Brian Hall

Brian Hall hefur í dag yfirumsjón með almannatengsladeild Liverpool Football Club. Fréttaritarar Liverpoolklúbbsins á Íslandi hittu hann að máli í mars sl: "Almannatengsladeildin sér m.a. um uppbyggingu aðdáendaklúbbanna. Við reddum einnig eiginhandaráritunum aðallega í góðgerðarskyni og tökum við aðdáendabréfum til leikmannanna. Ætli við fáum ekki 500-600 beiðnir um hitt og þetta í hverri viku og augljóslega getum við ekki sinnt öllum og verðum því að velja það úr sem vekur helst áhuga okkar. Við förum með börn til Melwood sem eru fötluð eða dauðvona og sendum knattspyrnuþjálfara til flóttamannabúða og reynum að létta krökkunum lífið þar. Við hvetjum krakka að lifa heilbrigðu lífi og erum í nánu samstarfi við lögregluna til að halda krökkum frá eiturlyfjum. Við gerum margvíslega hluti til að stuðla að betra samfélagi og gerðum t.d. myndband á sínum tíma með slökkviliðinu á Merseysidesvæðinu, sem fékk um 7000 gabbútköll á ári. Ansi stór tala en er þó ekki versta hlutfallið á landsvísu. John Barnes lék aðalhlutverkið í myndbandinu og gabbútköllum fækkaði úr 7.000 í 4.000 á einu ári."

Okkur þótti nú tímabært að víkja sögunni að ferli Brian sem leikmanns hjá Liverpool:

"Ég hóf atvinnumannaferil minn á mjög einstakan hátt sem mun ekki endurtaka sig þar sem bransinn hefur breyst svo mikið síðan. Félögin eru að fá stráka til sín á aldrinum 8-10 ára gamla en ég kom ekki nálægt atvinnnumennsku fyrr en ég var 18 ára gamall. Ég skrifaði svo undir atvinnumannasamning þegar ég var 21 árs. Árið 1958 var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fara í skóla í Preston sem er í nágrenni Liverpool. Sá skóli veitti mér stökkpall í háskóla og ef maður fékk slíkt tækifæri þá greip maður það fegins hendi því að á þessum tíma var mjög erfitt að komast í háskóla. Ég fékk boð er ég var 15 ára gamall um að æfa með Preston North End og þangað fór ég og spriklaði þar á meðan ég var í námi. Leikfimiskennarinn minn sá hvað ég gat í knattspyrnu og fór til föður míns og spurði hann hvort ég ætti ekki að leggja fyrir mig fótbolta frekar en að ganga menntaveginn. Maður gat hins vegar ekki aflað sér sérstakra tekna með knattspyrnuiðkun á þeim tíma og ég var ákveðinn í að fara í háskóla. Ég æfði með Preston North End næstu 3 ár og hafnaði Bolton, Blackburn og öðrum liðum í nágrenninu vegna þess að ég hafði bara ekki áhuga á atvinnumennsku. Fyrir mér var þetta bara áhugamál."

"Árin 1963-64 var Liverpoolborg sannkölluð tónlistarparadís: Bítlarnir, The Searchers, Gerry Marsden ofl. Ég setti því stefnuna á að fara til Liverpool í háskóla og vildi hvergi annars staðar fara. Árið 1965 fór ég í háskólann í Liverpool til að læra stærðfræði. Vinur minn þekkti Peter Thompson sem lék eitt sinn með Preston North End og fór svo til Liverpool. Liverpool var nýbúið að vinna bikarinn í fyrsta skipti og árið áður urðu þeir meistarar. Sumarið 1965 skrifaði vinur minn til Peter Thompson og bað um reynslusamning fyrir mig. Hann sagði mér ekki frá því fyrr en hann kom með bréf frá Liverpool skrifað af Tom Bush sem sá um unglingastarfsemina hjá Liverpool. Hann bauð mér að koma til Melwood og þeir skyldu líta á mig. Ég var enn efins en 5. október 1965 sat vinur minn við hlið mér í skólastofunni og sagði mér "Ef þú tekur rútu nr. 86 þá lendirðu rétt hjá Melwood. Af hverju prófarðu ekki að kíkja til þeirra og sýna hvað í þér býr?" "Af hverju ekki", hugsaði ég, þannig að ég sló til. Ég spurði rútubílstjórann hvernig ég færi til Melwood og þegar þangað var komið þá fór hann út úr rútunni og sýndi mér nákvæmlega hvert ég átti að fara. "Gangi þér vel strákur...." Ég trúði þessu varla. Þetta var þriðjudagur og þetta kvöld skrifaði ég undir áhugamannasamning hjá Liverpool. Á laugardeginum lék ég minn fyrsta leik í rauðri treyju og andstæðingarnir voru Everton. Ég var eini áhugamaðurinn á vellinum. Ég æfði einu sinni í viku með strákunum og lék svo með atvinnumönnunum á laugardeginum. Mánuði síðar var ég kominn í varaliðið. Þannig að hlutirnir gengu ansi hratt fyrir sig."

"Ég þurfti að klára háskólann og var 21 árs þegar ég lauk námi. Ég og Steve Heighway sem útskrifaðist 22 ára vorum einu háskólamenntuðu leikmennirnir í liðinu. Hann var kallaður "Stóri-Bamber" og ég var kallaður "Litli-Bamber" vegna þess að það var spurningarleikur í sjónvarpinu sem kallaðist "Háskóla-áskorun" og umsjónarmaðurinn hét Bamber Gascoigne. Við vorum því skírðir í höfuðið á honum. Ég er þann dag í dag kallaður "Litli-Bamber" af gömlum félögum mínum. Nú, þegar ég hafði lokið námi stóð ég frammi fyrir stórri ákvörðun. Ég var kominn með háskólagráðuna og hvernig ætlaði ég að nýta mér hana? Ég var hins vegar orðinn svo heillaður af Liverpool Football Club þau 3 ár sem ég hafði dvalið þar að Liverpool var orðið það mikilvægasta í lífi mínu. Ég fékk samningstilboð frá Liverpool og þetta var sem draumi líkast. Ég skrifaði því undir atvinnumannasamning þegar ég var 21 árs gamall."

"Það tók mig um það bil tvö ár að koma mér fyrir í aðalliðinu. Eftir lok tímabilsins 1969 ákvað Shankly í samráði við Paisley og Fagan að liðið væri komið yfir sitt besta skeið og réttur tími fyrir breytingar. Það var tilvalið að stokka liðið upp á þessum tíma því að það voru mjög sterkir leikmenn í varaliðinu eins og Ray Clemence, Tommy Smith, Ian Callaghan, Chris Lawler, Alec Lindsay, Steve Heighway, Emlyn Hughes, John Toschack, Alun Evans og ég sjálfur. Shankly hafði því efni á því að gera eins viðamiklar breytingar og raun bar vitni, því að hann sá að það var þegar nægur efniviður til staðar í varaliðinu fyrir nýtt og sterkt lið. Út fóru því leikmenn eins og Tommy Lawrence, Roger Hunt, Ian St John og félagar og ég var einn af þeim sem fékk færi á að setja mark mitt á aðalliðið. Stundum er maður á réttum stað á réttum tíma."

Hver er minnisstæðasti leikur þinn á ferlinum?

"Við fórum á Wembley til að leika við Arsenal í úrslitum bikarsins 1971. Allir í fjölskyldunni voru stoltir af mér þrátt fyrir tapið og vildu skoða medalíuna. Ég rétti pabba mínum silfurmedalíuna og gaf honum hana enda vildi ég ekki sjá hana. Þetta var bara medalía fyrir þá sem töpuðu leiknum og því einskis virði. Bikarúrslitaleikurinn gegn Newcastle 1974 var stórkostleg reynsla. Það var frábært að ganga út á Wembley í bikarúrslitaleik sérstaklega fyrir náunga eins og mig sem vildi aldrei verða atvinnuknattspyrnumaður [hlátur]. Þegar ég gekk upp tröppurnar til að taka við gullmedalíunni, úff, þvílík sælustund!"

Talið barst óhjákvæmilega að goðsögninni Bill Shankly. Hvaða álit hefur Brian Hall á Shanks?

"Bill Shankly er merkilegasti maður sem ég hef nokkurn tíma hitt á lífsleiðinni, án nokkurs vafa. Hann var einfaldur maður og ég meina það á góðan máta. Þegar mikið gekk á og pressan var okkur þá gat hann ætíð horft á hlutina í ró og næði. Hann komst alltaf að kjarna málsins og hvernig hann orðaði hlutina var alveg einstakt. Þegar þú ert knattspyrnumaður í eins stóru liði og Liverpool þá gefst þér færi á að hitta mikið af stórkostlegu fólki en enginn hafði eins mikil áhrif á mig eins og Bill Shankly. Ég hef hitt marga háttsetta stjórnmálamenn og heyrt þá tala og þeir eru mjög færir en enginn þeirra komst í líkingu við Bill Shankly. Ef Shankly hefði verið forsætisráðherra þá.....úff! Shankly hlýtur að hafa haft sínar efasemdir og visst óöryggi eins og við öll en hann lét það aldrei í ljós við leikmennina. Hann var bara á einni skoðun og sú skoðun var að við værum bestir og gætum unnið alla. Þetta var eins og heilaþvottur ef svo má kallast en við trúðum því."

Fyrrverandi samherjar þínir hafa sumir sagt að þegar Shankly fór að þeir efuðust um hvort að þeir væru virkilega eins góðir og þeir héldu og án Shankly þá væru þeir bara núll og nix.

"Ég hugsaði aldrei svona. Við vorum nýbúnir að taka Newcastle í bakaríið í bikarúrslitaleiknum og maður skein af sjálfstrausti. Óhjákvæmilega vorum við allir fyrir áfalli vegna þess að við héldum að þessi stórkostlegi maður myndi aldrei draga sig í hlé. Bill Shankly var Liverpool Football Club holdi klætt. Þegar það var tilkynnt að Bob Paisley ætti að taka við þá vakti það furðu vegna þess að þegar þú leist á Bob og ímyndaðir þér hvernig framkvæmdastjóri ætti að vera þá var Bob akkúrat andstæða þess. Maður gat alls ekki séð þetta ganga upp. En Bob áttaði sig á því að hann gat ekki keppt við Bill Shankly hvað varðaði útgeislun og hvernig hann bar sig fyrir leikmönnum og fjölmiðlum. Bob var því bara Bob. Það vissu allir að Bob vildi ekki starfið en lét tilleiðast."

                    "Leikmannafundirnir hjá Paisley voru algjör brandari."

Nokkrum mánuðum eftir að Bob tók við þá var hann búinn að koma þeirri venju á að hópurinn hittist á föstudagskvöldi fyrir leik hvort sem við vorum á heima- eða á útivelli. Við vorum staddir eitt föstudagskvöldið á einhverju hótelinu og eins og venjulega þá fengu leikmennirnir sér ristað brauð og te. Allir voru farnir í háttinn nema ég og Bob og ég spurði hann hvort að hann væri farinn að venjast starfinu? "Jú æ, æ ég veit það ekki", svaraði hann, "það veldur mér að vísu alltaf hugarangri þegar ég er að reyna að sofna hvernig liðið á að vera....", Ég sagði því við hann: "Af hverju velur þú bara ekki liðið á föstudagseftirmiðdegi og sefur því vært um nóttina? Þú getur hvort sem er ekki gert mikið í málinu er þú vaknar á laugardagsmorgni." Honum þótti þetta góð hugmynd og eftirleiðis þá gerði hann eins og ég lagði til og svaf vært allar föstudagsnætur. [hlátur] Þetta var Bob í hnotskurn. Hann var bara hann sjálfur. Hann hafði gríðarlega þekkingu á knattspyrnu og gat séð hvaða leikmaður myndi nýtast sér á ákveðinn hátt. Hann var mjög fær í að skapa sterka liðsheild. Ray Kennedy er sjálfsagt athyglisverðasta tilvikið. Hann lék sem framherji hjá Arsenal og var mjög góður sem slíkur en þegar hann kom hingað þá virtust hlutirnir ekki ganga upp hjá honum. Paisley færði hann vinstra megin á miðjuna og allt í einu var hann einn besti leikmaðurinn í landinu."

"Paisley vann ekki til verðlauna á sínu fyrsta tímabili. Leikmannafundirnir hjá honum voru algjör brandari. Hann gat ekki komið sínu til skila á greinargóðan hátt en gat þó komið komið okkur í skilning um hvað hann vildi þrátt fyrir það. Hann hafði verið lengi hjá félaginu og hann breytti ekki þeirri hefð sem hafði skapast hjá félaginu undir stjórn Shankly. Menn vissu því að hverju þeir gengu. Roy Evans fór að dæmi hans enda erfitt að breyta útaf venjunni er maður er búinn að vera hluti af liði sem er búið að vinna allt í sjónmáli í 30 ár. Við lentum því útaf sporinu í nokkur ár án þess þó að ég geri einstaka mann ábyrgan fyrir því. Við þurftum breytingar og Houllier hófst handa um leið og hann tók við. Það þarf tíma til að breytingar nái fram að ganga en strax höfum við séð árangur erfiðisins. Þetta snýst um hvernig á að reka knattspyrnufélag á tuttugustu og fyrstu öldinni. Þetta er lærdómsríkur tími fyrir Houllier líka. Það þarf gríðarlegt átak til þess að snúa við félagi af þessari stærðargráðu og það tók Ferguson sinn tíma hjá Manchester United. Liðið hefur sýnt hvað í því býr á þessu tímabili og frammistaða þess gegn Roma á útivelli og Porto á heimavelli var meðal okkar bestu leikja í Evrópu í sögu félagsins. Það er ekki aftur snúið enda framfarirnar auðsjáanlegar og nú er auðvitað stefnan sett á að vinna meistaratitillinn."

Arngrímur Baldursson og Sigursteinn Brynjólfsson tóku viðtalið við Brian Hall á Anfield Road 30. mars 2001.

TIL BAKA