| Grétar Magnússon

Ég varð að kalla á Torres

Rafa Benítez var létt þegar flautað var til leiksloka gegn Crewe og hann viðurkenndi að hann setti Fernando Torres inná til þess að hjálpa liðinu að skora þriðja mark sitt og klára leikinn.

Benítez sagði þetta í viðtali eftir leik:  ,,Þetta var aðeins of óþægilegt undir lokin.  Það er alltaf svoleiðis með svona leiki, ef maður klárar ekki leikinn með fleiri mörkum þá halda mótherjarnir áfram.  Við vorum aðeins of taugaóstyrkir undir lokin en við fengum nóg af tækifærum til þess að skora þriðja markið.  Þess vegna setti ég Torres inná, til þess að reyna að skora þriðja markið."

,,Hver einasta keppni er mikilvæg fyrir okkur.  Við vissum að þeir þurftu að sækja og þar af leiðandi myndu þeir skilja eftir mikið pláss aftar á vellinum.  Það sást að Torres er leikmaður sem getur klárað leiki fyrir okkur.  Ég vildi gefa honum tækifæri.  Ég var að gera það sama með Robbie Keane en svo meiddist Degen og ég þurfti að setja Carragher inná í staðinn."

Og áfram hélt Benítez:  ,,Við skoruðum tvö góð mörk, skotið hjá Agger var frábært og Lucas er leikmaður sem líkar vel við að koma inní vítateiginn og skora mörk eins og hann skoraði.  Við vorum með marga unga leikmenn útá vellinum í kvöld.  Sumir stóðu sig betur en aðrir, en vinnusemin í þeim öllum var góð og leikurinn var hraður.  Við misstum boltann auðveldlega tvisvar eða þrisvar en við áttum einnig tvö eða þrjú góð færi í lokin.  Ef Torres hefði skorað hefði þetta verið auðveldara fyrir okkur.  Þriðja markið hefði klárað leikinn."

Þetta var aðeins í annað sinn sem Daniel Agger var í byrjunarliðinu á tímabilinu og Benítez var ánægður með frammistöðu hans.

,,Bæði Agger og Sami Hyypia voru góðir í vörninni.  Það verður erfitt fyrir mig að ákveða hver á að spila í miðri vörninni þar sem þeir spiluðu báðir mjög vel."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan