| Sf. Gutt

Bill Shankly minnst í kvöld!



,,Það bar til um þessar mundir" stendur á góðum stað. Þetta orðfæri mætti vel nota um atburði sem gerðust í Liverpool fyrir hálfri öld. Nú um þessar mundir eru fimmtíu ár liðin frá því Bill Shankly tók við sem framkvæmdastjóri Liverpool. Í kvöld, þegar Liverpool mætir Wigan Athletic, verður hans minnst á Anfield Road með viðeigandi hætti.
 
Myndverk verður skapað á The Kop og sálmurinn kunni Amazing Grace verður leikinn. Sá sálmur var í miklu uppáhaldi hjá Skotanum Bill.

Heiðurgestir verða fjölskylda og nánin skyldmenni Bill Shankly. Í leikhléi munu svo nokkrir leikmenn, sem léku undir stjórn Bill hjá Liverpool, koma út á völlinn. Í þeim hópi verða Tommy Lawrence, Roger Hunt, Ian St John, Gerry Byrne, Ron Yeats, Chris Lawler, Willie Stevenson, Geoff Strong, Ronnie Moran, Tommy Smith, Kevin Keegan, Phil Thompson, Steve Heighway og Gordon Milne.

Þann 1. desember 1959 var tilkynnt að Bill Shankly yrði næsti framkvæmdastjóri Liverpool. Hann kom svo til starfa hjá félaginu þann 14. desember. Fimm dögum seinna stjórnaði hann Liverpool, sem þá var í annarri deild, í fyrsta sinn. Liverpool tapaði 4:0 fyrir Cardiff en eftir það fór smá saman að ganga betur.  
 
Víst er að áhorfendur á Anfield Road og þá sérstaklega í Kop stúkunni munu hylla þennan mikla meistara í kvöld. Andi Bill Shankly svífur ætíð yfir Anfield en í kvöld verður hans lílklega meira vart en venjulega. Vonandi blæs hann líka leikmönnum Liverpool eldmóð í brjóst. Ekki veitir af!  



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan