Graeme Souness


Souness var kjölfestan á miðjunni og stjórnaði spilinu með Terry McDermott þegar Liverpool varð enskur meistari 1979 og 1980. Leiktíðina 1980-81 vann Liverpool deildarbikarinn og Evrópukeppni Meistaraliða. Í 8 liða úrslitum skoraði Souness þrennu í 5:1 sigri á CSKA Sofia á Anfield Road. Öll mörkin voru stórglæsileg gerð með bylmingsskotum af löngu færi.

Um jólin 1981 var ástandið ekki gott á Anfield. Í kjölfar 1:3 taps á heimavelli gegn Manchester City á annan í jólum var liðið í tólfta sæti. Bob Paisley ákvað að gera breytingar. Aðalbreytingin var sú að skipta um fyrirliða. Souness var gerður að fyrirliða í stað Phil Thompson. Eftir þetta var Liverpool óstöðvandi. Liðið vann deildarbikarinn í mars og Souness tók við sínum fyrsta bikar sem fyrirliði. Aðeins tveir leikir töpuðust í deildinni til vors og liðið varð enskur meistari. Leiktíðina 1982-83 vann Liverpool sömu tvennuna og tímabilið áður: Englandsmeistaratitilinn og deildarbikarinn. Ronnie Whelan lék nú á miðjunni við hlið Souness og það voru fáir miðjumenn sem höfðu eitthvað í þá að gera.

Liverpool varð enskur meistari þriðja árið í röð leiktíðina 1983-84. Að auki vannst deildarbikarinn fjórða árið í röð. Liverpool mætti Everton í úrslitum og eftir markalausan leik á Wembley vann Liverpool 1:0 í aukaleik á Maine Road. Souness skoraði sigurmarkið með þrumuskoti utan vítateigs. Hann tók svo við sínum sjöunda bikar í Róm þegar Liverpool lagði Roma í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða. Souness skoraði eitt mark í vítaspyrnukeppninni. Liverpool varð fyrsta lið á Englandi til að vinna þrjá titla á sömu leiktíðinni og Souness hafði leitt liðið með afbragðsgóðum leik. Hann var á hátindi ferils síns og hann var án efa með allra bestu miðvallarleikmönnum í heimi. Souness var orðinn sigursælasti fyrirliði í sögu Liverpool eftir að liðið hafði unnið sjö titla með hann sem fyrirliða. En leikurinn gegn Roma reyndist hans síðasti fyrir Liverpool. "Ég vissi að knattspyrnuferillinn minn myndi ekki endast að eilífu og mér voru boðnar talsverðar fjárupphæðir fyrir að spila á Ítalíu." Souness vildi breyta til og fór til Sampdoria á Ítalíu fyrir 650.000 sterlingspund.

Bob Paisley dáðist af hæfileikum Skotans:
"Graeme Souness er líklega einn sá sterkasti persónuleiki sem ég hef fyrirhitt á lífsleiðinni. Hann býr yfir frábærum sendingum, er sterkur tæklari og mjög skotfastur. En umfram allt er hann leiðtogi. Hann þrífst á ábyrgð og lá beint við að tilnefna hann sem fyrirliða. Hann spilar fótbolta með stæl og aðrir leikmenn sem hafa sig ekki eins mikið í frammi tvíeflast vegna nærveru hans á vellinum. Graeme er stórbrotinn persónuleiki, mjög áhrifamikill og fæddur sigurvegari."


Souness gekk vel á Ítalíu og Sampdoria vann ítalska bikarinn eftir tvo úrslitaleiki gegn AC Milan. Hann skoraði sigurmarkið í fyrri leiknum og Sampdoria vann seinni leikinn einnig og fyrsti stóri bikarinn í höfn hjá liðinu í langan tíma og ekki var það síst Skotanum að þakka. "Ég naut hverrar einustu mínútu.  Ef þú getur sent boltann og ert harður í horn að taka þá er Ítalía rétti staðurinn. Ítalía er draumur miðjumannsins."

Í apríl 1985 var hann spurður í sjónvarpi hvað framtíðin bæri í skauti sér. Souness svaraði svo: "Ég get vel hugsað mér að verða leikmaður og framkvæmdastjóri hjá Rangers einn góðan veðurdag", glotti svo og fannst greinilega gaman af. Rúmum sex mánuðum síðar rættist ósk hans. Glasgow Rangers sem hafði gengið illa undanfarin ár fékk hann til liðs við sig sem spilandi framkvæmdastjóra. Souness lét verkin tala og mokaði burt leikmönnum sem hann taldi ekki nógu góða og fékk nýja í þeirra stað. Hann lét venjur og hefðir lönd og leið og sem dæmi varð Maurice Johnstone fyrsti kaþólski leikmaðurinn til að leika með Rangers í sögu félagsins. Árangurinn lét ekki á sér standa og þrátt fyrir að Souness væri mjög umdeildur í starfi vann Rangers þrjá meistaratitla og bikarinn fjórum sinnum og áhangendur liðsins voru ánægðir.

TIL BAKA