| Sf. Gutt

Magnaður sigur en mikið eftir!

Jamie Carragher var besti maðurinn í vellinum þegar Liverpool batt enda á tapleysi Chelsea á Stamford Bridge í gær. Kappinn var eins og klettur í vörninni og hann fórnaði sér hvað eftir annað í vörninni. Hann segir sigurinn magnaðan en hann sé bara stutt skref á langri leið.

"Fyrir leikinn var Chelsea búið að spila jafn vel og best hefur sést í allri Evrópu það sem af er leiktíðar. Þessi sigur ætti að gefa okkur aukið sjálfstraust en það er mikið eftir enn á þessari leiktíð. Það hlaut að koma að því að þeir myndu tapa hér því ekki gátu þeir verið taplausir hérna endalaust. Ég er bara glaður yfir því að það skyldu vera við sem náðum að leggja þá að velli. Við erum á toppi deildarinnar en eins og ég sagði þá er löng leið eftir. Síðustu árin hafa Chelsea og United verið á toppnum. Við og Arsenal höfum verið að reyna að blanda okkur í baráttuna og vonandi náum við að gera það á þessari leiktíð."

Javier Mascherano, sem spilaði gríðarlega vel á miðjunni fyrir framan vörnina, tekur undir þessi orð Jamie Carragher.

"Við vitum alveg að það er ekki nóg að vinna Chelsea og við þurfum að halda áfram á sömu braut. Þetta var frábær dagur fyrir okkur en það er oft snemmt að tala um titilinn. Við þurfum að halda áfram að spila svona vel og sjá hvað gerist."


 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan