)

Luis Suarez

Þegar upp var staðið í vor var það mál flestra að Luis Suarez, sóknarmaður Úrúgvæ, hefði verið besti leikmaður Liverpool á síðasta keppnistímabili. Hann fór lengst af á kostum og skoraði heil 30 mörk auk þess að valda reglulega ómældum usla í vörnum andstæðinga Liverpool. Gölluð hegðun hans kostaði hann þó markakóngstitilinn og sat hann síðustu fjóra leikina í leikbanni.

Valdatíð Brendan Rodgers hófst ekki sem best og þegar komið var fram í september var staðan sú að Luis Suarez var eini sóknarmaður Liverpool með einhverja reynslu. Búið var að lána Andy Carroll og svo meiddist Fabio Borini illa. Þetta var staða mála allt fram í janúar að Daniel Sturridge var keyptur. En Luis gaf það ekki eftir. Hann bar sókn Liverpool uppi svo til einn og skoraði jafnt og þétt. Í lok nóvember var hann orðinn markahæsti leikmaður deildarinnar! Mörkin komu í öllum regnboganslitum og mörg þeirra voru sérlega glæsileg. Líklega var þó jöfnunarmark hans í 1:1 jafntefli á móti Newcastle það magnaðasta.

Luis átti, þegar komið var fram í apríl, alla möguleika á að verða markahæsti leikmaður deildarinnar en þá komu skapgerðargallar hans honum og Liverpool í koll. Eftir að hafa ráðist að Branislav Ivanovic, varnarmanni Chelsea, og látið tennur skipta var allt í voða. Luis jafnaði leikinn 2:2 með síðustu snertingu leiksins og kannski sinni síðustu með Liverpool. Hann var dæmdur í 10 leikja bann og endaði leiktíðina uppi í stúku! Hvort ferill hans hjá Liverpool verður lengri er óvíst.

Kenny Dalglish, var stjóri Liverpool, þegar Luis var keyptur í lok janúar 2011. Luis skoraði í sínum fyrsta leik þegar hann kom inn á sem varamaður á móti Stoke City og fljótlega varð ljóst að Liverpool hafði keypt magnaðan leikmann. Á leiktíðinni 2011/12 varð Luis Deildarbikarmeistari en hann var ekki síður í fréttum vegna slæmra mála. Orðaviðskipti hans og Patrice Evra, leikmanns Manchester United, voru dýrkeypt og kostuðu leikbann. Hann brást svo Kenny Dalglish og félagum sínum með því að taka ekki í hönd Patrice þegar þeir mættust aftur eftir bannið. Það var ekki eitt heldur allt! 

Luis er sannarlega óútreiknanlegur hvort sem hann er innan eða utan vallar. Við lok síðustu leiktíðar var Luis búinn að spila 96 leiki og skora 51 mark fyrir Liverpool. Það er óhætt að segja að Luis sé einn af tíu og jafnvel fimm bestu sóknarmönnum í heimi. Sumir mundu kannski flokka hann með snillingum í knattspyrnu samtímans en hann er að minnsta kosti gallaður snillingur!

Sf. Gutt.

  

TIL BAKA