| Sf. Gutt

Hörð gagnrýni frá Tommy Smith

Tommy Smith, fyrrum leikmaður Liverpool, hefur aldrei verið mikið fyrir það að skafa utan af hlutunum. Honum var mikið niðri fyrir í útvarpsviðtali við BBC í morgun. Tommy telur Rafael Benítez hafa gert mikil mistök í stjórn liðsins í leiknum við Barnsley í gær og þau mistök hafi kostað tap.

“Rafael Benítez skrifaði í leikskrána fyrir leikinn í gær að bikarleikir væru alltaf hættulegir ef menn myndu vanmeta andstæðingana. Hvers vegna í ósköpunum stillti hann þá ekki upp sterkara liði gegn Barnsley?"

Tommy var því næst spurður að því hvort hann teldi að stuðningsmenn Liverpool væru að missa þolinmæðina gagnvart Rafael Benítez.

"Ég get alveg ímyndað mér það. Þegar upp er staðið þá er það enn í gildi sem Bill Shankly sagði. Hann sagði að maður væri bara jafn góður og síðustu úrslit gæfu til kynna. Þess vegna má spyrja hvernig Rafael telur að hann geti unnið titla þegar hann teflir ekki sínum bestu mönnum fram? Liðshópur Liverpool er einfaldlega ekki eins góður og ég held að Rafael hafi talið hann í upphafi leiktíðarinnar. Mér finnst reyndar besta liðið sem Liverpool getur teflt fram ekki svo sterkt. En mér er það óskiljanlegt af hverju hann valdi ekki þá Jose Reina, Steven Gerrard og Javier Mascherano í liðið. Steven Gerrard er fyrsti maðurinn sem maður á að velja í liðið. En hvernig í veröldinni var hægt að láta hann sitja á bekknum í 75 mínútur og horfa upp á þetta. Svo talar hann um að liðið hafi fengið nóg af færum. Þessi marktækifæri eru að minnsta kosti farin veg allrar veraldar. Maður skorar ekki eftir að leiknum er lokið."

Víst er að margir stuðningsmenn Liverpool geta tekið undir þessi orð Tommy Smith nú í dag þegar í ljós kom að úrslit gærdagsins voru ekki slæmur draumur heldur blákaldur veruleiki.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan