| Grétar Magnússon

Gerrard og Torres ekki með á morgun

Steven Gerrard og Fernando Torres verða ekki með gegn Sunderland á morgun vegna meiðsla.  Gerrard er meiddur á nára og Torres á við eymsli í vöðva í fæti að stríða.  Ljósið í myrkrinu eru hinsvegar góðar fréttir af Sotirios Kyrgiakos.

Óttast var að Kyrgiakos yrði frá meiðsla í allt að sex mánuði eftir að hann meiddist í leik með gríska landsliðinu í miðri viku.  Eftir að hafa farið í skoðun hjá læknaliði félagsins hefur hinsvegar komið í ljós að hann verður aðeins frá í viku til tíu daga.

Rafa Benítez hafði þetta að segja um meiðsli leikmanna:  ,,Bæði Steven og Fernando eiga við meiðsli að stríða.  Þeir þurfa meiri tíma og verða ekki tiltækir um helgina.  Ég held að þeir ættu að vera klárir fyrir leikinn gegn Lyon í næstu viku."

,,Við vorum mjög áhyggjufullir varðandi Kyrgiakos því fólk var að tala um að hann yrði frá í allt að sex mánuði, en eftir skoðun höldum við að hann verði frá í viku til tíu daga.  Það er mjög jákvætt."

Góðar fréttir bárust einnig af Dirk Kuyt en hann meiddist í landsleik Hollendinga í Ástralíu um síðustu helgi.  Benítez sagði:  ,,Kuyt er í góðu lagi.  Hann hefur verið að æfa eins og venja er og hann verður klár um helgina."

Suður-Ameríkumennirnir Javier Mascherano, Emiliano Insua og Lucas Leiva eru allir komnir aftur á Melwood eftir langt ferðalag.  Enginn þeirra kennir sér meins og verða allir í hópnum sem ferðast til Sunderland.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan