| Sf. Gutt

Grannarnir skildu jafnir í slyddunni í Liverpool

Grannarnir skildu jafnir í slyddunni í Liverpool í kvöld. Þeir Rauðu komust yfir en þeir Bláu jöfnuðu. Liverpool hefur nú jafn mörg stig og Manchester United en er í öðru sæti á markahlutfalli.

Það var rafmagnað andrúmsloft á Anfield Road þegar þessi 209. grannaslagur Liverpool og Everton hófst í kulda og slyddu. Rafael Benítez sneri aftur á hliðarlínuna í fyrsta sinn frá því í desember.

Everton gaf tóninn á fyrstu mínútu þegar Victor Anichebe náði skoti utan teigs sem Jose Reina varð að henda sér niður til að verja. Á 12. mínútu fékk Liverpool færi eftir aukaspyrnu. Boltinn barst yfir á Dirk Kuyt en varnarmaður komst fyrir skot hans og ekkert varð úr. Á 26. mínútu náði Everton góðri sókn. Hún endaði með því að Victor sendi vel fyrir markið. Tim Cahill náði góðum skalla og Jose varði frábærlega með því að slá boltann í horn. Tveimur mínútum síðar sendi Sami Hyypia frábæra sendingu fram á Fernando Torres. Hann lék inn á vítateiginn þar sem Tim Howard kom út á móti honum. Fernando lyfti boltanum yfir hann en boltinn sleikti stöngina og fór framhjá. Robbie Keane var dauðafrír við hliðina á honum en líklega sá Fernando hann ekki. Leikmenn beggja liða tókust hart á og Everton, sem hefur leikið mjög vel í síðustu leikjum, gaf ekkert eftir. Mínútu fyrir leikhlé náði Albert Riera boltanum af varnarmanni og átt gott skot rétt utan teigs sem fór rétt framhjá. Ekkert mark hafði verið skorað í hálfleik.

Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn betur og Fernando Torres vildi fá vítaspyrnu þegar Phil Jagielka ruddi honum um koll í teignum. Á 56. mínútu lagði Dirk boltann út á Steven sem náði góðu skoti í teignum. Tim varði en boltinn hrökk út í teiginn til Sami Hyypia en hann hitti ekki markið.

Á 68. mínútu kom fyrsta markið. Victor Anichebe komst þá inn á vítateig Liverpool. Martin Skrtel sótti að honum og Victor féll. Leikmenn Everton vildu fá víti en það hefði ekki verið rétt. Liverpool rauk í sókn. Albert fékk boltann úti til vinstri og renndi honum inn á miðjuna á Steven Gerrard sem lék aðeins áfram og skaut svo lágu skoti sem hafnaði úti við stöng vinstra megin. Glæsilegt mark hjá fyrirliðanum! Rauðliðar innan vallar sem utan trylltust af fögnuðu og sáu fram á sigur og toppsætið! Því miður þá fóru leikmenn Liverpool smá saman að draga sig aftur á völlinn. Lengi vel náði Everton ekkert að notfæra sér það þrátt fyrir mikla baráttu. Það kom þó að Everton fékk færi á að jafna eftir fast leikatriði þremur mínútum fyrir leikslok. Varamaðurinn Yossi Benayoun braut þá klaufalega á leikmanni Everton vinstra megin við vítateiginn. Mikel Arteta tók aukaspyrnuna og sendi fast inn á markteiginn. Þar náði Tim Cahill að stýra boltanum í markið með höfðinu. Nú fögnuðu þeir Bláu og fögnuður þeirra var tryllingslegur í leikslok þegar í ljós kom að leiknum hafði lokið með jafntefli. Everton verðskuldaði stig eftir hetjulega baráttu en Liverpool átti aldrei að gefa þeim kost á að jafna eftir að hafa náð forystu! Sunnudagurinn verður að verða Rauður!

Liverpool: Reina, Carragher, Hyypia, Skrtel, Aurelio, Kuyt, Gerrard, Alonso, Riera (Babel 89. mín.), Keane (Benayoun 67. mín.) og Torres (Leiva 85. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Arbeloa og Mascherano.

Mark Liverpool: Steven Gerrard (68. mín.).

Everton: Howard, Hibbert, Lescott, Jagielka, Baines, Osman, Arteta, Neville, Pienaar, Cahill og Anichebe. Ónotaðir varamenn: Nash, Van der Meyde, Castillo, Rodwell, Jutkiewicz, Gosling og Kissock.

Mark Everton: Tim Cahill (87. mín.).

Gul spjöld: Steven Pienaar og Mikel Arteta.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.382.

Maður leiksins: Sami Hyypia. Enn einn stórleikurinn hjá finnska meistaranum. Hann var sterkur í vörninni og gaf hvergi eftir. Hann ógnaði líka upp við mark Everton. Sending hans á Fernando í fyrri hálfleik var meistaraleg.

Rafael Benítez: Við erum auðvitað vonsviknir því við misstum tvö stig eftir að hafa verið í vinningsstöðu þegar þrjár mínútur voru eftir. En það var samt margt jákvætt í leik okkar og við erum í góðri stöðu í deildinni. Við erum með jafn mörg stig og Manchester United og það er bara janúar.

Fróðleiksmolar: - Liverpool er í öðru sæti í deildinni. Manchester United er með jafn mörg stig en betra markahlutfall. - Þetta var 109. leikur Liverpool og Everton í öllum keppnum og sá 180. í deildinni. - Steven Gerrard skoraði fjórtánda mark sitt á leiktíðinni. - Jose Reina fékk á sig fyrsta mark sitt á þessu ári. - Everton skoraði sitt fyrsta mark sitt á Anfield Road í þrjár leiktíðir. - Tim Cahill skoraði í þriðja sinn á Anfield Road. - Steven Gerrard var fyrirliði Liverpool í 250. skipti. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan