| Ólafur Haukur Tómasson

Ngog lærir af Torres

Frakkinn efnilegi David Ngog hefur fengið þó nokkur tækifæri með aðalliði Liverpool á tímabilinu en hann var í fyrsta skipti valinn í byrjunarlið liðsins í deildarleik þegar Liverpool lagði Portsmouth af velli síðastliðinn laugardag.

Hann gekk til liðs við Liverpool í sumar frá franska liðinu Paris Saint German á tæplega eina og hálfa milljón punda en hann verður tvítugur í apríl. Hann hefur leikið í ellefu leikjum á tímabilinu og skorað eitt mark en það var í Meistaradeild Evrópu. Hann hefur sýnt góða takta en hann byrjaði feril sinn hjá Liverpool vel þegar hann skoraði tvö mörk í tveimur æfingaleikjum í sumar og hefur sýnt það á tímabilinu hversu efnilegur hann er.

Hann segir að hann hafi bætt sig mikið og læri eitthvað nýtt af samherjum sínum daglega og þá einna helst markahróknum Fernando Torres, en David hefur verið mikill markahrókur í gegnum tíðina og er markahæsti leikmaður unglingalandsliða Frakklands.

"Ég hef eytt miklum tíma í að fylgjast með Fernando Torres á æfingum og í leikjunum sem hann hefur leikið. Hann er frábær framherji - hann hreyfir sig vel, hann finnur svæði þar sem aðrir leikmenn gætu átt í erfiðleikum með en fyrst og fremst þá vinnur hann vel fyrir liðið. Ég læri mikið af honum.

Sumir framherjar spila fyrst og fremst fyrir sig, þeir bregðast aðeins við þegar boltinn kemur til þeirra. Ég vil ekki vera einn af þeim leikmönnum svo ég hef verið að fylgjast náið með því hvað Fernando er að gera.

En það er ekki bara Torres, heldur Dirk Kuyt og Steven Gerrard einnig - maður getur lært mikið af leikmönnum eins og þeim. Hvaða ungstirni sem er yrði himinlifandi að geta litið upp til þessara leikmanna og ég er mjög heppinn að geta lært af þeim daglega. Ég er að læra nýja hluti frá þeim daglega." sagði David við LFC Magazine.

Nú þegar Steven Gerrard er frá vegna meiðsla og mun vera frá næstu vikurnar þá er kjörið tækifæri fyrir David að grípa tækifærið og telur hann að hann sé reiðubúinn til að stíga upp fyrir liðið og létta álaginu af hinum sóknarmönnum liðsins.

"Ég er spenntur fyrir því að vera hér hjá Liverpool. Vonandi get ég heillað stjórann á æfingum daglega og spilað fleiri leiki á seinni hluta tímabilsins. Það er markmið mitt að verða leikmaður sem liðið þarfnast. Ég er framherji, ég á að skora mörk - það breytist ekki á milli Frakklands og Englands.

Það er sagt að England sé erfiðasta deildin fyrir framherja að spila í og þá sérstaklega ef þú kemur frá öðru landi, en ég er bjartsýnn og öruggur með þá hugmynd að ég geti gert það gott hér.

Að skora mörk er meðfæddur eiginleiki en til að nýta þennan hæfileika til fulls þá verðuru að taka bestu stöðurnar og þú verður að geta skilið hvernig sóknirnar munu þróast svo þér gæti tekist að vera á réttum stað á réttum tíma.

Ég veit að samherjar mínir munu búa til tækifæri, ekki bara hálf færi heldur góð færi þar sem ég verð að nýta þegar þau gerast. Ég vil meina að ég sé leikmaður sem hægt er að treysta á þegar kemur að því að skora mörk." sagði Frakkinn ungi.

Spennandi verður að sjá hvernig David mun þróast í vetur en hann hefur sýnt mikla hæfileika á tímabilinu og nú þegar Robbie Keane gekk til liðs við Tottenham þá munu að öllum líkindum opnast fleiri tækifæri fyrir David og jafnvel aðra unga leikmenn.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan