| Grétar Magnússon

Við getum borið höfuðið hátt

Rafa Benítez segir að leikmenn sínir geti borið höfuðið hátt eftir að hafa ráðið lögum og lofum gegn einu sterkasta liði Evrópu á sunnudaginn var.  Sjálfstraust leikmanna ætti að hafa bæst til muna eftir frammistöðuna.

Benítez segir að frammistaðan gegn Chelsea sé sönnun þess að liðið hafi það sem til þarf til að ná Manchester United á toppi deildarinnar, þrátt fyrir tveggja stiga forystu liðsins og þá staðreynd að þeir eigi leik til góða.

Hann sagði í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins:  ,,Við vorum betri en eitt besta liðið í Englandi og Evrópu - það er mjög mikilvægt.  Þetta var mjög gott fyrir sjálfstraust leikmannana.  Við höfum verið að fá á okkur mörk á lokamínútum leikja undanfarið en fyrr á tímabilinu vorum við sjálfir að skora mörk seint í leikjum," bætti hann við.  ,,Það er því mikilvægt að sýna þennan karakter alveg fram til lokamínútunnar í hverjum einasta leik."

,,Ef við getum gert þetta alveg fram að síðasta leik í deildinni þá verður það mjög gott fyrir okkur."

Benítez segir hinsvegar að hetja leiksins gegn Chelsea, Fernando Torres, sé ekki ennþá kominn í 100% leikform.  Stjórinn veltir því fyrir sér hvort hann eigi að tefla Spánverjanum fram gegn Everton í kvöld.

,,Vonandi var hann ekki að gera sitt allra besta - ég vona að hann geti bætt sig enn meira.  Hann á ennþá eftir að bæta leikformið.  Ef hann skorar þrjú mörk í leik þá munu allir segja að hann sé tilbúinn, en það er ennþá svigrúm hjá honum til að bæta sig.  Ég var að ræða það hvort hann geti spilað þrjá leiki á einni viku við Sammy Lee, Mauricio Pellegrino og Pace De Miguel.  Við munum sjá hvernig honum líður á leikdag og tökum svo ákvörðun.  Það er ekki auðvelt samt, vegna þess að hann hefur verið meiddur lengi undanfarið og við þurfum að passa hann."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan