| Sf. Gutt

Haukarnir fá verðskuldað hrós!

Leikmenn Havant & Waterlooville hafa fengið hrós úr öllum áttum eftir frækilega framgöngu sína á Anfield Road í gær. Hrósið hefur ekki síst komið úr herbúðum Liverpool! Bæði Rafael Benítez og Dirk Kuyt hældu Haukunum á hvert reipi.

Rafael Benítez: F.A. bikarkeppnin er alveg makalaus keppni. Það er alveg magnað að lið fimm deildum neðar geti komist í gegnum þrjár umferðir og komið á Anfield. Það er ekki fyrirfram hægt að segja að eitthvað lið verði auðveldur andstæðingur. Við þurftum að leggja verulega hart að okkur og við lékum miklu betur í síðari hálfleik. Það var góð stemmning á leiknum og það var virkilega gaman fyrir þá að skora tvö mörk. Þeir fara héðan með góðar minningar.

Dirk Kuyt: Þeir voru ótrúlegir. Ég held að utandeildarlið sé að standa sig gríðarlega vel þegar það nær 1:0 forystu og kemst svo aftur 2:1 yfir gegn Liverpool. Liðið á sannarlega hrós skilið fyrir sína framgöngu. Þetta var alveg ótrúlegt. Við áttum ekki von á að fá tvö mörk á okkur en við vorum lánsamir að ná að bæta okkur og það þurftum við sannarlega að gera í seinni hálfleiknum eftir hvernig við spiluðum fyrstu 45 mínúturnar. Framkvæmdastjórinn lét nokkur orð falla í leikhléinu en ég held að allir hafi verið vonsviknir með stöðuna þá. Við vissum að við þurftum að spila betur og það gerðum við.

Líklega var Shaun Gale, framkvæmdastjóri Havant, einn stoltasti maður á öllu Englandi eftir leikinn og hann mátti svo sannarlega vera það.

Shaun Gale: Við vorum frábærir og við áttum það sannarlega skilið þegar stuðningsmenn Liverpool stóðu upp í leikslok og klöppuðu fyrir okkur. Fólk hló bara að okkur þegar við sögðumst ætla að koma hingað og láta finna fyrir okkur en við stóðum við það. Ef maður liggur í vörn gegn liði eins og Liverpool þá verður maður myrtur en við vorum ekki teknir af lífi.

Þrátt fyrir að eitt og annað hafi gengið á hjá Liverpool að undanförnu og álagið hafi verið mikið á Rafael Benítez þá gaf hann sér tíma eftir leikinn til að hrósa leikmönnum Havant

Shaun Gale: Rafa bankaði upp á dyrnar í búningsherberginu okkar eftir leikinn og leit inn. Hann kom inn og hrósaði okkur fyrir leik okkar. Ég ber takmarkalausa virðingu fyrir honum. Hann er einn besti framkvæmdastjóri í heimi og ég er orðlaus yfir því sem hann gerði. Leikmennirnir þeirra komu líka inn og skrifuðu nöfnin sín á treyjur fyrir okkur. Við fengum frábærar móttökur.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan