| Grétar Magnússon

Leikur númer 200

Rafa Benítez stjórnar liði Liverpool í Úrvalsdeildinni í 200. sinn á sunnudaginn kemur gegn Manchester United.  Um þessar mundir heyrast háværar raddir um að Benítez sé ekki rétti maðurinn til að stjórna liðinu lengur eftir fjóra tapleiki í röð en tölfræðin talar öðru máli.

Í þeim 199 leikjum sem liðið hefur spilað undir stjórn Benítez til þessa í Úrvalsdeildinni hefur sigur unnist í 113 skipti, gerir það 56,8 % vinningshlutfall.

Sé þessi árangur borinn saman við þá Alex Ferguson og Arsene Wenger má sjá að árangur Benítez er betri en þeirra.  Ferguson vann aðeins 87 leiki af fyrstu 200 sem hann stjórnaði hjá United í deildinni en hann tók við liðinu árið 1986, sem gerir 43,5 % vinningshlutfall.  Tók það sjö ár hjá Ferguson að vinna titil hjá félaginu.

Wenger stýrði Arsenal til sigurs í 110 leikjum af sínum fyrstu 200, 55 % vinningshlutfall, en hann var ráðinn árið 1996, liðið vann svo Úrvalsdeildina tímabilið 1997-98.

Aðeins einn stjóri í sögu félagsins státar af betri árangri í sínum fyrstu 200 leikjum en það er enginn annar en goðsögnin Kenny Dalglish.  Hann stýrði liðinu til sigurs í 120 leikjum af sínum fyrstu 200 sem gerir 60 % vinningshlutfall.

Bob Paisley er með jafn marga sigurleiki og Benítez er með núna, 113 sem gerir 56,5 % vinningshlutfall, Bill Shankly sigraði í 106 leikjum (53 %) og Gerard Houllier í 101 (50,5 %).

Þó svo að félagið eigi við erfiðleika að stríða núna eftir fjóra tapleiki í röð má ekki gleyma því að árangur Rafa Benítez er góður.  Stuðningsmenn vilja þó meira en allt að liðið nái að vinna Úrvalsdeildina og þó svo að sú von sé veik sem stendur má ekki gefast upp.  Nóg er eftir af tímabilinu og allt getur gerst ennþá, nú vonumst við bara eftir því að sigur vinnist á sunnudaginn til að liðið komist aftur á rétta braut.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan