| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Liverpool sýndi allar sínar bestu og verstu hliðar í síðustu viku. Vikan byrjaði á andlausum leik gegn Manchester City. Liverpool byrjaði illa, lenti undir en náði að herja fram jafntefli. Sem sagt endukomuhæfileikar og barátta liðsins komu vel í ljós í þessum leik. Næst var komið að útileik gegn Real Madrid. Trúlega áttu margir stuðningsmenn Liverpool von á hinu versta eða að minnsta kosti mjög erfiðum leik. En hvað gerðist? Liverpool gerði sér lítið fyrir og vann glæstan sigur. Hinir annáluðu Evrópukraftar liðsins komu vel í ljós og þegar upp var staðið kom sigurinn mörgum hreint ekkert á óvart!

Hefði þá ekki þriðji leikur vikunnar átt að gefa öruggan sigur? Ekki aldeilis! Liðið mátti þola tap fyrir Middlesbrough og kannski kom það ekki mörgum á óvart. Liverpool gengur jú jafnan hörmulega á Árbakka. En fyrir utan álögin á leikvanginum þá lék liðið langt frá sínu besta. Ekki má svo gleyma því að Rick Parry tilkynnti starfslok sín. Svona gengur knattspyrnulífið hjá Liverpool F.C. Upp og niður og sveiflurnar eru jafn margar og þær eru óútreiknanlegar.

Fróðleiksmolar...

- Liverpool er í þriðja sæti deildarinnar á eftir Manchester United og Chelsea.

- Liverpool tapaði sínum öðrum deildarleik gegn Middlesborough um helgina.

- Fyrri tapleikurinn var gegn Tottenham í nóvember.

- Eftir þann leik lék Liverpool 15 deildarleiki í röð án taps.

- Þeir Jose Reina, Jamie Carragher og Dirk Kuyt hafa leikið alla deildarleiki Liverpool á leiktíðinni. Þeir eru einu leikmenn Liverpool sem hafa gert það.

- Liverpool hefur aðeins unnið tvo af þeim sjö deildarleikjum sem liðið hefur leikið á árinu.

- Steven Gerrard er markahæsti leikmaður Liverpool á leiktíðinni með 15 mörk.

- Fyrri leikur liðanna í Sunderland var í fyrstu umferð deildarinnar.

- Einn fyrrum leikmaður Liverpool er í herbúðum Sunderland. Þetta er Djibril Cisse sem er reyndar í láni hjá Svörtu köttunum frá Marseille.

- Síðasti deildarleikur liðanna á Anfield Road. 2. febrúar 2008. Liverpool : Sunderland 3:0. Mark Liverpool: Peter Crouch (57. mín.), Fernando Torres (69. mín.) og Steven Gerrard, víti, (89. mín.). 

Spá Mark Lawrenson

Liverpool v Sunderland

Þetta var furðuleg vika hjá Liverpool. Liðið náði toppúrslitum í Madrid en á móti Middlesbrough var liðinu stillt undarlega upp og tap varð staðreynd. Sunderland er á hinn bóginn búið að vera í vetrarfríi því liðið átti frí um helgina. Liðið hefur náð góðum stöðugleika undir stjórn Ricky Sbragia. Mér finnst hann vera búinn að standa sig vel. Ég held að Svörtu Kettirnir eigi eftir að finna fyrir bakslagi Liverpool og það verður ekki heppilegt að spila við þá núna. Þeir Rauðu eru líka alltaf sigurstranglegri á Anfield.

Úrskurður: Liverpool v Sunderland 2:0.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan