| Sf. Gutt

Goðsagnir hylla Carra!

Jamie Carragher lék sinn 500. leik með Liverpool gegn Luton Town á þriðjudagskvöldið. Afrekið er mikið og tvær goðsagnir úr sögu Liverpool hylla hann hér. Þeir Ian Callaghan og Tommy Smith eiga það sameiginlegt með Jamie að vera fæddir og uppaldir í Liverpool. Þeir léku svo fjölda leikja með Liverpool. Ian er leikjahæsti leikmaður í sögu Liverpool með 857 leiki. Tommy er sá sjötti leikjahæsti með 638 leiki. Þeir Ian og Tommy taka hér til máls.

Ian Callaghan: Það segir sína sögu að ná því að vera einn af 12 leikmönnum í sögu Liverpool til að ná að leika 500 leiki fyrir hönd félagsins. Ég man nú ekki eftir neinu sérstöku atviki sem er einkennandi fyrir hann en hann leggur sig einfaldlega 100% fram í hverjum leik. Eldmóður hans og staðfesta eru manni efst í huga og af þeim eiginleikum fær maður nóg frá honum. Hann stendur sig alltaf með miklum sóma og hann er alltaf tilbúinn að leggja sig allan fram fyrir málstaðinn. Hann er núna búinn að vera einn af hornsteinum liðsins í fjölda ára og hans verður minnst í framtíðinni sem leikmanns sem stóð sig frábærlega með Liverpool.

Tommy Smith: Jamie Carragher á skilið allt það hól sem hann hefur fengið í tengslum við 500. leik sinn með Liverpool. Þetta er frábært afrek hjá honum. Ég vona, með hagsmuni liðsins í huga, að hann leiki meira en 600 leiki með liðinu. Miðað við stöðugleika hans þá ætti hann auðveldlega að geta það. Guði sé lof að hann er lykilmaður í liðinu því hann spilar alltaf jafn vel svo til í hverri einustu viku. Besta hólið sem ég get gefið honum er að hann er einn besti varnarmaður í heimi. Hann er einn af þeim leikmönnum sem hafa getað leikið með Liverpool á öllum tímaskeiðum. Til hamingju Jamie.

Hér á myndinni tekur Jamie við viðurkenningu, fyrir að hafa leikið 500 leiki með Liverpool, frá Ian Callaghan. 

 








TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan