| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Hugleiðing þýðanda: Liverpool heldur nú á Brúna í annað sinn á þessari leiktíð. Fyrri heimsóknin endaði eins og svo margar á síðustu árum. Liverpool tapaði! Sá leikur var í Deildarbikarnum. Líkt og oft síðustu árin þá lék Liverpool þokkalega í leiknum en Chelsea reyndist sterkari aðilinn. Liverpool hefur ekki gengið verr á nokkrum velli en Stamford Bridge á undanförnum árum. En hvað verður nú? Liverpool vann loks deildarsigur gegn Sunderland um síðustu helgi og sá leikur ætti að geta komið liðinu í gang. Á hinn bóginn gæti Liverpool vart átt erfiðari leik framundan. Það er að segja á pappírunum. Svo vantar helsta markaskorara Liverpool en það eru gömul sannindi og ný að maður kemur í manns stað.

Landsleikir hafa reynst Liverpool dýrkeyptir á þessari leiktíð. Fernando Torres hefur tvívegi meiðst eftir að hafa verið með landsliðinu. Xabi Alonso hefur einu sinni meiðst og Daniel Agger hefur enn ekki náð sér eftir meiðsli í landsleikjahléi í haust. Landslið munu á hinn bóginn ekki hætta að vera til og þau skipa hluta af þeim metnaði sem knattspyrnumenn bera. Hver vill ekki spila með landsliði þjóðar sinnar og geta sér gott orð? Vináttulandsleikir hafa verið gagnrýndir en á móti má segja að landsliðþjálfarar þurfi einhvern tíma að prófa leikmenn og leikkerfi án þess að allt sé undir. Sú staðreynd dregur reyndar ekkert úr þeirri gremju sem skapast hjá félagsliðum og aðstandendum þeirra þegar lykilmenn meiðast þegar þeir eru við æfingum og keppni með landsliðum sínum

Liverpool gegn Chelsea á síðustu sparktíð: Liverpool mætti reyndar tvívegis á Brúna á síðustu leiktíð. Báðir leikirnir enduðu eins. Chelsea skoraði eina mark leiksins. Annar leikurinn var að sjálfsögðu í deildinni en hinn var í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Liverpool hafði þó betur í þeirri rimmu áður en yfir lauk!

Spá Mark Lawrenson

Chelsea v Liverpool

Chelsea gæti stillt upp tveimur mismunandi liðum í Úrvalsdeildinni og bæði gætu endað í fimm efstu sætum deildarinnar. Liðið hefur oft leikið prýðilega undir stjórn Avram Grant án þess að það hafi vakið mikla athygli. Þar sem Fernando Torres er óleikfær þá hafa margir áhyggjur af því hverjir muni skora. Liðið hefur átt erfitt uppdráttar upp á síðkastið og liðið spilar oft stífan varnarleik þegar það mætir Chelsea á útivelli.

Úrskurður: Chelsea v Liverpool 2:0.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan