| Grétar Magnússon

Fabio Aurelio hrósar sigurviljanum

Fabio Aurelio hrósaði karakter og sigurvilja liðsins í hástert eftir að hafa komið til baka gegn Portsmouth og sigrað 3:2.  Fabio sagði, í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins að andrúmsloftið inní búningsklefa eftir leikinn hefði verið frábært.

,,Það var virkilega mikilvægt að vinna og við héldum áfram allt til loka leiksins Stjórinn gerði margar breytingar á liðinu vegna þess að menn voru þreyttir eftir bikarleikinn við Everton í miðri viku og allir reyndu að gera sitt besta.  Við áttum í ákveðnum erfiðleikum í leiknum en við komum tvisvar til baka og við getum ekki annað en verið ánægðir með sigurinn."

,,Mér fannst við stjórna leiknum í fyrri hálfleik en í þeim seinni má segja að þetta hafi verið eins og í byrjun tímabilsins þegar við lentum undir og komum svo til baka.  Að vinna sigur í svona leik mun hjálpa okkur í baráttunni og styrkja okkur í þeirri trú að við getum barist allt til loka."

,,Það var mikilvægt að ná í þrjú stig, vegna þess að það eru tvær vikur í næsta leik.  Við erum með mikinn sigurvilja og það gefur okkur mikið sjálfstraust.  Við munum berjast allt til loka og setja pressu á Manchester United."

Fabio Aurelio skoraði gott mark í leiknum eftir óbeina aukaspyrnu inni í vítateig Portsmouth, hann sagði þetta um markið:  ,,Portsmouth var með alla leikmenn sína fyrir framan markið og það sem ég reyndi að gera var að sparka eins fast og ég gat í boltann og reyna að finna glufu. Það tókst sem betur og boltinn fór í netið.  Þetta var góð tilfinning og ég var ánægður með markið vegna þess að það hjálpaði liðinu að ná góðum úrslitum."

Fabio byrjaði leikinn á miðri miðjunni en það er staða sem hann er ekki vanur að spila öllu jöfnu og viðurkenndi hann að hann þurfti aðeins að venjast stöðunni:  ,,Þetta er ekki mín besta staða en ég spilaði stundum þarna hjá Valencia undir stjórn Rafa.  Ég hef ekki spilað á miðjunni lengi og stjórinn sagði mér á laugardagsmorguninn að ég myndi spila þar.  Það er alltaf erfitt að spila í stöðu sem maður er ekki vanur en ég reyndi að gera mitt besta og ég er ánægður vegna þess að liðið vann leikinn."

Um sigurmark Fernando Torres hafði Fabio þetta að segja:  ,,Þetta var ótrúlegt mark og frábær skalli frá Fernando.  Þetta var góð fyrirgjöf frá Yossi Benayoun með vinstri fæti.  Við vorum að grínast í Yossi í búningsherberginu eftir leikinn að hann skyldi hafa notað vinstri fótinn.  Við vorum ánægðir með að hann skyldi hafa ákveðið að nota hann í þetta skiptið."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan