| Grétar Magnússon

Fullkomnar 90 mínútur

Rafa Benítez segir við leikmenn sína að ekkert annað en fullkomnar 90 mínútur dugi til ef það á að takast að eyðileggja heimavallarárangur Chelsea.  Benítez segir réttilega að of oft á tímabilinu hafi lið sitt lent undir.

Það varð þó breyting á þessu á miðvikudaginn en þá var Liverpool fyrri til að skora.  Það tókst svo reyndar ekki að halda hreinu og endaði leikurinn með jafntefli.  Liðinu hefur nú aðeins tekist að halda hreinu einu sinni í síðustu 6 leikjum.  Benítez veit að svona frammistaða verður ekki nóg gegn liði sem hefur ekki tapað á heimavelli í næstum fimm ár.

,,Í Madríd spiluðum við vel í fyrri hálfleik og svo kom það á óvart að sjá okkur missa tökin á leiknum eftir hálfleik," sagði stjórinn.  ,,Hver einasti stjóri er að leitast eftir fullkomnum 90 mínútum og þessa helgi vil ég sjá okkur byrja eins og við gerðum á Spáni og halda svo þeirri spilamennsku út leikinn.  Ef þeir skora fyrst þá verður þetta mjög erfitt fyrir okkur þannig að við verðum að gera allt fullkomlega frá fyrsta flauti.  Þegar við fáum tækifæri verðum við að nýta það vegna þess að þeir munu líka fá færi."

,,Þeir eru með marga góða leikmenn og spila góðan fótbolta.  Þeir senda boltann sín á milli virkilega vel og skora mikið af mörkum.  En við förum þangað fullir sjálfstrausts, leitumst við að leggja hart að okkur og spila vel."

Eins og staðan er núna er ljóst að Fernando Torres spilar ekki með og að Robbie Keane er tæpur vegna meiðsla í mjaðmagrind.  Benítez segir þó að liðið geti vel sigrað án þess að vera með sinn besta sóknarmann.

,,Ég held að við getum sigrað Chelsea án Torres.  Ég held að við höfum nógu mikil gæði til þess.  Við erum með nýja leikmenn með gott hugarfar og mikið sjálfstraust, þannig að ég held að við höfum það sem til þarf til að sigra mjög gott lið eins og Chelsea.  Við förum á Stamford Bridge til þess að reyna að vinna og ef við gerum það, frábært.  Ef ekki, reynum við að tapa ekki leiknum og þá verður það líka jákvætt því þá erum við ennþá ósigraðir."

Síðan Benítez kom til Englands árið 2004 hefur hann mætt Chelsea alls 20 sinnum, oftar en nokkru öðru liði.  Phil Scolari er þriðji stjóri Chelsea sem Benítez mætir og segir hann að Scolari láti lið sitt spila meiri sóknarbolta.

,,Hann er að bæta hópinn og liðið.  Þeir eru að miklu leyti með sömu hugmyndir en þeir eru kannski aðeins sóknarsinnaðri núna," sagði Benítez.  ,,Mér finnst þeir vera með mjög gott lið.  Ég segi ekki að þeir séu betri nú vegna þess að ég vil ekki koma af stað orðaskaki !  En þeir eru mjög gott lið og það er ljóst að þeir eru að spila meiri sóknarbolta."

Bæði lið eru með 20 stig á toppi deildarinnar, fjórum stigum meira en Arsenal og sex stigum meira en meistarar Manchester United.  Benítez veðjar hinsvegar ekki á að þetta verði tveggja liða kapphlaup.

,,Það eru allir að tala um okkur í ár, og Chelsea líka.  En það er mikið eftir.  Arsenal og United eru sterk lið.  Þegar maður talar um líklegasta sigurvegarann þá verður maður taka þá með í reikninginn, og vonandi verður einnig talað um okkur í lok tímabilsins.  Arsenal hafa mikil gæði og unga leikmenn, ég held að þeir geti bætt sig meira á tímabilinu.  Þeir verða í baráttunni til loka."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan