| Sf. Gutt

Aftur jafnt gegn Stoke

Liverpool gerði í annað sinn, á þessari leiktíð, markalaust jaftefli við Stoke City. Liverpool slapp vel með jafnteflið á Britannia leikvanginum og lék illa í kuldanum. Liðið náði að auka forsytu sína í fjögur stig en það hefði verið ólíkt betra að hafa þau sex eins og flestir áttu von á yrði raunin fyrir leikinn.

Rafael Benítez sat uppi í heiðursstúku eins og í síðustu leikjum en búist var við að hann yrði á varamannabekknum í dag. Það varð snemma ljóst að heimamenn ætluðu sér ekki að gefa neitt eftir gegn toppliði deildarinnar. Þeir hafa oft náð sér vel á strik gegn sterkari liðum deildarinnar og sú varð líka raunin í þessum leik. Leikmenn Liverpool fengu aldrei stundlegan frið og þeir voru greinilega settir út af laginu. Dirk Kuyt fékk þó fyrsta færið en hann skallaði framhjá opnu marki eftir vafasamt úthlaup markvarðar Stoke. Á 12. mínútu munaði engu að Stoke næði forystu. Eftir harða sókn fékk Rory Delap boltann rétt við markteiginn. Hann þrumaði að marki en boltinn fór í þverslá og hrökk út í teig. Þar slapp Liverpool með skrekkinn. Á 22. mínútu fékk Liverpool loks færi. Dirk Kuyt komst inn í teiginn hægra megin en Thomas Sorenson varði vel í horn. Eftir hálftíma leik náði Ryan Shawcross að skora með skalla en hann var réttilega dæmdur rangstæður.

Fyrir og eftir þetta gerðu leikmenn Stoke oft harða hríð að marki Liverpool. Mikill tími fór í leiknum í innköst heimamanna þegar Rory var að þurrka boltann. Reyndar má segja það undarlegt að dómarinn leyfi leikmanni að eyða löngum tíma í að þurrka boltann áður en innköst eru tekin. Þetta er þó önnur saga en ekkert var skorað í fyrri hálfleik.

Liverpool slapp aftur með skrekkinn eftir fimm mínútur í síðari hálfleik. Jose Reina átti þá misheppnað útspark og boltinn fór beint til Dave Kitson. Hann lék rakleitt inn í teig og komst framhjá Jose en skaut sem betur fer í hliðarnetið. Á 67. mínútu fékk Lucas Leiva, sem náði sér alls ekki á strik, sendingu við fjærstöng eftir aukaspyrnu. Hann skallaði þvert fyrir markið á Sami Hyypia en skot hans fór hátt yfir. Þarna fór Lucas ekki vel að ráði sínu því hann átti góða möguleika á að skalla á markið enda færið stutt. Þegar um stundarfjórðungur var eftir fékk Stoke einu sinni sem oftar innkast á vallarhelmingi Liverpool. Rory kastaði langt inn á teiginn. Þar náði Dave Kitson að skjóta sér fram og skalla en boltinn fór rétt yfir. Litlu síðar fékk Stoke aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Glenn Whelan tók aukaspyrnuna. Hann náði góðu skoti en boltann strauk stöngina framhjá. Liverpool náði þokkalegum lokaspretti. Sex mínútum fyrir leikslok fékk Liverpool aukaspyrnu til hliðar við vítateiginn vinstra megin. Steven tók spyrnuna og sendi fyrir markið. Boltinn sveif yfir alla og hafnaði í þverslá. Ekki var heppnin þar með fyrirliðanum og ekki var hún heldur með þegar hann skaut aftur í tréverkið á lokamínútunni. Löng sending kom fram völlinn. Varamaðurinn Fernando Torres skallaði boltann fyrir fætur Steven sem var kominn inn í teig og náði að teygja sig í boltann og stýra honum að marki. Boltinn stefndi í markið en hann fór í stöng og framhjá! Heimamenn hefðu ekki verðskuldað tap eftir mikla baráttu en leikmenn Liverpool voru ekki nógu ákveðnir í leiknum og það var eins og það vantaði hungur í toppliðið. Tréverkið kom í veg fyrir mörk en Liverpool jók þó forystuna. Stuðningsmenn Liverpool vildu þó sjá hana enn meiri!

Stoke City: Sorensen, Wilkinson, Abdoulaye Faye, Shawcross, Higginbotham, Delap, Amdy Faye, Whelan, Etherington (Lawrence 78. mín.), Kitson (Pugh 89. mín.) og Cresswell. Ónotaðir varamenn: Simonsen, Griffin, Olofinjana, Tonge og Sonko.

Gul spjöld: Matthew Etherington og Andy Wilkinson.

Liverpool: Reina, Carragher, Hyypia, Skrtel, Aurelio, Benayoun (Babel 76. mín.), Leiva, Mascherano, Riera (Torres 60. mín.), Gerrard og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Keane, Plessis og El Zhar.

Gul spjöld: Steven Gerrard og Lucas Leiva.

Áhorfendur á Britannia Stadium: 27.500.

Maður leiksins: Sami Hyypia var frábær í vörn Liverpool. Þessi magnaði varnarmaður hafði í mörg horn að líta eftir innköst og hornspyrnur heimamanna en ekkert kom honum úr jafnvægi. Hann er búinn að leika frábærlega frá því hann kom inn í liðið seint í haust og reynsla hans er ómetanleg. Hann er jú búinn að leika 700 leiki sem atvinnumaður og það sást vel í dag!

Rafael Benítez: Það er erfitt að spila á móti liðum sem leggja hart að sér og verjast með marga menn. Þá vill verða erfitt að finna pláss á vellinum og skapa færi. En við bættum þó einu stigi í safnið og við erum enn í góðri stöðu á toppi deildarinnar.

Fróðleiksmolar: - Liverpool er í efsta sæti deildarinnar með fjögra stiga forskot á Chelsea. - Þetta var fyrsti deildarleikur Liverpool á þessu ári. - Sami Hyypia lék sinn 700. leik sem atvinnumaður. - Martin Skrtel var í fyrsta sinn í byrjunarliði Liverpool eftir að hann meiddist í haust. - Þetta var sjötta markalausa jafntefli Liverpool á leiktíðinni. Fimm hafa verið í deildinni. - Liverpool og Stoke tókst ekki að skora löglegt mark í leikjum liðanna á þessari leiktíð.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan