| Sf. Gutt

Liverpool marði jafntefli gegn Atletico Madrid

Liverpool marði 1:1 jafntefli við Atletico Madrid á Anfield Road í kvöld. Allt stefndi í tap þegar Steven Gerrard jafnaði úr vítaspyrnu á allra síðustu stundu. Liverpool lék ekki vel og mátti þakka fyrir jafnteflið sem voru þó sanngjörn úrslit.

Mesta spennan fyrir leikinn fólst í því hvort Fernando Torres spilaði með en hann var ekki talinn leikfær og sat uppi í stúku með konu sinni. Liverpool hóf leikinn af krafti og Daniel Agger vildi fá vítaspyrnu eftir að Luis Perea togaði í hann inni á teig strax í upphafi leiks. Ekkert var dæmt og þetta var ekki í fyrsta sinn sem leikmenn liðanna voru ósáttir við dómara leiksins. Á 15. mínútu sendi Xabi Alosno stórkostlega sendingu frá eigin vallarhelmingi fram völlinn. Boltinn fór beint á Robbie Keane. Hann lagði boltann fyrir sig við vítateiginn en skot hans fór hárfínt framhjá. Litlu síðar fékk Sabrosa Simao dauðafæri inni á miðjum teig en hann mokaði boltanum hátt yfir. Á 35. mínútu komst Robbie inn á teig og hefði átt að skjóta strax en ákvað þess í stað að reyna að leika á Leo Franco í markinu en það tókst ekki og hættunni var bægt frá. Á 37. mínútu náðu gestirnir óvænt forystu. Guerrero Antonio fékk boltann úti til hægri. Hann sendi inn á teiginn á Maxi Rodriguez sem lék laglega framhjá Jamie Carragher og sendi boltann af öryggi í netið. Þetta var staðan í hálfleik.

Liverpool átti síðari hálfleikinn með húð og hári en það gekk illa að brjóta vörn spænska liðsins á bak aftur. Snemma í hálfleiknum vildi Liverpool fá víti þegar boltinn fór í hendi varnarmanns en ekkert var dæmt. Á 57. mínútu sendi Fabio Aurelio aukaspyrnu inn á teiginn. Leo kom æðandi út úr markinu en náði ekki boltanum. Daniel Agger náði fríum skalla en boltinn fór yfir autt markið. Átta mínútum seinna ógnaði Daniel aftur en skot hans var varið. Á 70. mínútu léku Robbie og Steven fallegan þríhyrning rétt fyrir utan vítateiginn. Steven fékk boltann en skot hans fór rétt yfir. Mínútu seinna kom David Ngog inn á fyrir Robbie og hann færði líf í sóknarleik Liverpool. Hann átti gott skot sem Leo varði. Gestirnir vildu tvívegis fá víti eftir að boltinn fór í hendur þeirra Jamie Carragher og Javier Mascherano en ekkert var dæmt. Í báðum tilfellum renndu þeir sér fyrir sendingar inni á teignum. Dómarinn virtist alls ekki ætla að dæma vítaspyrnu! Á tíu síðustu mínútum þyngist sókn Liverpool og færi gáfust. Fyrst skallaði Daniel óvaldaður framhjá úr góðu færi. Þegar þrjár mínútur voru eftir tók Jamie af skarið og þrumaði að marki utan teigs en boltinn fór beint á markvörð Atletico. Á lokamínútunni fengu stuðningsmenn Liverpool loksins eitthvað til að gleðjast yfir en það var innkoma Luis Garcia. Þessi vinsæli leikmaður fékk frábærar móttökur þegar hann kom til leiks. En stuðningsmenn Liverpool áttu eftir fá óvæntan glaðning áður en yfir lauk!

Dómarinn bætti fjórum mínútum við leiktímann og það var lítið eftir þeim þegar Xabi Alosno sendi háa sendingu inn á vítateiginn. Dirk Kuyt stökk upp en varnarmaður skallaði frá. Boltinn var á leiðinni út úr teignum vinstra megin. Steven Gerrard og Mariano Pernia eltu boltann og rétt úti við vítateigslínuna stukku þeir upp og rákust saman. Ekkert virtist athugavert við þetta en línuvörðurinn gaf dómaranum merki um að dæma ætti vítaspyrnu. Leikmenn Atletico urðu æfir og vel mátti skilja gremju þeirra. Það endaði því með því að dómarinn dæmdi víti og honum var ekki haggað! Steven tók vítapsyrnuna sjálfur og skoraði af miklu öryggi með skoti úti við stöng vinstra megin. Leo átti ekki möguleika að verja og Liverpool hafði náð jafntefli sem ekki leit út fyrir að tækist. Liðin skildu því jöfn og fylgjast enn að í forystu í riðlinum.

Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Agger, Aurelio, Mascherano (Leiva 77. mín.), Alonso, Kuyt, Gerrard, Riera (Babel 61. mín.) og Keane (Ngog 71. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Benayoun og Degen.

Mark Liverpool: Steven Gerrard, víti, (90. mín.).

Atletico Madrid: Franco, Antonio Lopez, Perea, Heitinga, Pernia, R. Garcia, Paulo Assuncao, Maniche, Maxi, Forlan (Aguero 71. mín.) og Simao (L. Garcia 90. mín.).  Ónotaðir varamenn: Coupet, Pongolle, Banega, Pablo og Camacho.

Mark Atletico Madrid: Maxi Rodriguez (37. mín.).

Gul spjöld: Maniche, Luis Perea, Johnny Heitinga, Mariano Pernia og Sergio Aguero.

Áhorfendur á Anfield Road: 42.010.

Maður leiksins: Daniel Agger. Daninn var mjög grimmur inni í vítateig Atletico og ógnaði nokkrum sinnum. Sumir hefðu sagt að Daniel hefði verið hættulegasti sóknarmaður Liverpool í leiknum!

Rafael Benítez: Við erum vonsviknir yfir því að þurfa vítaspyrnu í lokin til að jafna metin en mér finnst að við hefðum verðskuldað að jafna áður. Við áttum nokkur góð færi en þeir áttu eitt í fyrri hálfleik og skoruðu úr því. Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að tapa ekki leiknum. Gott og vel. Það hefði verið miklu betra að vinna en eitt stig var mjög mikilvægt því við erum enn nærri toppnum.

Fróðleiksmolar: - Steven Gerrard skoraði sitt sjötta mark á leiktíðinni. - Hann heldur áfram að bæta Evrópumarkamet sitt og var þetta 29. Evrópumark hans. - Tveir fyrrum leikmenn Liverpool, Luiz Garcia og Florent Sinama Pongolle, voru í liðshópi Atletico. - Bara Luis fékk að koma inn á.

Í hinum leiknum í  D riðli vann Marseille 3:0 sigur á PSV Eindhoven í Frakklandi.

Staðan í D riðli er nú svona:

Atletico Madrid 4. 2. 2. 0. 7:3. 8

Liverpool 4. 2. 2. 0. 7: 4. 8

Marseille 4. 1. 0. 3. 5:6. 0

PSV Eindhoven 4. 1. 0. 3. 3:9. 3

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan