| Sf. Gutt

Við óttumst enga

Margir töldu Argentínumanninn Javier Mascherano vera besta leikmann Liverpool á San Siro í gærkvöldi. Víst er að hann átti stórleik. Hann telur árangur Liverpool frábæran og segir leikmenn liðsins fulla sjálfstrausts.

"Þetta voru mjög góð úrslit fyrir liðið og sannarlega með þeim bestu sem það hefur náð. Þetta voru mögnuð úrslit fyrir leikmennina, stuðningsmennina og alla þá sem tengjast félaginu. Núna viljum við komast enn lengra í keppninni. Við erum að spila vel því er sjálfstraustið er mjög gott og þess vegna verðum við að reyna að halda okkar striki. Það skiptir engu máli hvaða lið við fáum næst því sá leikur verður erfiður fyrir okkur og það sama gildir um hitt liðið. Eftir svona góð úrslit hljótum við að trúa því að við getum komist lengra í keppninni.

Saga þessa félags er einstök og hún er þekkt um allan heim. Við höfum náð mjög góðum árangri í gegnum tíðina og núna erum við að gera okkar besta til að bæta við glæsta sögu félagsins."

Leikmenn Liverpool stóðu sig frábærlega í Mílanó í gærkvöldi en það gerðu stuðningsmenn liðsins líka. Mikill og góður stuðningur þeirra fór ekki framhjá Javier.

"Við vitum að stuðningsmenn Liverpool eru þeir bestu í heimi. Þeir eru alveg ótrúlegir. Ég veit ekki hversu margar þúsundir stuðningsmanna Inter Milan voru á leikvanginum en þrátt fyrir allan fjölda þeirra gátum við samt heyrt í stuðningsmönnum Liverpool syngja söngva sína. Stuðningur þeirra er okkur mjög mikilvægur því það veitir okkur mikla hvatningu að vita af þeim og mig langar að þakka þeim fyrir stuðninginn."

Það vakti athygli margra að stuðningsmenn beggja liða klöppuðu fyrir hvorum öðrum undir lok leiksins á San Siro. Það fór vel á með stuðningsmönnum liðanna í Liverpool og aftur í Mílanó. Stuðningsmenn Inter eru líka enn þakklátir Liverpool fyrir að hafa unnið AC Milan í Istanbúl um árið!

Hér má sjá myndir sem voru teknar í Mílanó í gær.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan