Graeme Souness

Í apríl 1991 var Graeme skipaður framkvæmdastjóri Liverpool. Noel White stjórnarformaður Liverpool var viss í sinni sök að þeir hefðu ráðið rétta manninn: "Hann er fyrsta flokks valkostur fyrir Liverpool, sem leikmaður gaf hann bæði hjarta og sál í boltann og sem framkvæmdastjóri mun hann gera slíkt hið sama. Ég hlakka til þess að kynnast honum mun betur. Hann hefur verið alinn upp samkvæmt hefðum Liverpool og býr yfir eiginleikum fyrirrennara sinna. Hann hefur rétta persónuleikann í starfið. Graeme Souness mun verða mjög sigursæll."

Souness sagðist ekki hafa getað sleppt tækifærinu til að koma aftur til starfa hjá gamla félaginu sínu og hann myndi leggja allt í sölurnar til að vinna titla. Það voru fáir leikir eftir þegar Graeme tók við og titillinn úr sögunni. En um sumarið hófst Graeme handa. Leikmenn voru keyptir og seldir og það var greinilegt að Graeme hugðist nota sömu aðferðir og skiluðu árangri hjá Rangers. Eins og hjá Rangers skiptu hefðir og gamlir og grónir starfshættir engu í augum Skotans. Það allra heilagasta á Anfield Road "Skóherbergið" slapp ekki og var breytt í blaðamannaherbergi. Stjórn Liverpool var reyndar búinn að taka þessa ákvörðun í stjórnartíð Dalglish en ekki stöðvaði Souness þennan harmleik. Gengi liðsins var ekki nógu gott en menn sýndu þolinmæði því margir nýir menn og margir ungir voru í liðinu og við því að búast að tíma tæki að móta nýtt lið.

Liverpool átti aldarafmæli 1992 og liðið komst í úrslit F.A. bikarins. En það var mikið búið að ganga á áður. Eftir 1:1 jafntefli í undanúrslitum bikarins gegn Portsmouth var tilkynnt að Graeme þyrfti tafarlaust í hjartaaðgerð. Ronnie Moran tók við stjórn liðsins til vors en Graeme lagðist inn á sjúkrahús til aðgerðar. Liverpool vann Portsmouth í vítaspyrnukeppni í aukaleik og tryggði sér sæti á Wembley gegn Sunderland. Graeme mætti til leiksins í fylgd læknis og sat á varamannabekknum í úrslitaleiknum. Hann átti erfitt með að halda sér rólegum þegar tvö mörk Liverpool litu dagsins ljós enda mátti hann ekki æsa sig um of. Hann var nýkominn af sjúkrahúsi og hugrekki Skotans verður aldrei dregið í efa. Það jók ekki vinsældir kappans að brúðkaupsmynd Souness og nýju eiginkonunnar birtist í The Sun nákvæmlega sama dag og Hillsborough-slysið átti sér stað nokkrum árum áður. Þetta olli miklum deilum en Souness til málsbóta þá átti þessi mynd ekki að birtast þennan dag en seinagangur ritstjórnar varð til þess að hún birtist akkúrat upp á dag. The Sun var hatað blað eftir að þeir héldu því fram í blaðagrein að aðdáendur Liverpool hefðu rænt látna félaga sína á Hillsborough sem var ótrúleg fullyrðing og átti ekki við nein rök að styðjast. The Sun var ekki keypt í Liverpool og Graeme baðst síðar opinberlega afsökunar en það var of seint og honum var aldrei fyrirgefið af áhagendum liðsins.

Ekkert gekk leiktíðina 1992-93 og um vorið eftir að liðið hafnaði í áttunda sæti í deildinni var það mál manna að Graeme myndi hætta. En stjórn Liverpool hefur ekki verið þekkt fyrir að hlaupa til með ákvarðanir og ákveðið var að Graeme héldi áfram störfum með þeirri breytingu þó að Roy Evans var gerður að aðstoðarframkvæmdastjóra. Þessi breyting skilaði ekki tilætluðum árangri og lítið gekk í deildinni. Eftir tap í aukaleik fyrir Bristol City á Anfield Road í 3. umferð F.A. bikarins 25. janúar var Graeme kominn í öngstræti. Þann 28. janúar sagði hann starfi sínu lausu. Það er ekki rétt sem haldið hefur verið fram að hann hafi verið rekinn. Nokkrir stjórnarmanna Liverpool vildu að hann héldi áfram með liðið a.m.k. til vors. En Graeme varð ekki haggað. Hann sá sæng sína útbreidda og yfirgaf svæðið. Í tilkynningu frá honum sagði: "Ég tók við starfinu með þá trú að ég gæti snúið gengi félagsins og fært því velgengni. Það reyndist erfiðara en ég hélt. Áhangendur félagsins hafa verið þolinmóðir en nú er þolinmæði þeirra á þrotum."

Liðið hafði leikið án alls stöðugleika þann tíma sem hann hafði verið með það. Liðið lék að sönnu vel þegar það lék vel en það var ekki nógu oft. Of margir reyndir leikmenn voru látnir fara á stuttum tíma og of margir ungir strákar þótt efnilegir væru var ætlað að halda uppi merki þeirra. Graeme var alltof upptekinn af því að skapa sitt eigið lið án þess að byggja á þeim traustu stoðum sem fyrir voru. Eldri leikmenn liðsins höfðu ekki trú á verkum hans og Graeme fékk þá upp á móti sér og náði ekki að skapa einingu innan liðsins.

Graeme sagði einu sinni: "Það skiptir engu máli hversu góður framkvæmdastjóri þú ert. Ef þú ert ekki heppinn vinnur þú ekkert." Víst má segja að heppnin hafi ekki verið með honum. Til dæmis fylgdu honum sá mesti meiðslafaraldur sem hafði gengið á Anfield Road í manna minnum. Gagnrýnendur hans kenndu breyttum þjálfunaraðferðum um. Varla hefur neinn framkvæmdastjóri Liverpool verið umdeildari meðal áhangenda liðsins og svo mætti lengi telja. Það verður því fátt Graeme til málsbóta í stjórnartíð hans. Helst má segja honum til hróss að ungir leikmenn fengu margir tækifæri til að leika með liðinu og margir af þeim hafa náð langt. En fá leikmannakaup hans tókust vel þó svo að þau litu vel út þegar þau voru framkvæmd. Bikarinn vannst og síðan ekki söguna meir. Graeme sagði eitt sinn að vinsældir skiptu ekki máli það eina sem skipti máli væri að vera sigursæll. Því miður tókst honum hvorugt í seinni viðkomu sinni á Anfield.

En Graeme Souness verður ætíð minnst sem eins öflugasta miðjumanns í sögu Liverpool og þótt víðar væri leitað.

TIL BAKA