| Sf. Gutt

Tap í fyrsta leik

Liverpool mátti þola tap í fyrstu umferð Úrvalsdeildarinnar. Liðið lék alls ekki vel og ekkert gekk upp þegar Tottenham vann 2:1 sigur. Þetta var þriðja tap Liverpool í röð á White Hart Lane. 

Það var sannkölluð sumarblíða í höfuðborginni þegar leikmenn Tottenham og Liverpool gengu til leiks síðdegis í dag. Áður en leikurinn hófst var minning Sir Bobby Robson, sem lést á dögunum, heiðruð með lófaklappi. Það var mikill hraði í leiknum til að byrja með og áttu leikmenn erfitt með að ná einhverju samspili. Eftir stundarfjórðung stukku þeir Martin Skrtel og Jamie Carragher upp til að skalla boltann frá en ekki tókst betur til hjá þeim félögum en að þeir skölluðu saman og voru báðir sárir eftir. Martin meiddist á kjálka og það varð að binda um höfuð Jamie. Báðir gátu haldið áfram en hvougur lék vel þar eftir.

Það var loks eftir hálftíma að færi gafst. Fyrst átti Steven langskot framhjá en rétt á eftir fékk Spurs dauðafæri. Luka Modric kom boltanum fyrir markið frá vinstri beint á kollinn á Robbie Keane sem var algerlega ódekkaður fyrir miðju marki. Jose var vandanum vaxinn og varði skalla hans vel. Rétt á eftir sendi Luka góða sendingu inn á vítateiginn. Þar komst Robbie í gott færi en Jose sá aftur við honum og varði þegar fyrrum félagi hans hugðist lyfta boltanum yfir hann. Á 42. mínútu fékk Robbie þriðja færi sitt en hann þrumaði hátt yfir frá vítateignum. Var hann þar í góðu skotfæri. Allt leit út fyrir markaleysi í hálfleik þar til Tottenham fékk aukaspyrnu rétt utan vítateigs þegar mínútu lifði af hálfleiknum. Tom Huddlestone tók aukaspyrnuna en boltinn fór beint í varnarvegginn. Boltinn hrökk til Benoit Assou-Ekotto sem lagði hann fyrir sig og negldi hann út í vinstra hornið án þess að Jose átti möguleika á að verja. Heimamenn komnir með frumkvæðið og var ekki annað hægt að segja að það væri sanngjarnt.

Liverpool lék lítið betur eftir leikhlé en þó aðeins. Steven átti þó langskot snemma í hálfleiknum sem var ekki fjarri lagi. Á 53. mínútu varð Jose enn að taka á. Nú sló hann fast skot frá Wilson Palacios yfir. Þremur mínútum seinna náði Liverpool að jafna metin. Glen Johnson tók þá góða rispu framhjá tveimur mönnum inn í vítateiginn þar sem Heurelho Gomes, markmaður Tottenham, sópaði honum niður. Dómarinn dæmdi að sjálfsögðu vítaspyrnu. Steven Gerrard tók vítið og þrumaði boltanum upp undir slána. Þetta var fyrsta skot Liverpool á rammann í leiknum! Liverpool náði ekki að byggja á þessu jöfnunarmarki og eftir þrjár mínútur var liðið aftur komið undir. Luka sendi aukaspyrnu fyrir markið beint á Sebastian Bassong sem skallaði í markið. Jose átti ekki möguleika á að verja frekar enn í fyrra markinu. 

Lengi vel gekk ekkert hjá Liverpool en leikur liðsins lagaðist aðeins eftir að Yossi Benayoun kom til leiks og hann náði nokkrum sinnum að skapa usla í vörn Spurs. Á 72. mínútu skallaði Fernando Torres rétt framhjá eftir góða sókn. Liverpool reyndi að jafna á lokakaflanum og liðið hefði átt að fá að minnsta kosti eitt víti á honum. Fyrst ruddi Benoit Assou-Ekotto varamanninum Andriy Voronin um koll þegar hann var að komast í gott færi og var alveg með ólíkindum að dómarinn skyldi ekki dæma víti. Varnarmaður handlék svo boltann þegar Yossi reyndi að gefa fyrir. Það hefði verið harður dómur að dæma víti þá en vissulega stöðvaði varnarmaðurinn far boltans. Sammy Lee mótmælti meintu ranglæti hástöfum og var rekinn af varamannabekknum.  

Liverpool tapaði og eftir stendur að liðið spilaði illa og leikmenn þess verða að gera miklu betur ætli þeir sér að vinna einhverja titla á þessu nýja keppnistímabili!

Tottenham Hotspur (4-4-2): H Gomes 5 - V Corluka 5 L King 7 S Bassong 7 B Assou-Ekotto 6 - A Lennon 6 W Palacios 7 T Huddlestone 6 L Modric 8 (J O´Hara 84. mín.),  - J Defoe 6 (R Pavlyuchenko 90. mín.) og R Keane 6. (P Crouch 5 - 68. mín.). Ónotaðir varamenn: C Cudicini, A Hutton, D Bentley og K Naughton. 

Liverpool (4-2-3-1): J M Reina 7 - G Johnson 6 J Carragher 5 M Skrtel 4 (D Ayala 75. mín.) E Insua 5 - J Mascherano 6 Lucas Leiva 5 - D Kuyt 6 (Voronin 79. mín.) S Gerrard 5 R Babel 4 (Y Benayoun 5 - 68. mín.) og F Torres 5. Ónotaðir varamenn: D Cavalieri, J Spearing, M Kelly og A Dossena. 

Einkunnir leikmanna af Timesonline.co.uk

Áhorfendur á White Hart Lane: 35.935.
 
Maður leiksins: Jose Reina. Spánverjinn stóð sig frábærlega í markinu og kom í veg fyrir að Spurs næði að skora fleiri mörk. Hann verður ekki sakaður um mörkin sem hann fékk á sig. 

Rafael Benítez: Við spiluðum ekki vel og þá sérstaklega ekki í fyrri hálfleik en við lékum miklu betur eftir leikhlé. Við sóttum af meiri krafti og sköpuðum okkur meiri færi en það er augljóst að við verðum að bæta okkur ef við ætlum að vinna svona leiki. Við verðum að spila betur á miðjunni, halda boltanum betur og ná betri samleik.

Fróðleikur: - Þetta var fyrsta tap Liverpool í fyrstu umferð í sex ár. - Liverpool hafði fyrir þennan leik spilað ellefu deildarleiki án taps. - Liverpool tapaði tvívegis, í deild og Deildabikar, á White Hart Lane á síðustu leiktíð. - Þeir Glen Johnson og Daniel Ayala léku í fyrsta sinn fyrir hönd Liverpool.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.



 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan