| Sf. Gutt

Alger draumur!

Strákurinn frá Marokkó Nabil El Zhar lét heldur betur að sér kveða með Liverpool gegn Cardiff City í gærkvöldi. Fyrir utan að eiga góðan leik þá skoraði hann glæsilegt mark með þrumuskoti af hátt í 30 metra færi. Ekki spillti fyrir að markið kom fyrir framan The Kop. Það var ekki að undra að Nabil væri ánægður eftir leikinn.

"Það hefur verið mér draumur að skora fyrir framan Kop og nú hefur sá draumur orðið af veruleika. Ég veit ekki hvort ég hef skorað fallegra mark en ég vona bara að þetta sé fyrsta mark mitt af mörgum sem ég skora fyrir Liverpool. Ég á ekki orð til lýsa tilfinningunni sem kom yfir mig þegar ég skoraði. Hún var einfaldlega ótrúleg.

Maður verður að reyna að gleyma því með hvaða leikmönnum maður er að spila með og einbeita sér að því að sýna hvað í manni býr. Ég vona að mér hafi tekist það. Nú verð ég að reyna að halda mér inni í myndinni hjá aðalliðinu. Það dugar ekkert annað en að drífa sig á fætur á morgnana, fara á æfingu og halda áfram að leggja hart að sér. Það þýðir þó ekkert annað en að halda sig á jörðinni. Ég náði að skora mark en ég þarf að gera meira til að vinna mér sæti í þessu liði. Ég hef svo sem ekki afrekað neitt ennþá."

Nabil El Zhar er fyrsti leikmaðurinn frá Marokkó til að leika með Liverpool. Hann hefur nú leikið fjóra leiki með Liverpool. Hvort þeir verða mikið fleiri á eftir að koma í ljós en hvað sem verður þá mun Nabil örugglega aldrei gleyma leiknum og markinu í gærkvöldi.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan