| Grétar Magnússon

Alonso í viðtali

Xabi Alonso er hér í viðtali þar sem hann viðurkennir að þurfa að bæta sinn leik til þess að eiga möguleika á því að komast í byrjunarliðið.  Hann segist ólmur vilja bæta upp fyrir tapaðar stundir á fótboltavellinum á þessu tímabili.

Alonso hefur átt við þónokkur meiðsli að stríða á þessu tímabili og hefur hann aðeins spilað 13 leiki með liðinu í öllum keppnum.  Þrátt fyrir að þeir Steven Gerrard, Javier Mascherano og Lucas hafi verið að spila vel á tímabilinu hefur góðrar frammistöðu Spánverjans unga verið sárt saknað á tímabilinu.

Alonso á marga aðdáendur og hafa þeir ekki verið sparir á yfirlýsingar þess efnis, þegar þeir hitta hann útá götu, að hans sé sárt saknað í liðinu.  Alonso er hinsvegar ekki á þeim buxunum að hugsa um hvað hefði getað gerst ef hann hefði ekki meiðst og segir að nú sé kominn tími til að spila almennilega.

,,Þetta hefur ekki verið auðvelt tímabil fyrir mig," viðurkennir Alonso.  ,,Ef maður spyr hvaða leikmann sem er hvernig það er að koma til baka úr meiðslum þá segja þeir allir að það mikilvægasta sé að spila nokkra leiki í röð.  Það er einmitt það sem ég þarf núna og vonandi fæ ég það, þó svo að ég viti að það verður erfitt þar sem Steven, Javier og Lucas hafa verið að gera vel."

,,En ég verð að halda áfram að leggja hart að mér á æfingum og vonandi fæ ég tækifærið.  Maður verður að ganga úr skugga um að maður sé tilbúinn þegar kallið kemur, þannig að ég verð í byrjunarliðinu á morgun (gegn Barnsley) þá mun ég gefa allt mitt.  Það er alltaf gaman þegar stuðningsmennirnir segja manni að þeir vilji sjá mann í liðinu, og ég er þakklátur fyrir stuðning þeirra, en nú er kominn tími á að ég sjálfur sýni mitt besta."

Ekki er ólíklegt að Alonso fái tækifærið gegn Barnsley á morgun í fimmtu umferð FA Bikarsins.  Þetta er keppni sem Alonso er farinn að elska eftir að hann kom til Anfield frá Real Sociedad fyrir fjórum árum og er honum sérstaklega minnistæður vítaspyrnusigurinn gegn West Ham árið 2006.  Nú vill hann bæta öðrum kafla við sína bikarsögu og jafnframt uppfylla draum sinn um að spila á Wembley.

Hann segir:  ,,Fyrst af öllu verðum við að vinna vinnuna okkar gegn Barnsley vegna þess að við vitum að þeir eru með gott lið sem getur komið á Anfield og gert okkur erfitt fyrir.  Ég vissi ekki mikið um þá fyrir dráttinn en ég hef verið að fylgjast með þeim og þeir náðu góðum úrslitum nýlega þegar þeir sigruðu West Brom í deildinni."

,,En að komast á Wembley er mín hvatning sem og hinna leikmannanna vegna þess að það er mjög sérstakt að spila þar.  Ég hef aldrei spilað þar áður en Stevie, Carra og Crouchi hafa spilað þar fyrir England eftir að völlurinn var tekinn í notkun að nýju og þeir hafa allir talað um hversu góður völlurinn er.  Núna eru undanúrslitin einnig spiluð á Wembley og að vera aðeins tveim leikjum frá því að spila þar er mjög stór hlutur fyrir alla."

,,En á morgun snýst þetta allt um Barnsley á Anfield.  Við verðum að gera okkar besta því annars komumst við ekki á Wembley.  Ég er nú þegar kominn með medalíu fyrir sigur í þessari keppni en auðvitað vil ég fá aðra.  Dagurinn þegar við unnum West Ham var sérstakur dagur fyrir liðið og mig sjálfan þó svo að ég hafi þurft að fara af velli eftir 70 mínútur vegna þess að ég meiddist lítillega þegar við spiluðum við Portsmouth í deildinni helgina fyrir úrslitaleikinn."

,,Andrúmsloftið var frábært og leikurinn hafði allt það sem gerir FA Bikarinn svo sérstaka keppni.  Við þurftum að slá út nokkur stór lið til að komast í úrslitin.  Við spiluðum við Mancester United í fimmtu umferðinni og Chelsea í undanúrslitunum þannig að við gerðum vel í að komast alla leið.  Leikurinn við Chelsea stendur uppúr vegna þess að okkur fannst þetta vera úrslitaleikur frekar en undanúrslitaleikur.  Ég held að þegar að maður hefur spilað í svona leikjum þá vill maður gera það aftur og aftur vegna þess hversu sérstakir þessir leikir eru."

Ef Alonso spilar á morgun þá mun hann koma inn í lið sem virðist vera komið með sjálfstraustið á ný eftir að hafa spilað vel gegn Chelsea síðastliðinn sunnudag.  Hvað hann varðar þá telur Alonso að liðið ætti að byggja á þessari frammistöðu og nýta hana sem stökkpall á frekari sigra í deildinni og bikarkeppnunum.

,,Frammistaðan gegn Chelsea var mjög góð, en nú verðum við að halda því áfram," segir hann.  ,,Þetta var fyrsta skrefið í átt að því að koma af stað sigurgöngu hjá okkur.  Við vitum að það verður erfitt að gera atlögu að titlinum en það eru ennþá margir leikir eftir þannig að við verðum að gera allt sem við getum til að færast ofar í töflunni og reyna að tryggja það að við verðum meðal fjögurra efstu liðanna.  Svo eru auðvitað bikarkeppnirnar og þar höfum við að miklu að keppa."

Það er því ljóst að ef Alonso kemst í sitt fyrra form að þá endar tímabil Liverpool á góðu nótunum fyrir félagið og hann sjálfan.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan