| Sf. Gutt

Aftur jafnt hjá Liverpool og Everton

Liverpool og Everton skildu jöfn 1:1 á Anfield Road í annað sinn á einni viku. Liðin þurfa að mætast í aukaleik á Goodison Park til að gera út um hvort liðið fer áfram í F.A. bikarnum. Liverpool lék mun betur en á mánudagskvöldið en það dugði ekki til.

Rafael Benítez gerði nokkrar breytingar á liði sínu en mikla athygli vakti að Robbie Keane var ekki í liðshópnum. Liverpool byrjaði betur og Xabi Alonso náði frákasti utan teigs á fyrstu mínútu en skot hans fór framhjá. Á 6. mínútu vildu leikmenn Everton fá vítaspyrnu þegar Alvaro Arbeloa og Steven Pienaar rákust saman. Steven datt en dómarinn dæmdi ekkert. Líklega hefði mátt réttlæta víti en Alvaro braut ekki viljandi af sér. Á 12. mínútu fékk Liverpool horn frá vinstri. Steven Gerrard sendi út á Jamie Carragher sem kom sér í stöðu með snjallri hreyfingu, inni í teignum, en skot hans fór svo í hliðarnetið. Liverpool sótti mjög en gat ekki skapað færi og annað gerðist ekki fyrr en á 27. mínútu þegar Everton komst yfir. Hornspyrna var send fyrir frá vinstri. Tim Cahill losaði sig frá varnarmönnum, sem gættu hans ekki, og skallaði að marki. Joleon Lescott breytti stefnu boltans fyrir miðju marki og Jose Reina kom engum vörnum við. Þeir Bláu fögnuðu innilega innan vallar sem utan og líklega trúðu þeir því varla að vera komnir yfir enda var þetta fyrsta marktilraun þeirra í leiknum. Liverpool sótti fram að leikhléi en ekkert gekk að skapa færi.

Linnulaus sókn Liverpool hélt áfram í síðari hálfleik og Everton komst varla fram fyrir miðju fram til leiksloka. Sóknin bar árangur á 54. mínútu. Steven vann þá skallaeinvígi á vallarhelmingi Everton. Fernando Torres tók við boltanum á lofti og sendi svo hælspyrnu án þess að boltinn kæmi við jörðina. Steven var kominn á svæðið og rauk inn á teig vinstra megin. Þaðan skaut hann góðu skoti sem hafnaði neðst í nærhorninu. Annað mark Steven gegn Everton á einni viku. Boltinn hafnaði aftur neðst í sama horninu á mánudagskvöldið. Tim Howard hefði átt að verja en Rauðliðar fögnuðu og markið sanngjarnt ef miðað er við gang leiksins. Þemur mínútum seinna bjargað Tim ótrúlega frá Steven. Hörð sókn Liverpool endaði með því að Steven fékk boltann í miðjum teig en á einhvern vegin í ósköpunum náði Tim að komast fyrir skotið og af honum fór boltinn yfir. Liverpool sótti án afláts og á lokakaflanum slapp mark Everton nokkrum sinnum. Tíu mínútum fyrir leikslok hættu ótrúlegamargir leikmenn Everton sér fram fyrir miðju. Liverpool sneri vörn í sókn og allt einu voru þrír leikmenn Liverpool á móti jafn mörgum Bláliðum. Steven fékk boltann hægra megin og renndi honum inn á vítateignn þar sem Dirk fékk hann einn á móti TIm en hann skaut beint á Bandaríkjamanninn. Dauðafæri og Dirk náði ekki að skora frekar en í síðustu vikurnar. Rétt á eftir komst Fernando færi en það var varið frá honum. Andrea Dossena átti svo gott langskot sem Tim varði. Líkt og í leiknum á mánudagskvöldið þá var vörn Everton frábær í leiknum. Liverpool verðskuldaði sigur í dag og liðið lék mun betur  en um daginn. Það þarf þó að skora fleiri mörk og hætta þessum jafnteflum. Í aukaleiknum á Goodison Park munu æurslit þessarar rimmu ráðst hvort sem liðin verða jöfn eða ekki þegar síðasta flaut gellur

Liverpool: Reina, Arbeloa, Skrtel, Carragher, Dossena, Kuyt, Alonso, Mascherano, Babel (Riera 75. mín.), Gerrard og Torres. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Hyypia, Aurelio, Benayoun, Lucas og Ngog.

Mark Liverpool: Steven Gerrard (54. mín.).

Gul spjöld: Xabi Alonso og Jamie Carragher.

Everton: Howard, Hibbert, Jagielka, Lescott, Baines, Anichebe (Gosling 71. mín.), Castillo (Rodwell 76. mín.), Neville, Osman, Pienaar og Cahill. Ónotaðir varamenn: Nash, Yobo, Van der Meyde, Jacobsen og Jutkiewicz.

Mark Everton: Joleon Lescott (27. mín.).

Gul spjöld: Tim Cahill og Steven Pienaar.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.524.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Ekki var að sjá að ferð í dómshús á föstudaginn hefði sett Steven út af laginu. Hann skoraði fallegt mark eftir meitlaða samvinnu við Fernando Torres og lék mjög vel. Krafturinn í þessum manni er ótrúlegur.

Rafael Benítez: Ég er ánægður með leik liðsins því það er ekki auðvelt að spila á móti liði sem er með 10 menn í vörn. Mér finnst að við verðskulduðum sigur. Við spiluðum ekki vel á dögunum þegar við fengum á okkur mörk undir lokin og það olli vonbrigðum. Í dag sóttum við mikið og höfum alltaf stjórn á leiknum. Við náðum reyndar ekki að vinan en allir leikmenn okkar tóku sig á eftir vonbrigðin um daginn.

Fróðleiksmolar: - Þetta var 110. leikur Liverpool og Everton í öllum keppnum. - Þetta var 22. leikur liðanna í F.A. bikarnum. - Þetta var annar leikur liðanna á einni viku. - Steven Gerrard skoraði fimmtánda mark sitt á leiktíðinni. - Everton hefur ekki unnið sigur á Anfield Road á þessari öld. - Líkt og þegar liðin mættust síðast í þessari keppni á leiktíðinni 1990/91 skildu liðin jöfn á Anfield Road og það þarf aukaleik á Goodison Park. - Liverpool hefur nú leikið 14 leiki í röð án taps en þetta var þriðja jafnteflið í röð.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC. 



 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan