| Sf. Gutt

Vinnum Evrópudeildina!

Liverpool mun ekki spila í Meistaradeildinni eftir áramót. Liðið tekur þess í stað þátt í Evrópudeildinni og Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, vill vinna hana. Hann hafði þetta að segja í Ungverjalandi í fyrrakvöld.

"Það versta var að þurfa að treysta á önnur lið í kvöld. Við spiluðum frábærlega og verðskulduðum að ná þremur stigum hérna í kvöld. Þess vegna er maður vonsvikinn yfir því að komast ekki áfram í Meistaradeildinni. Maður er sinnar eigin gæfu smiður í þessari keppni og þessi tvö síðbúnu mörk sem við fengum á okkur gegn Lyon komu okkur í koll. Það þýðir ekki meira að hugsa um þetta núna. Þetta er liðið og við verðum að halda baráttunni áfram. Við erum núna komnir í Evrópudeildina og við ætlum okkur að reyna að vinna hana."

Steven segir það mikil vonbrigði að komast ekki lengra í Meistaradeildinni því það sé keppni sem allir vilja taka þátt í. Leikmenn Liverpool eru líka vanir að vera meðal þeirra bestu og liðið hefur náð frábærum árangri í Meistaradeildinni á síðustu árum. En nú verður keppt á öðrum vettvangi. 

"Stærstu verðlaunin eru auðvitað ekki lengur í boði. Í upphafi hvers keppnistímabils vill maður komast eins langt í Meistaradeildinni og hægt er. Það eru því auðvitað vonbrigði að spila í Evrópudeildinni. Við verðum þó einfaldlega að sætta okkur við það og reyna að vinna þá keppni. Það eina sem maður getur huggað sig við eftir að vera úr Meistaradeildinni er að það er önnur keppni í boði."

Liverpool er úr Meistaradeildinni og liðið þarf að ná einu af fjórum efstu sætunum í deildinni til komast í þá góðu keppni á næsta keppnistímabili.

"Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að við verðum að reyna að ná einu af fjórum efstu sætunum. Keppnin skiptir máli frá fjárhagslegu sjónarmiði og eins er það mikilvægt fyrir leikmennina sjálfa að spila í henni. Hún er jú keppni þeirra bestu. Núna verðum við að fara til Everton á sunnudaginn, reyna að ná þeim þremur stigum sem þar eru í boði og koma okkur í hóp fjögurra efstu liða sem allra fyrst. Ég hef mikla trú á að liðið geti náð langri sigurgöngu núna þegar flestir leikmennirnir, sem hafa verið meiddir, eru að koma aftur til leiks."

Liverpool hefur þrívegis, 1973, 1976 og 2001, unnið Evrópukeppni félagsliða sem nú kallast Evrópudeildin.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan