| Sf. Gutt

Gott gengi hélt áfram með auðveldum sigri!

Gott gengi Liverpool hélt áfram þegar liðið vann auðveldan 3:0 sigur á Newcastle United á Anfield Road. Furðulegt mark kom Liverpool á bragðið og eftir það var það aðeins spurning um hversu sigurinn yrði stór! Fernando Torres hélt áfram að fara á kostum og hann átti þátt í öllum þremur mörkunum. Liverpool náði með sigrinum þriggja stiga forystu á Everton.

Vinirnir Steven Gerrard og Michael Owen leiddu liðin sín til leiks en ætli Michael hefði ekki bara viljað vera í rauðum búningi í dag! Leikurinn byrjaði rólega. Fyrsta færið féll gestunum í skaut en Jose Reina sló boltann frá eftir að einn leikmaður Newcastle hafði átt skalla að marki eftir hornspyrnu. Fernando Torres ógnaði svo hinu megin eftir rúmlega tíu mínútna leik. Hann lék á einn varnarmann og skaut föstu skoti úr þröngu færi hægra megin úr teignum en Steve Harper varði vel. Hann varði svo aftur, nokkru síðar, gott skot frá Steven Gerrard. Steven fékk boltann inni í teignum eftir snögga aukaspyrnu. 

Þegar líða tók að lokum hálfleiksins leit allt út fyrir að Newcastle myndi halda jöfnu þegar flautað yrði til leikhlés. Það breyttist þó skyndilega á tveimur mínútum. Á 43. mínútu sendi Fernando boltann inn á vítateiginn. Uppi við endamörkin hægra megin hugðist Jose Enrique, varnarmaður Newcastle hreinsa frá. Jermaine Pennant sótti að honum en það virtist ekki vera nein hætta á ferðum. Jose tókst á hinn bóginn ekki betur upp en það að hann sparkaði boltanum í Jermaine og af honum sveif boltinn yfir Steve Harper og í markið. Eitt furðulegasta mark sem lengi hefur sést á Anfield Road en Jermaine var rétt sama því hann skoraði þarna fyrsta mark sitt á leiktíðinni. Tveimur mínútum síðar gerði Liverpool svo gott sem út um leikinn. Steven Gerrard fékk þá boltann í miðjunni og tók kraftmikla rispu fram völlinn. Hann renndi svo boltanum þvert fyrir vítateiginn á Fernando Torres. Spánverjinn komst inn á teiginn þar sem hann plataði Steve illa í markinu með því að leika á hann og renna boltanum í markið. Glæsilega gert hjá Spánverjanum! Staðan var sem sagt orðin 2:0 fyrir Liverpool upp úr þurru. Stuðningsmenn Liverpool trúðu varla sínum eigin augum en það var ekki skrýtið þótt Kevin Keegan, framkvæmdastjóri Liverpool, hristi höfuðið þegar hann gekk til búningsherbergja!

Síðari hálfleikurinn gat ekki byrjað betur því Liverpool gerði endanlega út um leikinn á 51. mínútu. Fernando fékk þá boltann við miðjuna og tók á rás. Vörn Newcastle gerði ekki neina atlögu að honum en Steven stakk sér inn fyrir vörnina. Fernando sá hann og sendi fullkomna sendingu inn fyrir vörnina. Steve kom út á markinu en Steven lyfti boltanum yfir hann af miklu öryggi. Glæsilega gert og Fernando endurgalt Steven greiðann frá því í fyrri hálfleiknum með því að leggja upp mark fyrir hann. Litlu síðar sneri Jose Reina vörn í sókn með frábæru útkasti fram að miðju. Boltinn fór beint á Fernando sem lék upp að teignum. Þar sendi hann á Steven sem braust inn í teiginn. Hann náði góðu skoti en Steve varði frábærlega. Steven fór af velli um miðjan hálfleikinn enda mikilvægur leikur framundan í Mílanó á þriðjudagskvöldið.

Obafemi Martins, sem kom inná sem varamaður var nærri því búinn að minnka muninn á 68. mínútu. Hann tók þá við boltanum eftir innkast og þrumaði honum að marki af hátt í 40 metra færi. Skotið tókst vel en heppnin var ekki með Obafemi því boltinn small í þverslánni! Ótrúlegt skot! Leikmenn Liverpool slökuðu á á lokakafla leiksins og fátt gerðist markvert til leiksloka. Liverpool komst næst því að skora þegar Dirk Kuyt komst í gott færi inni í vítateignum en Steve varði vel frá honum en boltinn barst út til John Arne Riise sem þrumaði í varnarmann. Hann fékk boltann aftur og skaut á nýjan leik en Steve varði vel í horn. Liverpool lék kannski ekki ýkja vel í leiknum en sigurinn var í auðveldara lagi og hann hefði getað verið stærri. Liverpool hefur nú unnið fjóra deildarleiki í röð! Kevin Keegan hefur á hinn bóginn ekki enn séð liðið sitt vinna leik eftir endurkomu sína!

Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Riise, Alonso, Leiva, Pennant (Hyypia 78. mín.), Gerrard (Kuyt 66. mín.), Benayoun og Torres (Crouch 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje og Babel.

Mörk Liverpool: Jermaine Pennant (43. mín.), Fernando Torres (45. mín.) og Steven Gerrard (51. mín.). 

Gult spjald: John Arne Riise.

Newcastle United: Harper, Beye, Faye, Taylor, Jose Enrique, Milner (Geremi 44. mín.), Butt, N´Zogbia, Duff (Martins 58. mín.), Owen og Smith. Ónotaðir varamenn: Forster, Cacapa og Carroll.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.031.

Maður leiksins: Fernando Torres. Spánverjinn hélt áfram þaðan sem frá var horfið gegn West Ham United á miðvikudagskvöldið. Hann skoraði eitt mark og átti stóran þátt í hinum tveimur mörkunum. Að auki sýndi Fernando hversu vel hann vinnur fyrir liðið. Tvívegis tók hann langa spretti til að reyna að stöðva framför mótherja. Hann er nú búinn að skora 25 mörk á leiktíðinni!

Álit Rafael Benítez: Það var eiginlega fullkominn dagur. Við náðum öllum stigunum og gátum skipt mönnum af velli til að hvíla þá fyrir Meistaradeildarleikinn á Ítalíu á þriðjudaginn. Heppnin var með okkur þegar fyrsta markið kom. Annað markið kom eftir frábært spil og það mark gerði gæfumuninn. Þeir Fernando Torres og Steven Gerrard ná vel saman og þeir geta gengið frá hvað liði sem er með hraða sínum og leikni.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...



 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan