| Heimir Eyvindarson

Yossi Benanyoun: Fullkominn dagur!

Yossi Benayoun segist aldrei hafa spilað betur fyrir Liverpool en í leiknum gegn Burnley í gær.

Benayoun átti stjörnuleik í gær, skoraði þrennu og var óheppinn að ná ekki fernu, en mark sem hann skoraði í seinni hálfleik var dæmt af vegna meintrar rangstöðu. Sá dómur þótti heldur vafasamur.

Sigurinn á Burnley var þriðji sigur Liverpool á leiktíðinni og liðið virðist nú hafa rekið af sér slyðruorðið, eftir heldur skrykkjótta byrjun á leiktíðinni.

,,Það var frábært að skora þrennu, en auðvitað skiptir meginmáli að við skyldum ná okkur í 3 dýrmæt stig. Við spiluðum mjög góðan fótbolta á köflum og unnum leikinn - fyrir mér er það mun mikilvægara en hvort ég skora eða ekki."

Í fjarveru Mascherano spilaði Steven Gerrard aftar á miðjunni en hann hefur gert í undanförnum leikjum og við það fékk Benayoun stærra hlutverk í sóknarleik liðsins. Benayoun segist hafa kunnað mjög vel við sig í þeirri stöðu og er á því að leikurinn hafi verið hápunktur ferils síns hjá Liverpool.

,,Ég byrjaði á hægri vængnum en Rafa sagði mér að vera hreyfanlegur og reyna að finna pláss. Það gekk vel og liðsfélagarnir voru duglegir að finna mig. Þetta var fullkominn dagur fyrir mig."

Benayoun viðurkennir að Liverpool liðið hafi ekki verið upp á sitt besta í upphafi leiktíðarinnar, en vonast til að nú hafi liðið fundið rétta taktinn.

,,Við byrjuðum ekki vel og það var ákveðið áfall að vera búnir að tapa tveimur leikjum svona snemma leiktíðar. Ég held að landsleikjahrinan hafi komið á hárréttum tíma fyrir okkur. Það var ágætt að fá smá tíma til að taka sig saman í andlitinu og vonandi erum við komnir á beinu brautina núna."

Aðspurður um hvað honum finnist um að margir sparksérfræðingar hafi nú þegar afskrifað möguleika Liverpool á að vinna deildina segist Benayoun ekki fást sérstaklega um það.

,,Kannski er það bara betra fyrir okkur. Það léttir pressunni af okkur, en ég held nú að allir hafi séð það í gær að við höfum alla burði til að blanda okkur í baráttuna. Við verðum bara að taka einn leik í einu og byggja sjálfstraustið upp hægt og rólega. Vonandi skilar það okkur á réttan stað þegar upp er staðið." 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan