Ron Yeats

AB: Stephane Henchoz er nú félagi Hyypia í vörninni. Hann hefur verið gagnrýndur á stundum en það er óhætt að segja að geta Henchoz á vellinum er vanmetin, t.d. hæfileiki hans að lesa leikinn.
Henchoz fer sífellt fram við hliðina á Hyypia. Sami gerir hlutina á einfaldan hátt og Stephane er hörkutólið sem hendir sér í tæklingarnar og fær marblettina. Þeir eru gott miðvarðarpar.

AB: Fjöldi stuðningsmanna segir að úrslitaleikurinn 1965 sé minnistæðasti leikur sem þeir hafa séð. Það hlýtur að hafa verið eftirminnilegt fyrir þig að vera fyrsti fyrirliði Liverpool til að taka við FA-bikarnum.
Já, en ég myndi samt ekki segja að þetta hafi verið eftirminnilegasti leikurinn minn því að þetta var í raun alveg hörmulegur leikur. Eina minnisstæða við leikinn var að ég var svo lánsamur að taka við bikarnum úr hendi drottningar fyrstur fyrirliða Liverpool. En ég man ætíð eftir að ég var nýbúinn að taka við bikarnum. Fyrsti maðurinn sem ég mætti niðri á vellinum var Bill Shankly. Ég sagði við hann: "Stjóri, Þetta er bikarinn þinn. Án þín hefðum við aldrei unnið einn einasta bikar." Hann svaraði : "Ron, ég er stoltur af þér og stoltur af strákunum en við munum vinna stærri bikara en þetta." Ég man að ég hugsaði með mér. "Hvað í ósköpunum gæti verið magnaðra en að vinna FA-bikarinn og við vorum nýbúnir að vinna deildina tímabilið á undan." Auðvitað var hann að tala um Evrópukeppnina en því miður tókst okkur ekki að vinna til verðlauna í Evrópu. Við komumst lengst í undanúrslit Evrópukeppni félagsliða og í úrslitaleik Evrópukeppni bikarhafa. En liðið sem fylgdi í kjölfarið á okkur vann allt. Fjóra Evrópumeistaratitla og Evrópukeppni félagsliða. En þau lið höfðu lært af okkar mistökum. Bob Paisley hafði lært af Bill Shankly.

Þegar við vorum nýbyrjaðir að leika í Evrópukeppni þá létum við vaða á andstæðinginn hvort sem það var á heima- eða útivelli. Nú er liðinu skipað að halda sig aftarlega og forðast að fá á sig mark á útivelli. Það hefði verið auðvelt verkefni fyrir okkar lið því að við höfðum sterka vörn. Ég man eftir því að okkur var skipað: "skorið eins mörg mörk og þið getið á útivelli." Stundum tókst okkur það og stundum fengum við á baukinn. Þá varstu dottinn út úr Evrópukeppninni og spilið búið. Ef þú lærir ekkert, þá vinnur þú ekkert en þeir lærðu heldur betur af mistökum okkar.

HI: Ef bikarúrslitaleikurinn var ekki sá minnisstæðasti á ferlinum, hvaða leikur var það þá?
Tímabilið er við unnum 2. deildina var frábært. Við vorum með þokkalegt lið og svo varð liðið sterkara og sterkara og á endanum vorum við með heldur óárennilegt lið. Þegar ég kom til liðsins árið 1961 þá vorum við með 1 landsliðsmann; Ian St John sem kom einum mánuði á undan mér til Liverpool. Þremur árum síðar vorum við með 14 landsliðsmenn. Við vorum með ungt lið og efnilegt í upphafi en brátt urðum við landsliðsmenn enda liðið á stöðugri uppleið.

HI: En þú lékst ekki það marga landsleiki fyrir Skotland?
Nei, ég lék bara 3 landsleiki. Skotland var með 3 sterka miðverði í sínum röðum með Billy McNeill hjá Celtic fremstan í flokki. Ef þú varst Skoti sem lékst í Skotlandi, þá varstu í góðum málum. Ég hugsaði bara: "Gott og vel, Ég skal hirða allar medalíurnar í Englandi með Liverpool í staðinn." En það var engu að síður mikill heiður að leika fyrir Skotlands hönd og ég á allar treyjurnar ennþá. En ég hafði ekki töluverðar áhyggjur af þessu.

AB: Þið unnuð 2. deildina 1962, síðan 1. deildina 1964, FA-bikarinn 1965 og svo urðuð þið deildarmeistarar á ný 1966. En frá 1966 til brottfarar þinnar 1970 þá bættust engir verðlaunapeningar í safnið. Hvers vegna stóð á því?
Ég held að ástæðan hafi verið að liðið var tekið að eldast á þessum árum. Við vorum allir á svipuðum aldri þegar við byrjuðum að leika saman í 2. deild og árið 1967 þá vorum við allir um og yfir þrítugt. Liðinu var breytt smám saman og það tók 2-3 ár fyrir nýtt lið að mótast. En þegar þú segir að við nutum ekki velgengni þá vorum við enn með mjög sterkt lið. Við urðum ef til vill ekki meistarar en vorum í 2.-3. sæti og komumst í undanúrslit bikarkeppna. En auðvitað nægði það ekki Liverpool og leitað var leiða til að styrkja liðið.

Eftir að ég hætti hjá Liverpool þá fór ég oft á völlinn og fylgdist með liðinu sem fetaði í fótspor okkar. Það var gríðarlega sterkt lið. Dalglish, Hansen, Souness, frábærir leikmenn. Við erum með marga sterka og efnilega leikmenn í herbúðum okkar núna og með Gerard við stjórnvölinn þá eru okkur allir vegir færir. Hann þráir velgengni. Við unnum 5 bikara á 6 mánuðum en nú heyrir það fortíðinni til. Bill Shankly predikaði ætíð að horfa fram á veginn og gleyma um leið þeim afrekum sem þegar voru unnin. Houllier er svipaður og Shankly. Hann horfir til framtíðar og leyfir þér aldrei að slaka á.

Maður hefur heyrt margar magnaðar sögur tengdar Liverpool og yfirleitt kemur Ron Yeats við sögu. Rifjum upp eina góða sögu af viðskiptum hans og Shankly sem Ron Yeats sagði frá á myndbandsspólunni "Walk On".

Liverpool var að leika í fyrsta skipti í Evrópukeppni og eins og kunnugt var unnu þeir KR í fyrstu umferð 0-5 á útivelli og 6-1 á Anfield, Anderlecht féll því næst í valinn og svo kom að 8 liða úrslitunum gegn FC Köln. Heima- og útileikurinn voru báðir markalausir og þurftu því liðin að mætast í þriðja skiptið á hlutlausum velli. Niðurstaðan varð jafntefli enn einu sinni, nú 2-2. Þá var gripið til þess að útkljá viðureign liðanna með hlutkesti.

Ron Yeats tekur nú við: "Ég valdi skjaldarmerkið. Peningurinn stakkst ofan í drulluna á vellinum og ég sagði við dómarann: "Þú verður að kasta aftur". "Já, það er alveg rétt, Herra Yeats" sagði dómarinn og tók upp peninginn. Ég hélt að þýski fyrirliðinn myndi berja dómarann því að peningurinn var að falla yfir á krónuna. Hann kastaði aftur og nú lenti peningurinn beint á skjaldarmerkinu. Ég fór til Bill Shankly eftir hlutkestið og hann sagði við mig: "Vel gert, ég er stoltur af þér. Hvort valdirðu?" "Ég valdi skjaldarmerkið", sagði ég. Shankly varð alveg gáttaður: "Ótrúlegt, ég hefði líka valið skjaldarmerkið!" og labbaði síðan í burtu.

Við bárum þessa sögu í tal er við ræddum við Yeats á Melwood og hann glotti að þessari skondnu minningu. "Ég hlýt að hafa tryggt liðinu stórfé með því að velja rétt en þegar þessar aðstæður komu upp aftur, í fyrstu umferð Evrópukeppninnar gegn Atletico Bilbao 1968, þá tapaði ég hlutkestinu. Þá kom Shankly til mín eins og í fyrra tilvikinu og spurði mig aftur: "Hvort valdirðu? "Ég valdi skjaldarmerkið", svaraði ég. "Kristur almáttugur, þú hefðir átt að velja krónuna!. Ég skil ekki af hverju í ósköpunum þú gerðir þetta!" [Yeats skellihlær og hristir hausinn].

HI : Í starfi þínu sem aðalnjósnari liðsins þá hlýtur þú að eiga þinn þátt í þessari byltingu hér hjá Liverpool?
Já, en því miður eða sem betur fer hvernig sem þú lítur á það þá er ég ekki í aðstöðu til að taka lokaákvörðun um hvort viðkomandi leikmaður sem ég hef fylgst með sé keyptur eða ekki. Ég fylgist með þeim og mæli með þeim ef svo ber undir. En við höfum líka náunga Alec Miller að nafni sem var framkvæmdastjóri Aberdeen og Hibernian. Hann fylgist með leikmönnum á meginlandinu og þeim liðum sem við mætum í Evrópukeppni. Ég er með 20 útsendara á mínum snærum hér heima og fylgist einnig sjálfur með leikmönnum á meginlandinu og hér heima. Alec er mjög góður í að ráða í taktík andstæðingsins og Gerard treystir honum fullkomlega. Árangurinn er augljós. Fimm bikarar.

AB: Alec er frá Skotlandi eins og þú. Er einhver sérstök ástæða fyrir því að Skotar eru ráðnir til þessa njósnastarfa?
[skellihlær] Já, vegna þess að við erum með þrjú augu sem er bráðnauðsynlegt í þessu starfi [hlær enn meira].

AB: Tökum Hyypia sem dæmi. Hvernig gekk það fyrir sig frá því fyrst var byrjað að fylgjast með honum þar til kaupin voru gerð?
Í upphafi hafði umboðsmaður samband við okkur og benti okkur á Sami. Hann lék þá sem sweeper og og miðvarðarparið fyrir framan hann sá um mestu vinnuna. Ég kom tilbaka og sagðist ekki hafa séð mikið til hans vegna þeirrar stöðu sem hann lék á vellinum. Síðar fengum við fax frá umboðsmanninum hans og hann sagði að nú léki Sami sem miðvörður í flatri vörn. Gerard sagði mér að fara og líta á hann. Ég gerði það og sá að hann gat allt sem ég hafði vonast til að hann gæti gert í miðvarðarstöðunni. Við fylgdumst með honum enn um hríð og loks kom að því að Gerard leit á hann. Hann sá hann í einum leik og það var nóg fyrr hann og hann ákvað að kaupa hann á staðnum. Sami er sannur atvinnumaður. Hann fer að sofa á réttum tíma, passar upp á matarræðið og slíkir leikmenn eru ekki á hverju strái. Hann vinnur sína vinnu og það nægir honum. Leikmenn frá norðurlöndunum virðast vera þannig. Þeir eru mjög atorkusamir og æfa alltaf meira en þörf krefur og láta næturlífið í friði.

AB: Blöð í Englandi blása skemmtanalíf vissra leikmanna upp úr öllu valdi.
Blöðin hafa alltaf verið svona en þau virðast versna með ári hverju. Leikmennirnir skreppa kannski út og fá sér vínflösku með matnum og blöðin slá því upp að þeir hafi verið á skallanum.

AB: Þú hefur þegar minnst á svipaða skapgerð Shankly og Houllier.
Já, Gerard er fagmaður út í gegn. Hann er ótrúlegur og leikmennirnir virða hann. Allir vita hversu heitt hann þráir velgengni Liverpool og leikmennirnir hafa þegar fært honum velgengni. Houllier getur verið vægðarlaus. Hann verður að sýna hörku því að ef hann gerir það ekki þá ganga leikmennirnir á lagið.

AB: Ég vil ekki gagnrýna Houllier en viðskipti hans og Westerveld litu ekki vel út í augum aðdáenda Liverpool.
Já maður veit aldrei fulllvissu sína um hvað gerðist. En framkvæmdastjórinn hefur lokaorðið. En Westerveld hlýtur að hafa gert eða sagt eitthvað sem var Houllier ekki að skapi og mun sjálfsagt aldrei líta dagsins ljós. En Houllier má eiga það að hann brást snöggt við. Hann kom mér að óvörum. Ég vissi ekki að hann ætlaði að kaupa báða markverðina. Við höfðum fylgst með þeim í dágóðan tíma en ég hélt að við værum ekki að spá alvarlega í þeim. Þetta sýnir glöggt ákveðni Houllier í að koma okkur í fremstu röð. Þetta eru hálaunaðir leikmenn og verða að skila árangri. Höfuð Houllier er stöðugt á blokkinni. Ef í ljós kemur að dómgreind hans hefur brugðist þá verður hann látinn fara en ef annað kemur í ljós þá veistu að við erum með góðan framkvæmdastjóra. Ég held að við séum í góðum höndum. Það leggur enginn framkvæmdastjóri eins mikið á sig og Gerard. Hann er fyrstur í vinnuna og síðastur heim.

Arngrímur Baldursson og Hallgrímur Indriðason tóku viðtalið við Ron Yeats 11. október 2001

TIL BAKA