| Sf. Gutt

Frábær framganga

Tommy Smith, fyrrum leikmaður Liverpool, er kátur í dag eins og aðrir stuðningsmenn Rauða hersins. Hann hrósar Liverpool í hástert fyrir framgöngu liðsins gegn Arsenal.

"Þetta var eitt af þessum frábæru Evrópukvöldum sem svo gaman er að njóta. Liðið lék framúrskarandi vel og náði frábærum úrslitum . Þetta var stórkostlegur bikarleikur. Spennan var mikil mest allan tímann og allt gat gerst. Það sem réði úrslitum var þessi innri trú sem býr í liði þeirra Rauðu. Flest lið hefðu gefist upp þegar mótherjarnir voru búnir að jafna seint í leiknum. Jöfnunarmarkið færði Skyttunum vinningsstöðu. En liðið hans Rafael Benítez býr yfir þeirri tiltrú að allt sé hægt. Hið ótrúlega kvöld í Istanbúl býr alltaf í huga leikmannanna og sú reynsla sem liðið fékk þá gaf þeim kraft til að rífa sig upp.

Sumir vorkenna Arsenal kannski því liðið lék mjög vel framan af fyrri hálfleik. Í liði þeirra eru stórgóðir leikmenn en það vantar eldri leikmenn í liðið sem eru nógu góðir til að stjórna þeim ungu. Það skiptir í raun engu hvað Arsene Wenger segir um vítaspyrnudóminn og hvaða skoðun hann hefur á honum. Hann ætti miklu frekar að beina spjótum sínum að varnarmönnum sínum sem misstu einbeitinguna á mikilvægum augnablikum. Fyrst þegar Phillipe Senderos missti af Sami Hyypia þannig að hann fékk frítt færi til að skalla á markið. Næst þegar tveir varnarmenn gáfu Fernando Torres ráðrúm til að snúa sér og koma þeim Rauðu yfir með stórkostlegu skoti og loks þegar Ryan Babel gafst færi á að komast framhjá tveimur varnarmönnum áður en brotið var á honum. En úrslitin réðust ekki af þessum mistökum. Það sem réði úrslitum var samstaða þeirra Rauðu sem gefast aldrei upp í leikjum í Meistaradeildinni.

Það er mikið búið að ræða um atvikið sem tengdist Dirk Kuyt á The Emirates. Mér fannst að það hefði átt að vera vítaspyrna á sama hátt og mér fannst rétt að dæma vítaspyrnu í gærkvöldi. En sú spyrna réði ekki úrslitum því þeir Rauðu náðu fjórða markinu þegar Ryan Babel sýndi mikla yfirvegun og gulltryggði sigurinn."

Þetta er brot úr grein sem birtist í staðarblaðinu Echo.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan