| Sf. Gutt

Stórsigur Liverpool færði liðinu von!

Alan Hansen, fyrrum leikmaður Liverpool, segir að stórsigur Liverpool á Manchester United hafi haldið von liðsins um Englandsmeistaratitilinn á lífi. Hann telur United enn sigurstranglegra en Liverpool eigi enn möguleika.

"Hinn frábæri sigur Liverpool á Old Trafford gerbylti ekki þróuninni í baráttunni um Úrvalsdeildartitilinn en hann olli því að leikmenn Manchester United þurfa að staldra aðeins við og hugsa málið. Í herbúðum Liverpool hefur þessi sigur aukið trú allra á að Rafael Benítez sé á réttri leið í starfi sínu og liðið sé í stöðugri framþróun. En það var ekki bara sigurinn sjálfur sem jók þessa trú heldur líka hvernig liðið spilaði í leiknum. Manchester United er enn með öll spil á hendi í baráttunni um titilinn. Það má ekki gleymast hversu vel liðið var búið að leika fram að laugardeginum og það er algjör vitleysa að halda því fram að liðið muni allt í einu missa dampinn út af þessu tapi."

"Eins og ég sagði þá mun sigur Liverpool varla setja titilbaráttunni í uppnám en þegar maður er að elta efsta liðið þá er ekkert annað hægt að gera en að vinna sína leiki og setja pressu á þá sem eru efstir. Liverpool hefði ekki getað gert þetta á áhrifameiri hátt en á laugardaginn. Þetta, eins og 4:0 sigur Liverpool á Real Madrid í Meistaradeildinni, var Rafael Benítez til mikils hróss. Það geta allir verið vissir um að ekkert lið vill mæta hans mönnum í Meistaradeildinni. Þessir tveir leikir sýna svo ekki er um að villast að Liverpool spilar best þegar þeir ráðast grimmir til atlögu við mótherja sína í stað þess að bíða átekta og sjá hvað þeir ætla að gera."

Þetta er brot úr pistli sem birtist á vefsíðu BBC.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan