| Grétar Magnússon

Erfitt að gera breytingar

Rafael Benítez segir að frammistaða lykilmanna það sem af er tímabilinu hafi gert honum erfitt fyrir í því að rótera leikmönnum í byrjunarliðinu.  Benítez undirbýr lið sitt nú undir leik við PSV Eindhoven í kvöld og segist hann ekki ætla að gera miklar breytingar á liðinu.

Eftir góðan sigur á Marseille í fyrsta leik riðilsins segir Benítez að hann vilji nota áfram þá leikmenn sem eru heitir til þess að halda áfram góðri spilamennsku.

,,Við búum yfir reynslunni frá síðasta tímabili," viðurkenndi Benítez.  ,,Ég mun ekki gera miklar breytingar, ef einhverjir leikmenn eru heitir, þá er það líklega góð ástæða til þess að láta þá spila áfram.  Venjulega þá reynum við að athuga líkamlegt og andlegt ástand leikmanna og svo skoðum við líka taktíkina sem við komum til með að beita - áður en við ákveðum hvort við gerum breytingar á byrjunarliðinu."

,,En núna erum við í góðri stöðu þannig að ég held að við gerum ekki miklar breytingar.  Þegar menn eru að spila vel, en eru samt þreyttir, þá hugsar maður sem svo að það sé nauðsynlegt að halda þeim inni í byrjunarliðinu.  Svo þegar maður lætur þá spila þá eru þeir þreyttir og maður verður að skipta þeim útaf !"

,,Maður veit aldrei.  Ef maður vinnur leikinn þá getur maður sagt að ákvörðunin hafi verið rétt, en ég held að ég muni ekki breyta miklu.   Þegar við skoðuðum málið í vikunni sáum við að við áttum fjögurra daga frí eftir Everton leikinn og svo aftur fjóra daga eftir leikinn við PSV.  Þrír dagar eru oftast ekki nóg, fjórir dagar eru mun betri."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan