| Sf. Gutt

Ekki dauðir úr öllum æðum!

Liverpool rétti heldur betur úr kútnum í kvöld með frábærum sigri á Inter Milan í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Eftir þrautagöngu síðustu vikna þjappaði liðið sér saman og það skilaði sér. Liverpool vann 2:0 og liðið á nú gullna möguleika á að komast áfram.

Það var magnað andrúmsloft fyrir leikinn og áhorfendur sungu You´ll Never Walk Alone af mikilli innlifun. Í raun má segja að áhorfendur hafi þar með gefið tóninn fyrir leikmenn Liverpool. Leikmennirnir komu gríðarlega ákveðnir til leiks og það var allt annað yfirbragð á liðinu en á síðustu vikum. Reyndar kom þetta yfirbragð á liðinu fáum á óvart! Strax á þriðju mínútu heimtaði Jamie Carragher vítaspyrnu eftir að skot hans fór í hendi eins varnarmanns ítölsku meistaranna. Ekki löngu síðar átti Sami Hyypia góðan skalla að marki eftir hornspyrnu en Julio Cesar, markvörður Inter, sló boltann yfir. Á 12. mínútu fékk Marco Materazzi gult spjald fyrir brot á Fernando Torres. Liverpool sótti af miklum krafti en Inter, sem aðeins hafði tapað einum leik á allri leiktíðinni, varðist af miklu öryggi. Á 30. mínútu gerðist umdeild atvik. Marco Materazzi hindraði Fernando á miðjum vellinum og dómarinn sýndi honum umsvifalaust gult spjald og svo rautt! Vissulega harður dómur en stuðningsmönnum Liverpool var rétt sama og ekki spillti það ánægjunni að Marco spilaði eitt sinn með Everton! Ítölsku meistararnir létu þó engan bilbug á sér finna og Liverpool komst ekkert áleiðis. Helsta færið kom undir lok hálfleiksins þegar Steven Gerrard braust laglega inn á teiginn hægra megin og sendi fyrir markið. Enginn var þó til að ná sendingu hans og varnarmaður bjargaði.

Lengi vel, í síðari hálfleik, gekk ekkert hjá Liverpool að brjóta Inter á bak aftur.  Ítalska liðið spilaði sem fyrr af mikilli yfirvegun og reyndi varla að sækja. Á 58. mínútu fékk Liverpool loks opið færi. Dirk Kuyt þrengdi að varnarmanni og stöðvaði hreinsun hans. Boltinn hrökk inn fyrir vörn Inter á Fernando sem komst upp að teignum og skaut að marki en Julio varði frábærlega í horn. Tveimur mínútum síðar átti Liverpool að fá vítaspyrnu. Steven lék upp að endamörkum hægra megin og hugðist lyfta boltanum yfir Patrick Vieira sem kom inn sem varamaður litlu áður. Frakkinn handlék boltann en ekkert var dæmt. Sókn Liverpool þyngdist jafnt og þétt. Peter Crouch og Jermaine Pennant styrktu sóknarleikinn enn frekar en varnarleikur Inter virtist ætla að halda. Fimm mínútum fyrir leikslok sprakk allt á Anfield Road. Eftir harða sókn sendi Jermaine boltann fyrir frá hægri. Boltinn fór framhjá öllum og endaði för sína hjá Dirk Kuyt sem var utarlega í teginum vinstra megin. Dirk skaut og boltinn hafnaði í markinu með viðkomu í einum varnarmanni. Julio kom engum vörnum við í markinu og Liverpool var komið yfir! Þrátt fyrir að hafa komist yfir og að stutt væri eftir mátti finna að leikmenn Liverpool vildu reyna að ná öðru marki. Það tókst á lokamínútunni. Steven Gerrard fékk boltann frá Jermaine út af vítateigshorninu hægra megin. Þaðan skaut hann hnitmiðuðu skoti sem rataði rétta boðleið í hornið fjær í stöng og inn. Nú gekk allt af göflunum á Anfield Road! Allir gleymdu þrautagöngu síðustu vikna í villtum fögnuði. Tveggja marka sigur Liverpool var innsiglaður með þessu marki og Inter Milan mátti þola sitt fyrsta tap í hálft ár! Svona á Liverpool að leika og ekki bara af og til!

Talandi um viðsnúning frá síðasta leik Liverpool! Hvernig má það vera að Liverpool geti leikið svona í kvöld og í næsta leik á undan tapað á heimavelli fyrir liði úr næstu efstu deild? Njótum þessa magnaða sigurs en um leið er hér og hér og nú gerð krafa um að liðið leiki á þessum nótum til loka þessarar erfiðu leiktíðar!

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Aurelio, Gerrard, Mascherano, Leiva (Crouch 64. mín.), Babel (Pennant 72. mín.), Kuyt og Torres. Ónotaðir varamenn: Itandje, Riise, Benayoun, Alonso og Arbeloa.

Mörk Liverpool: Dirk Kuyt (85. mín.) og Steven Gerrard (90. mín.).

Inter Milan: Julio Cesar, Maicon, Cordoba (Burdisso 75. mín.), Materazzi, Chivu, Zanetti, Stankovic, Cambiasso, Maxwell, Cruz (Vieira 55. mín.) og Ibrahimovic. Ónotaðir varamenn: Toldo, Figo, Crespo, Maniche og Suazo.

Rautt spjald: Marco Materazzi.

Gul spjöld: Christain Chivu og Marco Materazzi.

Áhorfendur á Anfield Road: 41.999.

Maður leiksins: Dirk Kuyt. Hollendingurinn er búinn að liggja undir miklu ámæli á þessari leiktíð og mikið af þeirri gagnrýni hefur hann átt skilið. Allir leikmenn Liverpool léku mjög vel í kvöld og Dirk var kannski ekki allra besti maður liðsins en hann lék sinn besta leik í óratíma og skoraði markið sem braut ísinn.

Álit Rafael Benítez: "Ég held að allir hafi vitað að við þurftum á þessum sigri að halda. Hann var mjög mikilvægur fyrir félagið og stuðningsmennina. Ég hef alltaf haft trú á þessu liði og við eigum eftir að vinna fullt af leikjum. Það verður núna erfitt fyrir þá að snúa blaðinu við en þeir hafa marga góða leikmenn í sínum röðum og þó svo að við höfum trú á okkur þá munum við ekki vera værukærir. Sem framkvæmdastjóri þá er ég alltaf mjög ánægður þegar við vinnum og það eru mér líka vonbrigði þegar við töpum en núna er tími til að vera hamingjusamur. "

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC...

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Fox sport...

 

 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan