| Ólafur Haukur Tómasson

Lucas ánægður með hugarfarið

Miðjumaðurinn Lucas Leiva sem hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Liverpool á leiktíðinni og átt nokkra mjög góða leiki er ánægður með sigurinn á Tottenham á miðvikudaginn síðastliðinn en með sigrinum komst Liverpool aftur í baráttuna um fjórða sætið.

"Þetta var mjög mikilvægur sigur. Við vissum fyrir leikinn að við ættum möguleika á að komast einu stigi á eftir Tottenham og komast í snertingu við eitt af efstu fjóru sætunum. Við vitum að þessi leiktíð hefur ekki verið góð en við verðum að halda þessum krafti og hugarfari en við höfum rætt mikið um þetta í búningsklefanum. Við verðum að fullvissa okkur um að halda áfram ákveðnini sem við sýndum gegn Stoke og Tottenham, ef við gerum það þá verðum við ofarlega í lokin það er ekki spurning. Við höldum áfram að berjast um efstu fjóru sætin. Stundum er erfitt að spila af ákefð og Tottenham reyndu að halda boltanum, þeir hafa marga góða leikmenn." sagði Lucas.

Leikmönnum Liverpool bauðst mikill stuðningur þegar liðið mætti í rútu sinni fyrir utan Anfield en þar hafði safnast saman fjöldi stuðningsmanna liðsins sem mættu með alla tiltæka fána, sungu lögin og fögnuðu gífurlega þegar liðið renndi í hlað. Stemmingin í leiknum var svo frábær og virtist gefa liðinu mikinn kraft sem nýttist til að leggja sterkt lið Tottenham af velli.

"Stuðningsmennirnir voru frábærir. Þeir voru á bakvið okkur allan leikinn og nú getum við ekki bara hætt því sem við erum að gera því við eigum svo marga leiki eftir óspilaða. Febrúar verður stór mánaður en við munum halda sama hugarfari. Við vissum í upphafi leiktíðar að mörg lið myndu tapa stigum, þar á meðal við. Nú höfum við hins vegar tækifæri og við verðum að gleyma öllu því sem áður hafði gerst og halda einbeitingunni. Nú bíður okkar annar stórleikur gegn Wolves."

Knattspyrnustjórinn Rafael Benítez hefur fengið mikla gagnrýni fyrir frammistöðu Liverpool í vetur og kemur Lucas honum til varnar: "Það er auðvelt að kenna einni manneskju um allt. Rafa er mjög góður stjóri og við höfum sýnt það í síðustu leikjum að við leggjum hart að okkur fyrir hann. Við höfum trú á hæfileikum hans og hæfileikum liðsins." bætti Lucas við.

Lucas hefur tekið þátt í öllum leikjum Liverpool á leiktíðinni og staðið sig að mörgu leyti vel en hann hefur verið í erfiðri stöðu þar sem hann hefur átt að fylla upp í skarðið sem Xabi Alonso skildi eftir sig þegar hann gekk í raðir Real Madrid í sumar. Lucas hefur hins vegar svarað allri gagnrýni sem hann hefur hlotið síðustu mánuði og spilað mjög vel í liði Liverpool á leiktíðinni, ekki nóg með það heldur hefur hann einnig verið valinn í landsliðshóp Brasilíu.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan