| Grétar Magnússon

Mikilvægur sigur

Steven Gerrard var tekinn í viðtal eftir sigur á Everton á laugardaginn.  Hann segir að sigurinn hafi verið gríðarlega mikilvægur eftir jafnteflið gegn Stoke og finnst honum liðið vera að komast í sitt besta form.

,,Þetta er líklega besta frammistaða okkar á tímabilinu hingað til," sagði Gerrard.  ,,Við höfum verið að vinna leiki en vorum ekki að spila vel í byrjun, en ég held að frammistaðan í nágrannaslagnum hafi sett ákveðið viðmið núna og ef við getum haldið svona áfram þá munum við klárlega vera líklegir til afreka þegar tímabilið klárast."

,,Mér fannst við stjórna leiknum allan tímann, en þó var auðvitað stundum pressa frá Everton.  Þeir eru með gott lið, með góðan stuðning hér en við sýndum hvers við erum megnugir.  Við vorum samtaka, spiluðum frábæran fótbolta og frammistaðan sýndi hversu pirraðir við vorum á því að hafa ekki náð að sigra Stoke."

Sigurinn á Everton var nokkuð öruggur og var það Fernando Torres sem skoraði tvö mörk með stuttu millibili í síðari hálfleik.  Spánverjinn hafði ekki skorað síðan í fyrsta deildarleik tímabilsins og var Gerrard viss um að það væri aðeins tímaspursmál hvenær Torres myndi setja boltann í netið á ný.

,,Þetta var bara spurning um hvenær en ekki hvort," sagði hann.  ,,Það er ekki hægt að halda svona góðum sóknarmönnum eins og honum lengi niðri vegna þess að þeir eru ekki vanir að spila lengi án þess að skora.  Þetta var bara spurning um tíma.  Hann var pirraður í fyrri hálfleik, en svo átti Keane góða sendingu sem hann nýtti og seinna markið var týpískur Torres.  Hann skapaði sér mikið pláss í vítateignum og hann kláraði færið mjög vel."

Fyrir leikinn veðjuðu margir á það að Steven Gerrard myndi skora sitt 100. mark fyrir félagið og þó svo að hann hafi komist nálægt því þá var hann ánægðari með að liðið skyldi hafa unnið leikinn, frekar en að hann hefði skorað sjálfur.

,,Stjórinn vildi sjá agaða frammistöðu frá mér," sagði hann.  ,,Þegar við spilum 4-4-2 þá vill hann að ég velji rétta tímann til að sækja fram og ég er mjög ánægður með það hvernig ég spilaði.  Hundraðasta markið mun koma, ég er fullviss um það.  Ég fékk nokkur hálffæri í leiknum.  Markvörðurinn varði nokkrum sinnum vel en ég held áfram.  Það mikilvægasta, eins og ég sagði fyrir leikinn, var að vinna og þetta snerist allt um liðið í heild."

,,Sem innfæddur Liverpool strákur þá eru þetta erfiðustu leikirnir að búa sig undir.  Maður verður taugaóstyrkur vikuna fyrir leikinn og maður getur ekki beðið eftir leiknum, hræðslan við að tapa leiknum tekur því frá manni talsverða orku fyrir leikinn.  Ég er því mjög ánægður með að við skyldum vinna og frammistöðu strákanna.  Það róar mann niður að ná fyrsta markinu vegna þess að þessir leikir eru svo hraðir.  Maður verður að vinna allar baráttur um boltann."

,,Mér fannst við vera jafnokar þeirra líkamlega séð og við yfirspiluðum þá og vissum að markið kæmi, með þau gæði sem við erum með í liðinu og þessa sex framsæknu leikmenn í liðinu þá vissum við að það væri aðeins tímaspursmál hvenær markið kæmi."

Þrjú stig gegn Everton og sú staðreynd að Arsenal tapaði óvænt gegn Hull þýðir að Liverpool eru í öðru sæti deildarinnar á eftir Chelsea með verri markatölu.  Þetta er besta byrjun liðsins síðan tímabilið 1996-1997 en fyrirliðinn neitar að horfa lengra fram á veginn en fram að næsta leik gegn PSV Eindhoven í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið.

..Það er mikilvægt að vera auðmjúkur núna og láta þessa frammistöðu ekki setja mann á of háan stall.  Við eigum stóran leik á miðvikudaginn og svo annan mikilvægan leik gegn Manchester City.  Við verðum að taka einn leik í einu og það er mikilvægt að allir haldi sér á jörðinni.  Það er mikið eftir og við gerum okkur grein fyrir því hversu erfitt þetta verður í deildinni, og við verðum því að halda áfram.  En ég held að við höfum sett ákveðið viðmið gegn Everton og þannig verðum við að spila viku eftir viku."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan