| Heimir Eyvindarson

Carra í 13. sæti.

Ef Jamie Carragher spilar gegn Arsenal n.k. þriðjudag, sem verður nú að teljast afar líklegt, færir hann sig upp um eitt sæti á listanum yfir leikjahæstu menn Liverpool frá upphafi.


Leikurinn gegn Arsenal verður 393. deildarleikur Carra fyrir Liverpool og þar með jafnar hann leikjafjölda Donald MacKinley sem spilaði fyrir Liverpool á árunum 1910-1929.

Carragher er langleikjahæsti leikmaðurinn í Liverpool liði dagsins í dag. Næsti maður á listanum, sjálfur Steven Gerrard, á enn 60 leiki í að ná Carragher.

Eftir Arsenal leikinn þarf Carragher síðan að spila 37 deildarleiki til að komast á lista yfir 10 leikjahæstu leikmenn liðsins frá upphafi. Takist honum það mun hann samt sem áður eiga 210 leiki eftir til að jafna leikjamet Ian Callaghan, sem spilaði hvorki meira né minna en 640 deildarleiki fyrir liðið á glæsilegum ferli sínum.

Met Ian Callaghan stendur væntanlega óhaggað um ókomna tíð, enda hreint með ólíkindum hve marga leiki sá snillingur lék. Til marks um yfirburði Callaghans á listanum má benda á að næstleikjahæsti leikmaður félagsins, Billy Liddell, spilaði 492 deildarleiki fyrir liðið, eða 148 leikjum færra en Callaghan!

Við vonum auðvitað að Carragher verði í toppformi í mörg ár í viðbót og hver veit nema hið ótrúlega met Ian Callaghan verði slegið einhvern daginn. Það væri ekki amalegt fyrir félagið ef það yrði meistari Jamie Carragher sem næði því.

Hér má sjá listann yfir þá 15 leikmenn sem hafa spilað flesta deildarleiki fyrir félagið frá upphafi:

  1. Ian Callaghan - 640
  2. Billy Liddell - 492
  3. Emlyn Hughes - 474
  4. Ray Clemence - 470
  5. Ian Rush - 469
  6. Tommy Smith - 467
  7. Phil Neal - 455
  8. Bruce Grobbelaar - 440
  9. Alan Hansen - 434
10. Elisha Scott - 430
11. Chris Lawler - 406
12. Roger Hunt - 404
13. Donald MacKinlay - 393
14. Jamie Carragher - 392
15. Arthur Goddard - 386
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan