| Sf. Gutt

Við vorum rosalegir!

Steven Gerrard lék sinn 100. Evrópuleik gegn Real Madrid þegar Liverpool vann hinn magnaða 4:0 sigur. Steven átti stórleik og skoraði tvö mörk. Hann segir að Liverpool hafi náð rosalegum leik gegn Real.

"Við gerðum út um leikinn á fyrstu 30 mínútunum í kvöld. Á þeim leikkafla fannst mér við vera alveg rosalegir. Í síðari hálfleik snerist þetta um að klára leikinn og við náðum sem betur fer að skora tvö mörk í viðbót. Svona úrslit auka sjálfstraustið mikið.  Við vorum allir mjög ánægðir með sigurinn. Það var mikilvægt að vinna og komast í átta liða úrslitin.

"Liðið lék alveg frábærlega í kvöld. Ég held að við höfum nokkuð oft náð að spila svona vel á móti liðum á Anfield í Evrópuleikjum. Þegar við spilum svona setjum við mikla pressu á mótherjana og höldum svo bara áfram að herja á þá."

Fyrirliðinn tileinkaði sigurinn meiddum félaga sem lagði grunninn að áframhaldi Liverpool í keppninni með sigurmarki í fyrri leiknum á Spáni.

"Núna í kvöld er rétt að nefna Yossi Benayoun. Hann var frábær í fyrri leiknum og var óheppinn að vera meiddur og missa af þessum leik."

Sem fyrr segir lék Steven Gerrard sinn 100. Evrópuleik og hann er aðeins annar leikmaðurinn í sögu Liverpool til að spila svo marga Evrópuleiki.

"Ég fékk nokkur textaboð í símann minn fyrir leikinn frá fólki sem óskaði mér góðs gengis í 100. Evrópuleiknum mínum. Ég er mjög stoltur yfir því að hafa náð þessum áfanga með þessu félagi og það jók enn á gleði mína að ég skyldi ná að skora tvö mörk. Mér fannst þó úrslitin í leiknum það ánægjulegasta."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan