| Sf. Gutt

Enn einu sinni jafntefli

Liverpool gerði enn einu sinni jafntefli í kvöld þegar liðið sótti Wigan Athletic heim. Liðið lék ekki vel og henti frá sér sigri þannig að heimamenn náðu að jafna 1:1. Liverpool er nú í þriðja sæti deildarinnar.

Liverpool tók strax völdin á vellinum og héldum boltanum mikið til á upphafskaflanum. Fyrsta færið kom á 13. mínútu þegar Steven Gerrard sendi fyrir frá vinstri. Fernando Torres stökk manna hæst í teignum og skallaði að marki en boltinn fór í innanverða stöngina og þvert fyrir markið. Þar sluppu heimamenn vel. Leikurinn var tíðindalítill og nánast ekkert gerðist fyrr en undir lok hálfleiksins. Ryan Babel ógnaði loks á 38. mínútu en fast skot hans fór beint á Mike Pollitt markvörð Wigan. En Liverpool komst yfir á 41. mínútu. Javier Mascherano lék þá upp að vítateignum. Þar vann hann tæklingu og laumaði svo boltanum inn á vítateiginn. Þar kom Yossi Benayoun og lék á markvörð Wigan og skoraði svo úr geysilega þröngri stöðu við endamörkin hægra megin. Frábært mark hjá Ísraelanum sem sýndi í leiknum að hann getur gert góða hluti á góðum degi. Steven Gerrard var nærri búinn að auka muninn á lokamínútu hálfleiksins en bylmingsskot hans úr aukaspyrnu fór rétt yfir.   

Síðari hálfleikur var tíðindalítill líkt og sá fyrri. Liverpool hafði lengst undirtökin og heimamenn virtust aldrei verulega líklegir til að skora þrátt fyrir að berjast vel. Á 65. mínútu tók Yossi magnaða rispu inn á vítateiginn en Mike náði að verja frá honum. Boltinn hrökk út en vörn Wigan náði að bjarga í tvígang áður en hættunni var endanlega bægt frá. Á 73. mínútu vann Steven boltann rétt utan teigs og komst inn í teiginn en skot hans fór framhjá stönginni fjær. Á 81. mínútu komst Steven aftur einn inn á teig en varnarmaður náði að þrengja að honum þannig að ekkert varð úr. Heimamenn sneru vörn í sókn og fengu víti tveimur mínútum seinna. Vörn Liverpool opnaðist skyndilega og Jason Koumas komst inn á teig vinstra megin. Hann var nú svo sem ekkert að gera af sér þar en Lucas Leiva tók þá fáránlegu ákvörðun að sparka til Veilsverjans þannig að hann féll. Dómarinn dæmdi réttilega víti sem Egyptinn Mido skoraði úr af miklu öryggi. Þarna hleypti Liverpool Wigan inn í leikinn sem aldrei var mikið útlit á að myndi gerast og enginn mun nokkurn tíma skilja af hverju Lucas braut af sér þegar engin hætta var á ferðum. Rafael Benítez skipti nú Steven Gerrard af velli og sendi Robbie Keane til leiks. Stuðningsmenn Liverpool trúðu því vart að Steven hefði verið tekinn af velli. Liverpool hefði svo getað tapað á lokamínútunni þegar Wigan fékk aukaspyrnu. Varamaðurinn Hugo Rodallega tók aukaspyrnuna og náði frábæru skoti sem small í þverslánni á marki Liverpool. Enn eitt jafnteflið varð staðreynd og Liverpool varð einn einu sinni hált á því svellinu að gera ekki út um leik sem átti að vinnast!

Wigan Athletic: Pollitt, Melchiot, Boyce, Scharner, Figueroa, De Ridder (Koumas 63. mín.), Brown, Cattermole, Taylor (Camara 80. mín.), Zaki (Rodallega 77. mín.) og Mido. Ónotaðir varamenn: Kingson, Edman, Watson og Kapo.

Mark Wigan: Mido, víti (83. mín.).

Gul spjöld: Maynor Figueroa.

Liverpool: Reina, Arbeloa, Skrtel, Carragher, Aurelio, Benayoun (Kuyt 75. mín.), Leiva, Mascherano, Babel, Gerrard (Keane 84. mín.) og Torres (Riera 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Agger og Alonso.

Mark Liverpool: Yossi Benayoun (41. mín.).

Áhorfendur á JJB leikvanginum: 21.237.

Maður leiksins: Yossi Benayoun. Ísraelsmaðurinn lék vel á hægri kantinum og skapaði oft hættu með góðum rispum upp kantinn. Hann skoraði svo fallegt mark úr næstum því vonlausu færi.

Rafael Benítez: Við töpuðum tveimur stigum og við erum mjög vonsviknir. Hvert einasta stig í toppbaráttunni er mikilvægt. Við vorum miklu betri í fyrri hálfleik en við náðum ekki að gera út um leikinn og það var vandamálið.

Fróðleiksmolar: - Liverpool er í þriðja sæti í deildinni.  - Liverpool hefur ekki unnið deildarleik á þessu ári. - Þetta var fjórða jafntefli Liverpool í röð. - Yossi Benayoun skoraði annað mark sitt á leiktíðinni. - Yossi skoraði aðra leiktíðina í röð á JJB leikvanginum. Hann skoraði sigurmark Liverpool þar á síðustu leiktíð. - Mido skoraði í annað sinn gegn Liverpool á þessari leiktíð. Hann skoraði líka fyrir Middlesborough.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan