John Barnes

John byrjaði af krafti gegn Middlesborough í upphafi tímabilsins 1996-97 og skoraði eitt mark í 3:3 jafntefli. Það fór ekki framhjá aðdáendum Liverpool að Barnes var mun sókndjarfari en undanfarin ár. Evans var himinlifandi að sjá Barnes í þessu hörkustuði: "Ég vildi óska þess að hann væri orðinn 21 árs á ný. Hann gæti ennþá staðið sig vel með landsliðinu. Aldur er engin fyrirstaða þegar þú býrð yfir svona hæfileikum. Hann hefur gætt þriggja manna varnarlínunnar síðastliðin tvö ár en nú er hann búinn að sýna hvað hann getur þegar hann sækir upp völlinn." En frábær byrjun Barnes dugði ekki alla leiktíðina. 24. apríl lék Liverpool seinni undanúrslitaleik sinn í Evrópukeppni bikarhafa gegn Paris St. Germain á Anfield. Fyrri leikurinn tapaðist 3:0 og allt gekk Liverpool í óhag á þessum vikum. Í næsta leik á undan tapaði Liverpool 3:1 á heimavelli gegn Manchester United og titillinn var að renna þeim úr greipum. Í þeim leik skoraði John eina mark Liverpool með skalla eftir hornspyrnu og reyndist það síðasta mark hans fyrir félagið. Nokkrar breytingar voru gerðar á liðinu fyrir seinni leikinn gegn PSG. John var látinn víkja og var settur út úr liðinu í fyrsta skipti á tíu ára ferli sínum á Anfield Road. Liverpool lagði Paris 2:0 en það dugði ekki til þrátt fyrir magnaðan stuðning áhorfenda. John átti ekki afturkvæmt í byrjunarlið Liverpool og fjölmiðlar voru almennt á því að Evans hafði þá gert dýrkeypt mistök. Liverpool hrundi úr öðru sæti í það fjórða og meistaradeildarsæti var úr sögunni. Roy og samstarfsmenn hans töldu þurfa að styrkja miðjuna. Paul Ince var keyptur frá Inter Mílan og var hann gerður að fyrirliða.

Barnes æfði með Liverpool á undirbúningstímabilinu fyrir leiktíðina 1997-98 en sýnt þótti að ferill hans með Liverpool væri á enda. Hann var varamaður í fyrsta leik leiktíðarinnar í 1:1 jafntefli á útivelli gegn Wimbledon. "Ég fór til skrifstofu Roy og spurði hann hvort Liverpool væri reiðubúið að gefa mér frjálsa sölu. Hann sagði að svo væri. Ég reiddist innra með mér enda vildi ég ekki frjálsa sölu og bað ekki um hana. Ég vildi bara kanna viðhorf félagsins til mín. Ef félagið hefði neitað mér um frjálsa sölu til þess að hafa mig reiðubúinn ef eitthvað kæmi upp á með Ince og Redknapp þá hefði ég verið um kyrrt. En ég fékk skýr skilaboð um að nærveru minnar væri ekki óskað. Þetta særði mig því að ég lít á Liverpool sem heimili mitt. Ég vildi ljúka ferlinum hjá Liverpool." Í vikunni á eftir gekk hann til liðs við sinn gamla framkvæmdastjóra Kenny Dalglish sem nú stjórnaði hjá Newcastle United. Kenny sóttist þarna í annað sinn eftir kröftum Barnes.

Barnes átti í raun mjög góða leiktíð 1997-98. Kenny notaði hann mikið í sókninni og John var í lok leiktíðar meðal markahæstu manna liðsins. Ian Rush gamli félagi hans hjá Liverpool var líka hjá Newcastle á þessum tíma. Newcastle komst í úrslit F.A. bikarins en tapaði 2:0 fyrir Arsenal sem vann Tvennuna. John kom inná undir lokin. Þetta var fjórði tapleikur John í úrslitaleik F.A. bikarins í fimm úrslitaleikjum og að auki missti hann af einum vegna meiðsla. Ekki happakeppni hans. Leiktíðin 1998-99 var sú síðasta sem  John átti sem leikmaður. Hann byrjaði hjá Newcastle en eftir að Kenny var látinn hætta sem framkvæmdastjóri og Ruud Gullit tók við komst hann ekki í liðið. Eftir áramót lék hann sem lánsmaður til vors hjá Charlton Athletic. Þar lék hann á miðjunni en leikferillinn endaði með falli niður í deildina sem hann hafði komið upp úr með Watford sautján árum áður.

John lá aldrei á því að hann ætlaði að reyna fyrir sér sem framkvæmdastjóri þegar hann legði skóna á hilluna. Tækifærið kom sumarið 1999. Kenny Dalglish sem þá var yfirmaður knattspyrnumála hjá sínu gamla félagi Glasgow Celtic fékk John til liðs við sig í þriðja skipti. John var gerður að framkvæmdastjóra. Það gekk á ýmsu í Glasgow. Rangers vann meistaratitilinn. Snemma árs 2000 í kjölfar taps á heimavelli í skoska F.A. bikarnum fyrir neðrideildarliði misstu forráðamenn Celtic þolinmæðina og John var vikið frá störfum. Kenny stýrði liðinu til vors og vann skoska Deildarbikarinn eftir 2:0 sigur á Aberdeen í úrslitum. Hann tileinkaði John og aðsoðarmönnum hans sem vikið var úr starfi sigurinn. Einn þeirra var fyrrum félagi Kenny hjá Liverpool og síðar aðstoðarmaður hans hjá Newcastle Terry McDermott. Að Kenny Dalglish skyldi tileinka John sigurinn í Deildarbikarnum sýnir hversu mjög hann mat störf John og manna hans. John er reynslunni ríkari og á eflaust eftir að stýra knattspyrnuliði áður en langt um líður. Hann réðst sannarlega ekki á garðinn þar sem hann var lægstur þegar hann fór til Celtic. En það hefur hann heldur aldrei gert.


 

TIL BAKA