yfir markið á fjærstöng eftir hornspyrnu.  Kuyt átti svo ágætan skalla að marki eftir aukaspyrnu en boltinn fór beint á Robinson.  Hollendingurinn var svo aftur á ferðinni er hann tók hjólhestaspyrnu inní vítateig sem fór rétt framhjá markinu. Reyndar áttu gestirnir að vera einum færri þegar hér var komið við sögu en með ólíkindum var að Steven Nzonzi skyldi ekki vara rekinn af velli eftir að hafa slegið Lucas í framan og bætt svo um með því að rífa Brasilíumanninn niður!

Blackburn menn vöknuðu til lífsins um miðjan síðari hálfleikinn og voru þeir sterkari það sem eftir lifði leiks.  Nokkrum sinnum máttu varnarmenn Liverpool hafa sig alla við að hreinsa frá markinu er há sending eftir háa sendingu dældust inná vítateiginn og þurfti Jose Reina að verja glæsilega til að koma í veg fyrir jöfnunarmark undir lokin. Christopher Samba átti þá skalla úr teignum sem Jose varði með því að henda sér til hliðar. Frábær markvarsla sem tryggði sigurinn. Þegar dómarinn flautaði svo til leiksloka var sigrinum vel fagnað og menn gátu andað léttar.

Liverpool:  Reina, Mascherano, Agger, Carragher, Aurelio (Insua, 39. mín.), Leiva, Gerrard, Benayoun (Babel 81. mín.), Rodriguez, Kuyt og Torres (Ngog 90. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Cavalieri, Kelly, Ayala og Aquilani.

Mörk Liverpool:  Steven Gerrard (20. mín.) og Fernando Torres (44. mín.).

Gult spjald:  Lucas Leiva.

Blackburn Rovers:  Robinson, Givet, Samba, Olsson (Chimbonda 51. mín.), Salgado, Pedersen, Andrews, Nzonzi (Grella 60. mín.), Hoilett (Roberts, 65. mín.), Diouf og Kalinic.  Ónotaðir varamenn:  Brown, Dunn, Emerton og Di Santo.

Mark Blackburn:  Keith Andrews (40. mín.), vítaspyrna.

Gul spjöld:  Salgado, Olsson, Nzonzi, Kalinic og Diouf.

Áhorfendur á Anfield Road: 42.795.

Maður leiksins:  Pepe Reina.  Spánverjinn þurfti oftar en ekki að hafa sig allan við í baráttunni við stóra og stæðilega Blackburn menn inni í vítateig og t.d. meiddist hann lítillega á öxl eftir samstuð við Nikola Kalinic.  Það kom þó ekki í veg fyrir glæsilega markvörslu seint í síðari hálfleik þegar Blackburn menn reyndu allt til að jafna leikinn.  Reina sýndi það og sannaði í dag að hann er einn mikilvægasti leikmaður liðsins og hefur hann spilað hvað best allra á þessu tímabili.

Rafael Benítez:  Þetta var mikilvægur sigur.  Við reynum að láta verkin tala inni á vellinum.  Ef þeir eru ánægðir með sína spilamennsku undir stjórn þessa knattspyrnustjóra þá er það þeirra mál.  Sumir þurfa að tala á blaðamannafundi fyrir eða eftir leik vegna þess að þeir eiga erfitt með að spila vinna vinnu sína á knattspyrnuvellinum."

Fróðleikur:

- Fernando Torres skoraði sitt 13. mark á tímabilinu og hafa þau öll komið í Úrvalsdeildinni. Þar hefur hann spilað 17 leiki.

- Steven Gerrard skoraði sitt áttunda mark á tímabilinu og það sjötta í deildinni.

- Fabio Aurelio lék sinn 110. leik með Liverpool. Hann hefur skorað fjögur mörk.

- Javier Mascherano spilaði sem hægri bakvörður í leiknum vegna vandræða með meiðsli og bönn varnarmanna.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan