Michael Owen

Goðsögnin Pele var spurður á blaðamannafundi á Old Trafford hvaða leikmaður enska landsliðsins væri líklegastur til að slá í gegn í HM. "Michael Owen", svaraði Pele skýrt og skorinort. "Hann hefur komið mér á óvart. Ég held að hann verði ein af skærustu stjörnum heimsmeistarakeppninnar í sumar." Pele var svo heillaður af Owen að þegar hann var spurður hver væri uppáhaldsleikmaður hans í Man Utd sem væri í enska landsliðinu, svaraði hann hátt og snjallt, "Michael Owen!"

draumamarkið....

Owen varð yngsti leikmaður Englendinga til að leika í úrslitakeppni HM er hann spilaði síðustu 5 mínúturnar í fyrsta leik Englendinga gegn Túnis. Englendingar unnu leikinn 2-0. Teddy Sheringham var tekinn af velli í hans stað á 73. mínútu er liðið var að tapa 0-1 gegn Rúmeníu. Michael jafnaði leikinn 6 mínútum síðar á glæsilegan hátt og stuttu síðar átti hann skot í stöng. En Englendingar töpuðu leiknum á síðustu andartökunum sem reyndist heldur afdrifaríkt. Efsta sætið í riðlinum var orðinn fjarlægur draumur og erfiðari andstæðingur fyrir vikið sem beið þeirra í 16 liða úrslitum. Það var einungis hægt að gera sér í hugarlund hvað hefði orðið ef Michael hefði leikið allan leikinn. En eitt metið var fallið; Owen var nú orðinn yngsti markaskorari Englendinga í úrslitakeppni HM.

Owen var kominn í byrjunarliðið í næsta leik á kostnað Sheringham gegn Kólumbíu. Englendingar unnu leikinn 2-0 og erfiður leikur gegn Argentínu varð hlutskipti þeirra í 16 liða úrslitunum. Batistuta tók forystuna fyrir Argentínu á 6. mínútu úr víti en Owen fékk víti dæmt á Argentínu 4 mínútum síðar sem Alan Shearer skoraði úr. Aðeins 6 mínútum síðar tók Owen við boltanum á vallarhelmingi Argentínumanna og hljóp af stað. Glæsilegasta mark HM '98 leit dagsins ljós. En Englendingar misstu leikinn niður í 2-2 jafntefli og þurfti að útkljá leikinn í vítaspyrnukeppni. Owen skoraði af einstöku öryggi úr sínu víti skeytin inn, néri saman höndum og glotti en í leikslok sögðu tárvot augu hans allt um úrslit leiksins.

Hoddle var stoltur af strák: "Margir leikmenn hafa hraða en kunna ekki að nýta sér hann; aðrir eru útsjónarsamir en hafa ekki hraðann til þess að komast framhjá andstæðingunum. Owen hefur bæði útsjónarsemina og hraðann. Hann átti frábæra heimsmeistarakeppni og réttilega er nú rætt um hann um gjörvallan heim. Hann á eftir að verða enn betri. Mark hans gegn Argentínu var magnað. Það var heimsklassamark og hann getur verið stoltur af frammistöðu sinni. Ég er enn þeirrar skoðunar að það var rétt ákvörðun hjá mér að demba honum ekki beint í byrjunarliðið í upphafi keppninnar. Ef hann hefði byrjað inná í leiknum gegn Túnis og ekki skorað, þá hefði hann verið settur undir pressu. Það var ætíð ætlun okkar að nota hann sem varamann í tveim fyrstu leikjunum og láta hann síðan byrja inná gegn Kolumbíu vegna leikaðferðar þeirra. Hann stóð sig vel og við hlökkum öll til þess að njóta hæfileika hans um ókomin ár."

Fyrstu heimsmeistarakeppni Owen var lokið en líf hans hafði breyst á dramatískan hátt: "Við höfðum verið einangraðir í Frakklandi og það var ekki fyrr en við komum heim að ég áttaði mig á umfanginu er hundruðir ljósmyndara biðu eftir mér árla morguns. Áður fyrr voru nokkrir að kasta kveðju á mig er ég skrapp niður í bæ en nú eru það allir. Fólk segir að það sé auðvelt að venjast þessu en það er ekki raunin. Ég get ekki einu sinni farið í búðir og keypt mér skyrtu án þess að vera dulbúinn. En ég vildi alltaf ná tindinum svo að ég verð að aðlaga mig að því sem fylgir. Ég hef ætíð fengið fjölda aðdáendabréfa frá Malasíu og Norðurlöndunum þar sem stuðningur við Liverpool hefur ætíð verið öflugur en nú berast þau að hvaðanæva úr heiminum. Ég get ekki komist yfir að lesa þau öll þannig að mamma sér um það og ég skrifa svo bara undir. Ég hef afrekað mikið á skömmum tíma en ég er bara rétt að hefja ferillinn. Ég hef ekki unnið titla ennþá hér heima."

TIL BAKA