| Sf. Gutt

Jólagleði á Anfield Road!

Það ríkti sannkölluð jólagleði á Anfield Road í dag þegar Liverpool endurheimti efsta sæti deildarinnar með öruggum 3:0 sigri á Bolton Wanderes. Chelsea náði efsta sætinu upp úr hádeginu en Liverpool nýtti fyrsta tækifæri sem gafst til að endurheimta efsta sætið.

Rafael Benítez var ekki alveg orðinn nógu hress til að stjóra liðinu en mætti á Anfield Road og tók sæti við hlið Rick Parry í heiðursstúkunni. Sammy Lee stjórnaði frá hliðarlínunni eins og gegn Arsenal. Gestirnir fengu gott tækifæri snemma leiks þegar Kevin Nolan komst inn á teig hægra megin en hann náði ekki að koma boltanum fyrir á frían félaga sinn og Jose Reina greip boltann. Þar slapp Liverpool vel en þetta var í eina skiptið sem gestirnir ógnuðu marki Liverpool af einhverju viti. Liverpool tók öll völd eftir þetta og á 4. mínútu náði Albert Riera skoti eftir horn en boltinn fór í Robbie Keane og framhjá. Hver sókn Liverpool rak aðra en færin voru ekki ýkja mörg. Á 18. mínútu fékk Liverpool enn einu sinni horn. Boltinn barst í kjölfarið út fyrir teig og þar náði Emiliano Insua, stóð sig mjög vel líkt og gegn Arsenal, föstu skoti en Jussi Jaaskelainen varði vel. Tveimur mínútum seinna gaf Xabi Alonso, sem átti frábæran leik, góða sendingu fyrir en Dirk Kuyt skallaði yfir úr dauðafæri.

Vörn Bolton varðist vel en hún gaf sig á 26. mínútu. Steven Gerrard tók þá hornspyrnu frá hægri. Við vítateigshornið nær skaust Albert Riera fram fyrir varnarmenn Bolton og stýrði boltanum í markið. Laglega gert hjá Spánverjanum. Sókn Liverpool hélt linnulaust áfram til leikhlés. Jamie Carragher, sem lék í stöðu hægri bakvarðar í forföllum Alvaro Arbeloa, ógnaði á 40. mínútu með föstu skoti utan teigs vinstra megin en boltinn fór rétt yfir. Á lokamínútunni var Emiliano aftur ágengur eftir horn en skot hans fór í varnarmann.

Liverpool réði sem fyrr lögum og lofum eftir leikhlé og gerði út um leikinn á upphafskafla síðari hálfleiks. Á 53. mínútu vann Xabi boltann með góðri tæklingu á miðjunni og sendi á Steven. Hann lék fram völlinn og sendi svo fullkomna sendingu inn á teiginn á Robbie Keane. Hann tók við boltanum vinstra megin í teignum og afgreiddi boltann með föstu skoti upp í hornið nær. Vel get hjá Íranum og sjá mátti að sjálfstraust hans hafði aukist mikið við markið gegn Arsenal. Fimm mínútum seinna skoraði Liverpool eitt af mörkum ársins og er þá mikið sagt! Jose handsamaði boltann og renndi honum fram miðjuna á Xabi. Hann lék upp að vítateignum og sendi svo út til hægri á Yossi Benayoun. Ísraelsmaðurinn sendi hárnákvæma sendingu fyrir markið á Robbie sem skoraði af öryggi frá markteig. Fullkomin skyndisókn sem tók innan við hálfa mínútu. Fullkomin skyndisókn segi og skrifa! Nú var aðeins spurning um hvort Liverpool næði að bæta við fleiri mörkum en reyndin varð sú að fátt fleira gerðist í leiknum. Leikmenn Liverpool hægðu á og mörkin urðu ekki fleiri. Liverpool komst næst því á lokamínútunni en Jussi varði hetjulega í tvígang í sömu sókninni af stuttu færi. Fyrst frá Yossi, sem lék mjög vel, og svo frá varamanninum David Ngog. Sigur Liverpool var sætur og efsta sætið náðist á nýjan leik. Ekki spillti það jólagleðinni að Liverpool lék sinn besta leik í nokkurn tíma! Jól og Liverpool í efsta sæti. Það verður ekki mikið betra!

Liverpool: Reina, Carragher, Hyypia, Agger, Insua, Benayoun, Gerrard (Leiva 73. mín.), Alonso, Riera (El Zhar 69. mín.), Keane og Kuyt (Ngog 76. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Babel, Mascherano og Darby.

Mörk Liverpool: Albert Riera (26. mín.) og Robbie Keane (53. og 58. mín.).

Gult spjald: Daniel Agger.

Bolton Wanderes: Jaaskelainen, Steinsson, Cahill, Andrew O´Brien, Samuel (Davies 46. mín.), Muamba, Nolan, McCann, Taylor (Riga 66. mín.), Gardner og Elmander (Smolarek 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Al Habsi, Shittu, Basham og Obadeyi.

Gul spjöld: Kevin Nolan, Grétar Rafn Steinsson og Gavin McCann.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.548.

Maður leiksins: Robbie Keane. Hann sást kannski ekki mikið fyrir utan að skora tvö mörk en mörkin sýndu að sjálfstraustið er núna að koma hjá Íranum snjalla. Fyrra markið hans var vel afgreitt og í seinna markinu rak hann smiðshöggið á frábæra sókn. Robbie er núna vonandi kominn í gang fyrir alvöru. Hann er að minnsta kosti búinn að skora sjö mörk á leiktíðinni og þar af þrjú í síðustu tveimur leikjum.

Sammy Lee: Það er alltaf gaman að vinna og sérstaklega á heimavelli. Þolinmæði og góð spilamennska lögðu grunninn að sigrinum. Þolinmæði áhorfenda var líka mikilvægur þáttur í siginum. Þeir stóðu við bakið á okkur allan tímann og vissu alveg hvað við vorum að reyna að gera með því að spila boltanum og nota kantspil til að skapa færi.

Fróðleiksmolar: - Liverpool er í efsta sæti deildarinnar með eins stigs forskot á Chelsea. - Albert Riera skoraði sitt þriðja mark á leiktíðinni. - Robbie Keane hefur nú skorað sjö mörk á leiktíðinni. - Þetta var síðasti heimaleikur Liverpool á þessu Herrans ári 2008. Ekkert gestalið hafði sigur í deildarleik á Anfield Road á árinu!

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan