George Patterson

George Patterson, ritari Liverpool, sem hafði tekið við liðinu til bráðabirgða eftir að Ashworth yfirgaf félagið árið 1923, var boðin framkvæmdastjórastaðan eftir brotthvarf Matt McQueen og nú til langframa. George kom fyrst til Liverpool sem aðstoðarmaður Tom heitins Watson árið 1908. Áður en Matt hætti hafði hann fengið til liðs við Liverpool þann mann sem átti eftir að verða mestur markaskorari fram að þeim tíma hjá félaginu. Þessi magnaði leikmaður hét Gordon Hodgson og er enn þriðji markahæsti leikmaður í sögu félagsins.

Liverpool endaði leiktíðina 1928/29 í 5. sæti þrátt fyrir að leikmenn liðsins sendu boltann 90 sinnum í mark andstæðinga sinna. Heimskreppan gekk í garð um 1930 og það mátti segja að nokkurs konar kreppa ríkti á Anfield Road á þeim áratug sem var að hefjast. Arsenal var lið áratugarins og vann titilinn 1931 og þrjú ár í röð 1933, 1934, 1935 og svo enn einu sinni 1938. Að auki unnu Skytturnar F.A. bikarinn 1930 og 1936.

Versta tap Liverpool á Anfield Road í sögunni átti sér stað í apríl 1930 þegar Sunderland vann 6:0. Liverpool hafnaði í tólfta sæti þetta vor. Skrautlegast var þó kannski tímabilið 1930/31 þegar liðið vann stórsigra og tapaði illa inn á milli. Frammistaða liðsins var alltof sveiflukennd ólíkt formi Gordon Hodgson sem skoraði hvorki fleiri né færri en 36 mörk. Liverpool endaði þrátt fyrir öll mörkin einungis í níunda sæti. Á næstu sparktíð hafnaði Liverpool í tíunda sæti. Á lokadegi hennar varð mettap staðreynd þegar Bolton vann Liverpool 8:1 á heimavelli sínum. Leiktíðina 1932/33 var tíunda sætið hlutskipti Liverpool og enn var það leikur gegn Everton sem stóð upp úr. Everton voru þá ríkjandi meistarar og komu í heimsókn á Anfield Road þann 11. febrúar. Meistararnir fengu að finna fyrir því og Liverpool vann 7:4 sigur í ótrúlegum leik. Harold Barton skoraði þrennu og aldrei hafa fleiri mörk verið skoruð í einum leik milli þessara fornu keppinauta.

Versti dagur næstu leiktíðar var Nýársdagur 1934. Liverpool tapaði þá 9:2, sem var jöfnun á mettapi, fyrir Newcastle á útivelli. Það ótrúlegasta við þennan leik var það að staðan var 2:2 í hálfleik. Ef til vill hefur nýársgleðin farið að segja til sín í síðari hálfleik. Liverpool endaði í átjánda sæti og sýnt var að ef breytingar yrðu ekki á gengi liðsins þá myndi fall í aðra deild ekki vera langt undan. Reynt var að bregðast við á árinu 1934 með því að styrkja vörn liðsins með kaupum á báðum bakvörðum enska landsliðsins. Liverpool tók sig á og lauk næstu leiktíð í sjöunda sæti. En næsta tímabil á eftir, 1935/36, var falldraugurinn yfirvofandi og liðið rétt slapp við fall í nítjánda sæti.

George Patterson settist í helgan stein af heilsufarsástæðum um vorið en hélt reyndar áfram að vera ritari félagsins. Þrátt fyrir að margir töldu að hann hefði ekki verið hæfur að fást við framkvæmdastjórn félagins þá hafði hann gott auga fyrir hæfileikaríkum leikmönnum og keypti meðal annars Phil Taylor og Matt Busby til félagsins.

TIL BAKA