| Grétar Magnússon

Alonso vonar að meiðslavandræðin séu að baki

Síðast þegar Xabi Alonso kom til baka úr erfiðum meiðslum fyrir leik í 8-liða úrslitum spilaði hann stórvel og Liverpool slógu út Juventus í Meistaradeildinni.

Þá var hann að jafna sig eftir að hafa ökklabrotnað gegn Chelsea.  Í kvöld, vonast Spánverjinn til þess að hann geti hætt að hafa áhyggjur af meiðslum.  Eftir að hafa brákað bein í fæti í september kom hann til baka gegn Arsenal sex vikum síðar, aðeins til þess að meiðslin tóku sig upp aftur og hann þurfti að sætta sig við að vera meiddur aftur.

Meiðslavandræðin hafa reynt á Alonso en hann vill nú bara einbeita sér að því að gleyma þeim og vill hann byrja í kvöld gegn Chelsea.

,,Þetta hefur verið mjög pirrandi tími fyrir mig," viðurkennir Alonso.  ,,Enginn leikmaður vill vera í meiðslum vegna þess að maður vill æfa og spila með liðsfélögum sínum og það er ekki gaman þegar maður getur ekki gert það.

,,Ég hef verið meiddur áður og maður þarf að sætta sig við þetta þegar þetta gerist því þetta er hluti af því að vera í fótbolta, en það sem gerði þetta verra í þetta sinn var að ég var að koma til baka þegar ég meiddist aftur."

Að sjá Alonso haltra af velli gegn Arsenal var sorglegt fyrir alla þá sem tengjast Liverpool og sú staðreynd að Arsenal jöfnuðu eftir að hann var farinn af velli er kannski ekki bara tilviljun ein.

Í þetta sinn er Alonso fullviss um að hann hafi jafnað sig að fullu og mun hann ekki halda aftur af sér ef hann verður valinn í byrjunarliðið í kvöld.  Það verður að teljast ansi líklegt að Alonso verði með frá byrjun þar sem Steven Gerrard er ekki með vegna magakveisu.

Hann sagði:  ,,Það væri gaman að fá að spila í einhverjar mínútur í kvöld vegna þess að mér finnst ég vera tilbúinn.  Ég hef verið að æfa í tvær og hálfa viku - bæði með aðalliðinu og varaliðinu þegar aðalliðið var að spila - og allt hefur gengið vel.  En alvöru prófið er þegar maður spilar leik."

,,Ég hef verið að tækla eins og venjulega á æfingum og ég finn ekki neinn sársauka þannig að ég býst ekki við því að það verði vandamál."

Ef skoðað er það sem fór úrskeiðis gegn Arsenal heldur Alonso því fram að hann hefði kannski mátt hlusta betur á líkama sinn þegar leið að leiknum.

,,Það er auðvelt að vera vitur eftirá en það hefði kannski verið betra ef ég hefði farið af velli rétt áður en ég meiddist," sagði hann.  ,,Mér fannst ég vera örlítið þreyttur vegna þess að þetta var fyrsti leikurinn eftir meiðsli og hann var hraður.  En sem leikmaður vill maður ekki fara útaf sérstaklega ekki þar sem við vorum yfir."

Eftir að hafa svo misst af næstu 10 leikjum er Alonso æstur í að fá að spila gegn Chelsea, jafnvel þó að það þýði að hann mæti leikmanninum sem braut á honum ökklann í janúar árið 2005.  Alonso segist hinsvegar ekki vera bera kala til Frank Lampard og hlakkar hann frekar til að takast á við hann út á vellinum.

,,Honum finnst gaman að tækla og mér líka," sagði Alonso.  ,,Mér líkar virkilega vel við líkamlega hlutann af leiknum og vegna þess veit ég að ef ég fer í tæklingar þá verð ég einnig tæklaður.  Við höfum spilað gegn hvor öðrum nokkuð oft undanfarið og við reynum báðir að vinna boltann og gera okkar besta fyrir liðið, en ég á ekki í neinum útistöðum við hann."

,,Fyrir mér er það mikilvægasta að vera kominn til baka í liðið.  Ég er hæstánægður með það og ef ég get tekið þátt í leiknum þá verður það ennþá betra."

Líkt og allir hjá félaginu er Alonso það hulin ráðgáta hvers vegna ekki tekst að vinna hin toppliðin þrjú það sem af er tímabili.  En hann trúir því að leikurinn við Chelsea gefi liðinu gullið tækifæri til að enda þessa bölvun þó svo að þetta sé ekki deildarleikur.

,,Leikir gegn Chelsea eru alltaf mikilvægir," sagði hann.  ,,Það skiptir ekki máli í hvaða keppni leikurinn er, hvort sem það er í deildinni, bikarkeppni eða í Evrópu.  Við verðum að trúa því að við getum náð góðum úrslitum á Stamford Bridge vegna þess að ef við vinnum þar getur það gefið okkur trú á að við getum sigrað hin toppliðin á þeirra eigin völlum."

,,Ef við viljum gera atlögu að titlinum þá eru svona leikir góðir til þess að ná góðum úrslitum."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan