Michael Owen

Hetjan gegn Roma

Owen kom inná gegn Sunderland 10. febrúar en sex dögum síðar minnti hann rækilega á sig. Liverpool hélt til Rómar til móts við meistaraefni AS Roma í 16 liða úrslitum UEFA-bikarsins. Það kom á óvart að hann var í byrjunarliðinu en ekki Litmanen sem hefur leikið í tveimur úrslitaleikjum Meistaradeildar og væri dýrmætur í svona leik. En Houllier hefur yfirleitt sýnt og sannað að hann veit hvað hann er að gera og það kom nú í ljós aftur. Hann vissi hvað það þýddi fyrir Liverpool að Owen endurheimti sjálfstraustið. Það bar ekki mikið á honum í fyrri hálfleik enda átti Liverpool frekar undir högg að sækja en eftir mark hans á fyrstu mínútu síðari hálfleiks þá var hann kominn með blússandi sjálfstraust og var farinn að líkjast þeim leikmanni sem maður þekkti svo vel. Annað mark fylgdi í kjölfarið á 71. mínútu og krónprins Liverpool var búinn að endurheimta stall sinn á ný.

Það eru margar erfiðar ákvarðanir sem Houllier þurfti að taka og ein þeirra var að láta Michael Owen sitja á bekknum allan úrslitaleikinn í deildarbikarnum 25. febrúar. Það var ekki að spyrja að ensku fjölmiðlunum sem fóru óspart að bera út sögusagnir um að Owen hefði verið eitthvað óhress með þetta val Houlliers. En það sem Houllier hafði sjálfur um málið að segja var einfalt. "Ég veit að leikmenn verða fyrir vonbrigðum með að fá ekki að leika í stórum leikjum á borð við úrslitaleikinn í deildarbikarnum, en þetta snýst um að velja besta liðið þann dag til að vinna leikinn. Ég er ekki hræddur við að taka slíkar ákvarðanir. Ég geri það sem ég tel að sé best fyrir klúbbinn og leikmennirnir verða að skilja það þó að þeir séu vonsviknir. Michael tók ekki þátt í úrslitaleiknum en hann gerði okkur kleift að komast þangað og hann mun líklega leika í öðrum úrslitaleikjum. Þetta lið gæti komist í annan slíkan leik á þessu keppnistímabili og þá gæti verið komið að honum. Þetta er hópur sem vinnur saman og leikmennirnir eru í þessu fyrir hvern annan. Við sáum það í Róm þegar Michael hljóp að varamannabekknum til að fagna mörkum sínum og Robbie gerði það sama í Cardiff. Þetta minnir alla á að við erum saman í þessu."

Owen skoraði fimmtánda mark sitt á tímabilinu gegn Derby 18. mars. Þetta var jafnframt þriðji leikurinn í röð sem hann skoraði. Hann tók varnarmenn Porto í kennslustund í Evrópukeppninni í miðri viku og varnarmenn Derby áttu í mesta basli með hann og var hann óheppinn að bæta ekki við fleiri mörkum og tryggja Liverpool þrjú dýrmæt stig. "Ég hef verið í fínu formi í síðustu tveimur leikjum. Það þarf ekki snilling til þess að reikna það út að eftir meiðsli þarftu nokkrar vikur til þess að ná þínu besta formi. En núna er ég kominn í fluggírinn. Ég get ekki beðið eftir næsta leik." Houllier taldi það góðar fréttir fyrir félagið í heild sinni að Owen sé kominn á skrið: "Síðan Michael snéri aftur eftir meiðslin í leiknum gegn Sunderland þá hefur hann tekið örum framförum. Þegar hann nýtir hraða sinn gegn andstæðingunum er mjög erfitt fyrir þá að eiga við hann. Ég er mjög ánægður með núverandi form hans og það er greinilegt að hann er fullur sjálfstrausts inná vellinum."

Prinsinn af Wales

Owen skoraði ekki í næstu 7 leikjum en það var greinilegt að hann var öllu sprækari. Hann kom sér í færin með oft mögnuðum tilþrifum en eitthvað virtist skorta þegar klára átti færin. Þegar drengurinn datt í gang þá var það með látum. Hann skoraði gegn Bradford 1. maí og fjórum dögum síðar fengu Newcastle að kenna á snilli hans og það ekki í fyrsta skipti á ferli hans. Hann skoraði glæsilega þrennu og var það með kominn með 12 mörk í 6 leikjum gegn Newcastle. Owen skoraði alls 9 mörk í síðustu 6 leikjum tímabilsins og var án efa hápunkturinn á tímabilinu þegar hann stútaði Arsenal undir lok úrslitaleiks FA-bikarsins á Millenium-leikvangnum 12. maí: "Þetta var betra en að skora í HM. Fólk talar um að ég hafi leikið vel í þeirri keppni og skorað gott mark en þegar til kom unnum við ekkert á því marki og komumst ekkert lengra. Að skora tvö mörk í úrslitaleik og vinna annan titilinn á leiktíðinni er frábært. Ég er í sjöunda himni. Ef við getum unnið þrjá titla á þessari leiktíð væri það frábær árangur fyrir liðið. Við höfum verið á mikilli siglingu undanfarið og sigrar auka sjálfstraustið. Þegar við vorum marki undir hefðum við sætt okkur við að leikurinn færi í framlengingu en að skora tvö mörk svo seint í leiknum var frábært." Cardiff í Wales var vettvangur þessa glæsiafreks og Owen var réttilega skírður í fjölmiðlum "Prinsinn af Wales".

Tímabil Leikir Mörk
 1996-97 2 1
1997-98 44 23
1998-99 40 23
1999-00 30 12
2000-01 46 24
Samtals 162 83

TIL BAKA