| Sf. Gutt

Peter vonast eftir að halda sæti sínu

Peter Crouch hefur ekki átt fast sæti í liði Liverpool á þessari leiktíð og síðustu vikurnar hefur hann spilað lítið. Hann fékk þó loksins tækifæri gegn Arsenal um síðustu helgi. Hann lék vel í þeim leik og skoraði. Hann hélt svo sæti sínu í Evrópuleiknum í vikunni. Peter vonast nú til að halda sæti sínu í leiknum við Blackburn Rovers í dag.

"Það er frábært að vera farinn að leika aftur því allir leikmenn vilja vera í byrjunarliðinu og þá sérstaklega þegar þeir spila fyrir svona magnað félag. Þetta hefur verið erfiður tími fyrir mig og ég ætla ekki að ljúga neinu til um það. Ég vil spila með og þegar maður fær ekki tækifæri fer maður stundum að velta því fyrir sér hvað framtíðin beri í skauti sér.

En ég fékk tækifæri gegn Arsenal um síðustu helgi og hélt sæti mínu í Evrópuleiknum. Mér finnst að ég hafi sýnt hvað í mér býr í þeim leikjum. Nú verð ég að reyna að halda sæti sínu í liðinu en ég veit að það verður erfitt. En það þýðir ekki að bíða eftir að fá tækifæri og reyna svo ekki að nota það þegar það gefst."

Crouch fannst það vera forréttindi að fá að taka þátt í enn einu frábæru Evrópukvöldi á Anfield.  En þó hann hafi notið þess að horfa aftur á sigurinn gegn Arsenal þá segir hann að liðið verði nú að einbeita sér að því að styrkja takið á fjórða sætinu í deildinni.

Hann sagði:  ,,Leikurinn gegn Arsenal var stórkostlegur og ég held að enginn muni nokkurntímann gleyma honum.  Fyrsta hálftímann eða svo komumst við varla nálægt Arsenal og þeir spiluðu virkilega góðan fótbolta en í seinni hálfleik vorum við betri og lokuðum á þá og það var aðalástæðan fyir því að við náðum svona góðum úrslitum."

,,Ég verð að viðurkenna að þegar þeir jöfnuðu nokkrum mínútum fyrir leiksklok þá vorum við farnir að velta því fyrir okkur hvort við kæmumst nokkuð áfram.  En það er svo mikill karakter í þessu liði sem þýðir að jafnvel þegar að öll sund virðast lokuð þá gefumst við ekki upp.  Það er nákvæmlega það sem gerðist á þriðjudagskvöldið og ég verð að hrósa Ryan (Babel) fyrir innkomu sína en hann fiskaði víti sem Stevie (Gerrard) nýtti glæsilega og svo skoraði hann fjórða markið sjálfur."

,,Þetta voru stórkostleg úrslit og við vorum allir hæstánægðir en við verðum að koma aftur niður á jörðina vegna þess að við eigum leik við Blackburn sem eru með gott lið og við megum ekki vera of værukærir.  Við munum reyna að sækja sigur í þeim leik vegna þess að við erum á heimavelli og erum að spila vel.  Við erum einnig með mikið sjálfstraust núna og vonandi mun það yfirstíga mögulega þreytu sem situr í mönnum."

Þriðja undanúrslitaviðureignin á fjórum árum við Chelsea nálgast óðum og Crouch viðurkennir að það sé spennandi tilhugsun en hann einbeitir sér nú að því að halda sæti sínu í liðinu og þar með hjálpa liðinu að klára tímabilið á sama hátt og þeir byrjuðu það.

,,Auðvitað hef ég ekki verið eins mikið í byrjunarliðinu eins og ég hefði viljað en ég hef byrjað síðustu tvo leiki og vonandi heldur það áfram út tímabilið," segir hann.  ,,Ég hef átt frábærar stundir með þessu félagi og vonandi verða þeir fleiri hjá mér og liðinu.  Við verðum allir að horfa fram á veginn núna því ef við dveljum of mikið á sigrinum á þriðjudaginn þá gætum við misst einbeitinguna og við höfum ekki efni á því."

,,Á þessum tímapunkti á tímabilinu verðum við að taka einn leik í einu og þó svo að allir séu spenntir fyrir Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar þá verðum við að bíða með að hugsa um það til að geta einbeitt okkur að deildinni."

Peter er búinn að skora níu á þessari leiktíð. Markið hans gegn Arsenal um síðustu helgi var 40. markið sem hann skorar fyrir Liverpool. Trúlega kemur sú tala ýmsum á óvart. Eins þykir kannski sumum það undarlegt að Peter sé næst markahæsti leikmaður núverandi leikmanna Liverpool. Aðeins Steven Gerrard hefur skorað fleiri mörk en Peter.

Nú er að sjá hvort Peter heldur sæti sínu í leiknum mikilvæga við Blackburn Rovers í dag. Með sigri næði Liverpool fimm stiga forskoti á Everton. Liverpool verður einfaldega að vinna leikinn því tveir næstu deildarleikir liðsins eru á útivelli gegn liðum sem eru að berjast fyrir sæti sínu í deildinni!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan