| Sf. Gutt

Rafa segir Liverpool enn með í baráttunni

Liverpool hefur mátt þola mikla gagnrýni í fjölmiðlum eftir að hafa misst toppsætið í deildinni. Kurr er meðal stuðningsmanna Liverpool en Rafael Benítez segir Liverpool enn vera með í baráttunni um enska meistaratitilinn. Hann vonast til að febrúar færi sigra í staðinn fyrir öll jafnteflin í janúar.

"Við vitum að við höfum ekki náð að vinna leiki í janúar sem við hefðum getað unnið en það er jákvætt að við erum búnir með leiki okkar í janúar."

Rafa og liðið hans mátti þola mikla gagnrýni eftir jafnteflið við Wigan á miðvikudagskvöldið. Rafa fylgdist meðvitað ekki með henni.

"Ég get fullvissað ykkur um að ég las ekki blöðin eða horfði á sjónvarpið eftir leikinn. Ég vissi að það yrði mikið fjallað um leikinn og í staðinn fyrir að fylgjast með því þá naut ég samvista við fjölskyldu mína."

Rafa vill frekar líta á það jákvæða í stað þess að velta sér upp úr því sem ekki hefur gengið vel.

"Við erum með átta stigum meira en á sama tíma á síðustu leiktíð og tveimur stigum á eftir toppliðinu. Við erum í mjög góðri stöðu og ég er viss um að fólk mun tala jákvætt um okkur ef við náum að vinna Chelsea. Svona er knattspyrnan. Ég vil árétta að liðið hefur ekki verið í betri stöðu í 10 til 15 ár og við verðum að vera ánægðir með það. Í ágúst var lagt upp með að vera í baráttu um titilinn. Við vorum í betri stöðu og fólk var að tala um að þetta yrði árið okkar. Við erum enn með í baráttunni og við verðum að hafa trú á okkur. Ef við vinnum Chelsea verður sagt að við eigum möguleika. Ef okkur tekst ekki að sigra verðum við að halda áfram að berjast því þetta er langhalup."

En af hverju hefur Liverpool fatast flugið? Rafa hefur sína skýringu á því hvað þurfi að lagast hjá liðinu.

"Það er á hreinu að við þurfum að bæta sóknarleikinn. Við höfum haft góða stjórn á leikjunum og verið mikið með boltann en við þurfum að skapa okkur fleiri færi og nýta þau. Þetta þurfum við að bæta og við erum að reyna að gera það."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan