| Heimir Eyvindarson

Steven aftur á miðjuna í dag?

Rafael Benítez mun hugsanlega færa Steven Gerrard aftar á miðjuna í leiknum gegn Bolton í dag, til að freista þess að koma liði sínu, sem og fyrirliðanum í rétta gírinn.

Liverpool sækir stigalausa nágranna sína í Bolton heim kl. 14.00 í dag og freistar þess að ná sér á strik eftir 3-1 tapið gegn Aston Villa á mánudaginn. Steven Gerrard átti það sammerkt með liðsfélögum sínum í þeim leik að fátt gekk upp hjá honum og ekki varð vítaspyrnan sem hann gaf Villa mönnum í restina til þess að bæta ástandið.

Benítez ætlast að sjálfsögðu til þess að menn rífi sig upp fyrir leikinn í dag og viðurkennir að hafa velt fyrir sér möguleikanum á breyttu leikskipulagi.

,,Ég var spurður að því eftir leikinn gegn Aston Villa hvort andstæðingar okkar væru ekki búnir að átta sig á leikskipulagi okkar og réðu þessvegna svona auðveldlega við okkur. Staðreyndin er sú að flest lið í deildinni spila sama kerfi og við, 4-4-2 og vinna og tapa á víxl þannig að leikkerfið sem slíkt er í sjálfu sér ekki aðalatriðið. Við verðum einfaldlega að vinna betur hver fyrir annan, þétta okkar leik og fá betri hreyfingu á liðið."

,,Það að færa Steven aftar á miðjuna, eins og við gerðum í seinni hluta leiksins gegn Aston Villa, er einn af þeim kostum sem við þurfum að skoða. Samvinna hans og Fernando Torres er mjög góð frammi en að sama skapi er Gerrard flestum betri í að skapa hreyfingu og spil á miðjunni og hugsanlega gagnast hann okkur betur þar. Ég hef hinsvegar enn fylla trú á að Mascherano og Lucas geti leyst miðjustöðurnar."

Fjölmiðlar í Bretlandi, og víðar raunar, hafa einnig velt því fyrir sér hvort hópurinn hjá Liverpool sé nægilega sterkur til að vinna deildina, en bekkur Liverpool liðsins hefur þótt heldur þunnskipaður á köflum.

,,Það er rétt að við höfum átt í ákveðnum vandræðum, en það er fyrst og fremst vegna meiðsla. Þetta er meira og minna sami hópurinn sem náði í 86 stig í deildinni í fyrra. Fabio Aurelio er að koma til baka eftir meiðsli og verður vonandi með í dag. Daniel Agger er frá og Aquilani er ekki orðinn leikfær enn. Ef við hefðum haft þessa þrjá menn á bekknum í síðustu kleikjum þá hefði fólk sagt að við værum með firnasterkan hóp!"

Grikkinn Sotirios Kyrgiakos gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið í dag, en hann spilaði 45 mínútur með varaliðinu í vikunni og Benítez staðfestir að hann verði í hópnum í dag.

,,Við létum Kyrgiakos spila 45 mínútur í vikunni svona rétt til að koma honum í kynni við enska boltann. Hann fékk auðvitað ekki mikla reynslu, en smá smjörþef í það minnsta. Hann gæti þurft að byrja inn á dag því við vitum ekki hvort Skrtel verður heill." 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan